Fjárhagsáætlun 2026: Samantekt bæjarstjóra
Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2026 hefur verið samþykkt í bæjarstjórn. Hér að neðan er samantekt bæjarstjóra um áætlunina.
Fjárhagsáætlun næsta árs lítur vel út, samanlagðar tekjur A- og B-hluta verða 9,4 milljarðar króna. Útsvarsprósentan er óbreytt, 14,97% enda lögð áhersla á að halda áfram ábyrgu rekstrarformi. Fasteignaskattur lækkar jafnframt niður í 0,48 prósent, sem léttir byrðar á íbúa Ísafjarðarbæjar.
Rekstarniðurstaðan verður jákvæð um 274 milljónir króna í A hluta og í samstæðunni allri (A+B) er rekstrarniðurstaðan sömuleiðis jákvæð um 583 milljónir króna.
Áfram verður haldið að greiða niður skuldir og standa þannig vörð um sterka fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Fjármálamarkmið eru flest á áætlun eða nást að fullu, sem endurspeglar góða stjórn og trausta stefnumótun.
Framkvæmdir og fjárfestingar nema alls 1,3 milljörðum króna á komandi ári. Þá verður sérstök áhersla lögð á viðhaldsverkefni til að halda áfram að byggja upp og viðhalda innviðum sveitarfélagsins. Frístundastyrkur verður hækkaður, auk þess sem þjónusta á bæði velferðarsviði og skóla- og tómstundasviði verður efld til að mæta þörfum íbúa.
Fráveitumálin verða tekin föstum tökum og unnið markvisst að úrbótum á því sviði. Auk þess verður standsett moltugerðarstöð. Að lokum má reikna með að malbikunarlykt muni svífa um stræti og torg á næsta ári, enda verður unnið ötullega að endurbótum og lagningu gatna.
Samanlagt sýnir áætlunin metnaðarfulla og ábyrga framtíðarsýn þar sem þjónusta, uppbygging og traust fjármál haldast í hendur.
- Rekstrar- og efnahagsreikningur 2026 ásamt áætlun 2027-2029
- Sundurliðað fjárhagsyfirlit
- Greinargerð fjárhagsáætlunar 2026
Tekjustofnar
Veigamestu tekjustofnar sveitarfélaga eru útsvar, fasteignagjöld og framlög frá Jöfnunarsjóði.
Tekjur Ísafjarðarbæjar eru áætlaðar árið 2026 um 7,8 milljarðar króna í A hluta en tekjur A+B hluta eru áætlaðar 9,3 milljarðar. Áætlaðar tekjur samstæðu Ísafjarðarbæjar skiptast þannig:
- Útsvar og fasteignaskattur 4,4 ma. kr.
- Jöfnunarsjóðstekjur 2,6 ma. kr.
- Aðrar tekjur 2,3 ma. kr.
Í útkomuspá 2025 er gert ráð fyrir að útsvarsstofn hækki um 12,2% milli áranna 2024 og 2025. Lagt er til að útsvarsgreiðslur fyrir árið 2026 verði áætlaðar 3.654 mkr. samanborið við 3.258 m.kr. í áætlun 2025. Í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2026 er gert ráð fyrir að útsvarsprósentan verði óbreytt eða 14,97% líkt og undanfarin tvö ár. Notast var við 3,2% áætlun verðbólgu sem forsendur við gerð fjárhagsáætlunar og gjaldskrárhækkanir taka mið af því. Launavísitöluhækkun er að sama skapi áætluð um 4,2% og taka gjaldskrárhækkanir vinnuliða gjaldskráa mið af því.
Framlögum úr Jöfnunarsjóði er skipt í bundin framlög, sérstök framlög, jöfnunarframlög, jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla og jöfnunarframlög vegna málefna fatlaðra.
Á árinu 2026 er heildarframlag Jöfnunarsjóðs áætlað um 2.590,3 m.kr. Þar af eru 805 m.kr. vegna málefna fatlaðs fólks, en samkvæmt samningi um sérhæfða velferðarþjónustu á Vestfjörðum mun Ísafjarðarbær innheimta öll framlög til málaflokksins og greiða þau síðan út til þjónustusvæðanna.
Fasteignaskattur er þriðji stærsti tekjustofn sveitarfélagsins og er lagður árlega á flestar fasteignir í sveitarfélaginu sem metnar eru fasteignamati, samkvæmt Fasteignaskrá. Inní fasteignagjöldum er fasteignaskattur + lóðarleiga + vatnsgjald + holræsagjald + sorpgjald. Í áætlun ársins 2026 er gert ráð fyrir lækkun fasteignaskatts sem nemur tveimur punktum, fer úr 0,50 niður í 0,48 á almennt húsnæði. Heildarhækkun tekna vegna fasteignagjalda árið 2026 er 6,36% miðað við fasteignagjöld ársins 2025. Það skal taka það fram að hækkunin er að hluta vegna stækkunar gjaldstofns, þ.e. fasteignum fjölgar.
Útgjöld
Rekstrargjöld ársins 2026 eru áætluð í A hluta 7,2 milljarðar króna. Þar er um helmingur laun og launatengd gjöld, breyting á lífeyrisskuldbindingum 293 milljónir króna og annar rekstrarkostnaður er 2,8 milljarðar króna. Í A+B hluta eru rekstrargjöldin áætluð 8,2 milljarður króna, breyting á lífeyrisskuldbindingum 303 milljónir króna og annar rekstrarkostnaður 3,4 milljarður króna.
Annar kostnaður eru öll önnur útgjöld en launagreiðslur til að reka sveitarfélagið, þarna er t.d. um að ræða framkvæmdafé, afborganir lána, rekstur fasteigna, félagslegur stuðningur o.s.frv.
Markmið í fjármálum
Í upphafi kjörtímabils, haustið 2022, var tekin ákvörðun um að fókusa á fjármálin. Sett voru fjárhagsleg markmið sem eru leiðarljós við gerð fjárhagsáætlana. Markmiðin snúa að rekstrarlegum þáttum. Hér verður gert grein fyrir nokkrum þeirra sem helst er litið til.
Rekstrarjöfnuður þriggja ára sýnirjákvæða niðurstöðu. Rekstrarjöfnuður í A hluta er rúmar 154 m króna.
Í samanteknum A+B hluta er rekstrarjöfnuður 3ja ára rúmlega 2 milljarðar króna.
Markmið um framlegð er að hún sé hærri en 7,5% (bæði í A hluta og A+B hluta). Við framlagningu þessarar áætlunar til fyrri umræðu náðum við þessu markmið ekki í A hlutanum þar sem framlegðin var þá 6,5%. Á milli umræðna náðum við þeim árangri við frekari vinnu að ná framlegðinni upp í 8,6%.
Í samanteknum A+B hluta er framlegðin 12%, og er hækkun á milli umræðna 1,5%.
Markmið veltufjár frá rekstri er að lágmarki 8,5%, en þar er A-hlutinn 10,8% og samantekinn A+B hluti 14,1%.
Ef horft er á markmiðin efnahagsmegin þá megum við vel við una.
Markmið um skuldahlutfall í A-hluta er að það sé undir 110% sem það er, eða 98%. Markmið um skuldaviðmið í A-hluta er að það sé undir 70%. Það markmið næst einnig og verður 68,1%. Handbært fé í A-hluta er áætlað 267 m.kr en markmiðið er að það sé yfir 265 m. kr.
Skuldahlutfall A+B hluta er áætlað 88,8% en markmiðið er að það sé undir 120%. Markmið um skuldaviðmið A+B hluta er að það sé undir 80% en verður samkvæmt áætlun 52,1%.
Framkvæmdir og fjárfestingar
Sú framkvæmdaáætlun sem lögð er fram gerir ráð fyrir fjárfestingum í A-hluta í kringum 600 m. kr. Fjárfestingar í B-hluta eru áætlaðar 700 m. kr.
Helstu framkvæmdir á næsta ári eru bygging slökkvistöðvar, gatnagerð, malbik, snjóflóðavarnir á Flateyri, endurnýjun á búnaði í sundhöll, lýsing á Torfnesvelli, uppsetning á moltugerðarstöð, uppbygging og endurbætur á skíðasvæði og svona mætti lengi telja. Þá eru miklar framkvæmdir á vegum hafna Ísafjarðarbæjar og má þar nefna byggingu nýrrar móttökubyggingar fyrir skemmtiferðaskipafarþega.
Viðhaldsverkefni
Áætlað viðhald greitt úr aðalsjóði fyrir árið 2026 er 141,7 m. kr samanborið við 89,4 m.kr. í áætlun 2025. Stærstu viðhaldsverkefnin snúa að umferðar- og öryggismálum, en í það eru áætlaðar 85 m. kr. sem felur í sér viðhald gatna, umferðarmerkingar og götulýsingu. Þá er áformað að bæta við tveimur strætóskýlum á ári og að árið 2026 verði bætt við skýlum á Þingeyri og Suðureyri.
Fjölgun stöðugilda
Það er fjölgun stöðugilda í vændum, sem nemur 9,3 stöðugildum. Með fjölgun stöðugilda erum við að koma til móts við auknar þjónustuþarfir. Á nýju ári er gert ráð fyrir nýju starfi kennsluráðgjafa á skóla- og tómstundasviði en aðkallandi er að kennarar og skólastjórnendur fái aukinn faglegan stuðning. Nýr starfsmaður fráveitna verður ráðinn en við erum þáttakendur í Life verkefni sem fjármagnar þessa stöðu. Fjölgun ferðafólks og íbúa kallar á eflingu slökkviliðs, þjónustumiðstöð og hafnar. Þá fjölgar starfsfólki á velferðarsviði um fjóra vegna aukinna þjónustuþarfa sem snúa að stoðþjónustu við fatlað fólk, sem er greitt að hluta af Jöfnunarsjóði.
Hvað breyttist á milli umræðna?
Eftir fyrri umræðu í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar um fjárhagsáætlun ársins 2026 var ljóst að til að ná óbreyttum markmiðunum yrðum við að draga úr rekstrarkostnaði sem myndi nema um 80 milljónum króna. Það varð samt þannig að tillögur úr bæjarráði og skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd lögðu til tekjusamdrátt upp á 15 milljónir, vegna lækkunar á fasteignaskattsprósentu, og aukningu gjalda um 5 milljónir vegna stærri frístundastyrkjapotts.
Aðrir helstu breytingar voru þessar og nema um 193 m.kr.:
- Fasteignaskattstekjur lækka um 15,2 m.kr.
- Jöfnunarsjóðstekjur hækka um 37,3 m.kr.
- Útsvarstekjur hækka um 150 m.kr
- Kostnaður velferðarsviðs lækkar um 52 m.kr.
- Útjöld hátíða Ísafjarðarbæjar hækka um 3 m.kr. vegna sólmyrkvahátíðar
- Útgjöld vegna frístundastyrkja hækka um 5 mkr
- Útgjöld vegna deili-og svæðisskipulags lækka um 6,8 m.kr.
- Útgjöld deildar 21 (sameiginlegur kostnaður) lækkar um 4,7 m.kr.
- Útgjöld þjónustubygginga á Ísafirði aukast um 10 m.kr. vegna óvissu um viðhaldskostnað og rekstrarframlag stjórnsýsluhúss
- Aukning útgjalda til hafnarmannvirkja vegna aukinnar malbikunar um kr. 10 m.kr.
Með þeim breytingum sem gerðar voru á milli umræðna erum við að ná all flestum af fjárhagslegum markmiðum bæjarstjórnar.
Það er mikilvægt að við sem bæjarstjórn stöndum við þau markmið sem við settum okkur í upphafi kjörtímabils og leitum leiða til að ná þeim. Það hefur tekist í langfelstum tilvikum. Á hinn bóginn má benda á að það gengur vel í sveitarfélaginu, það er uppbygging í gangi, það er uppbygging í farvatninu, og framkvæmdaáætlunin okkar sýnir það vel.
Að lokum þakka ég starfsfólki og kjörnum fulltrúum Ísafjarðarbæjar fyrir vel unnin störf.
Ég er bjartsýn á framtíðina í Ísafjarðarbæ.
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri