Félagsmiðstöðin á Ísafirði fær styrk úr Styrktarsjóði Nínu

Árgangur 1972 ásamt Hafdísi Gunnarsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs, og Gylfa Ólafssyni,…
Árgangur 1972 ásamt Hafdísi Gunnarsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs, og Gylfa Ólafssyni, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, sem veittu styrkjunum viðtöku.

Félagsmiðstöðin við Grunnskólann á Ísafirði hlaut um helgina 500.000 kr. styrk úr Styrktarsjóði Nínu, sem komið var á fót af árgangi 1972 á Ísafirði.

Sjóðurinn var stofnaður á árgangsmóti hópsins árið 2018 með það að markmiði að styrkja verkefni sem eru árganginum kær og leggja meðlimir sjóðsins til fjármuni í hann árlega. Nafn sjóðsins er dregið af uppáhaldslagi árgangsins, Nínu, Eurovisionframlagi Íslands árið 1991. Úthlutun fer fram á fimm ára fresti og var stór hluti árgangsins kominn saman um liðna helgi til að veita styrki úr sjóðnum. Sem fyrr segir hlaut félagsmiðstöð GÍ styrk en unglingageðteymi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hlaut einnig styrk að upphæð 500.000 kr.

Í tilkynningu frá hópnum kemur fram að hann eigi félagsmiðstöðinni mikið að þakka.

Árgangurinn er stór og tók mikið pláss. Félagsmiðstöðin gaf okkur tækifæri til að vaxa og þroskast á okkar forsendum og með þessum styrk viljum við fá að þakka fyrir og tryggja að hið góða starf sem þar er unnið enn í dag fái byr til að takast á við þau verkefni sem þeim eru falin.
Það er von árgangs 1972 að samfélagið á Ísafirði vaxi áfram um ókomin ár. Samfélagssjóður Nínu mun halda áfram að vaxa og dafna og vill árgangurinn hvetja aðra árganga sem samfélagið hér hefur alið að leggja hönd á plóg og stofna slíka sjóði, samfélaginu til góðs.