Fjárhagsáætlun 2023: Samantekt bæjarstjóra

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2023 var samþykkt á 503. fundi bæjarstjórnar sem fór fram þann 1. desember 2022.

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2023

Greinargerð fjárhagsáætlunar 2023

Rekstur og fjárhagsleg markmið

Mikill viðsnúningur verður á rekstri Ísafjarðarbæjar árið 2023 með ábyrgri fjármálastjórn og langtímasýn í fjármálum, eftir að sveitarfélagið hefur verið rekið með miklu tapi síðastliðin ár.

Fjárhagsleg markmið hafa verið sett til að tryggja sjálfbærni rekstursins og til búa sveitarfélagið undir þann vöxt sem fram undan er. Ráðast þarf í uppbyggingu innviða og nauðsynlegar fjárfestingar en það er ekki gert nema með sjálfbærum traustum stoðum.

Fjárhagslegu markmiðin eru:

  • Veltufé frá rekstri sé yfir 7,5%.
  • Þriggja ára rekstrarjöfnuður A-hluta verði jákvæður.
  • Fjárfestingar A-hluta verði 280 m.kr. á næsta ári en eftir það aukist fjárfestingar í 300 m.kr. árið 2024 og 350 m.kr. árin 2025 og 2026.
  • Skuldahlutfall verði innan við 125% árið 2024 og lækki þar til það nái jafnvægi undir 100%.
  • Skuldaviðmið verði til lengri tíma 60%.
  • Staða handbærs fjár í A-hluta verði að jafnaði ekki lægri en 260 milljónir.

Þessi markmið verða endurskoðuð árlega.

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta er áætluð með 206 m.kr. afgangi og gert er ráð fyrir að skuldahlutfall verði 137,8 prósent í árslok.

Útsvar og fasteignagjöld

Lagt er til að útsvarsgreiðslur fyrir árið 2023 verði áætlaðar 2.800 m.kr. samanborið við 2.677 m.kr. í áætlun 2022. Ekki er gert ráð fyrir fjölgun íbúa í þessari áætlun en gert er ráð fyrir að staðgreiðsluskyldar tekjur hækki um 5,5%. Í áætlun 2023 er staðgreitt útsvar áætlað 2.680 m.kr. og eftirágreitt útsvar áætlað 120 m.kr.

Samkvæmt fjárhagsáætlun er lagt til að fasteignaskattur verði óbreyttur frá árinu 2022, en hann var lækkaður árið 2021, og verður því áfram 0,56% á íbúðarhúsnæði og 1,65% á aðrar fasteignir. Fráveitu- og vatnsgjöld verða einnig óbreytt frá árinu 2022. Fráveitu- og vatnsgjöld íbúðarhúsnæðis lækkuðu árið 2022, vatnsgjaldið var lækkað úr 0,10% í 0,02% og holræsagjald úr 0,20% í 0,15%.

Sorpgjöld hækka að meðaltali um 12,2% í samræmi við hækkun verðlags sorpsamnings.

Nýtt kerfi við innheimtu sorpgjalda verður innleitt með nýjum lögum sem taka gildi 1. janúar næstkomandi, svo kallað „Borgað þegar hent er“ innheimtukerfi. Sveitarfélögum verður með nýjum lögum skylt að innheimta meðhöndlun úrgangs sem næst raunkostnaði og að takmörkun verði á nýtingu fasts gjalds. Til að uppfylla kröfur lagabreytinganna hefur Ísafjarðarbær kortlagt fjölda og stærð íláta til að mögulegt verði að innheimta eftir stærð og fjölda þeirra, svokölluð rúmmálsleið. Markmiðið er að klára uppsetningu nýs innheimtukerfis fyrir áramótin en framkvæmd breytinganna verður haldið áfram á árinu 2023, þar sem verður m.a. mögulegt að bjóða upp á sveigjanleika í stærð og fjölda sorpíláta.

Fasteignagjöld hækka samanlagt um 16,42% á milli ára og eru áætluð 883 m.kr. Skýrist það ekki síst af umtalsverðri hækkun fasteignamats í Ísafjarðarbæ en fasteignamat Þjóðskrár Íslands fyrir 2023 var 66.810.450, og fyrir árið 2022 var það 55.902.706 m.kr. eða hækkun um 19,18%.

Aðrar tekjur sveitarfélagsins hækka almennt um 8% en flestar gjaldskrár voru hækkaðar um 2-6%. Við hækkanir var horft til hækkunar verðlags og að greiðsla fyrir ákveðna þjónustu taki mið af kostnaði, s.s. varðandi matarinnkaup, útköll starfsmanna og leyfisgjöld. Afsláttum er áfram haldið inni, s.s vegna barna á grunn- og leikskóaaldri. Sjá nánar í frétt um gjaldskrár 2023.

Framkvæmdaáætlun

Af nýjum verkefnum á framkvæmdaáætlun ber hæst að ráðgert er að setja 95 m.kr. í nýtt gervigras á aðalvöllinn á Torfnesi. Áætlað er að setja 100 m.kr. árið 2024 til að ljúka verkefninu. Hafist verður handa við framkvæmdir eftir að knattspyrnutímabilinu lýkur haustið 2023 og að þeim ljúki áður en keppnistímabilið hefst 2024. Af öðrum framkvæmdum má nefna áframhaldandi vinnu við Sundabakka. Verulegir fjármunir fara til gatnagerðar og malbikunar, meðal annars á nýju og hratt vaxandi iðnaðarsvæði á Suðurtanga. Vatnslagnir í Súgandafirði, umbætur á leikvöllum, fráveituframkvæmdir í flestum byggðakjörnum sveitarfélagsins og áframhaldandi viðgerðir á Safnahúsinu eru meðal liða á framkvæmdaáætlun.

Farið verður í nauðsynlegar viðhaldaframkvæmdir á árinu 2023 en gert ráð fyrir yfir 300 m.kr. í samstæðunni og 114,5 m.kr. á fasteignum eignasjóðs. Stærstu einstöku verkefni árið 2023 eru við Grunnskóla Ísafjarðar, þar er gert ráð fyrir 23,0 m.kr. í viðhald þar af 20,0 m.kr. í glerskipti, í beinu framhaldi af framkvæmdum ársins 2022. Jafnframt er gert ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu á rými í kjallara á grunnskóla Suðureyrar, ásamt endurnýjun á útihurðum og lagfæringum á lóð. Gert er ráð fyrir að laga múrskemmdir og mála Grunnskólann á Flateyri. Á Þingeyri er gert ráð að hefja gluggaskipti á árinu 2023.

Framtíð Ísafjarðarbæjar er björt.

- Arna Lára Jónsdóttir -
bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar