Fatai Gbadamosi er íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2025.

Fatai Gbadamosi, íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2025.
Fatai Gbadamosi, íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2025.

Knattspyrnumaðurinn Fatai Gbadamosi var útnefndur íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2025 í athöfn sem fram fór á sunnudaginn á veitingastaðnum Logni.

Fatai Adebowale Gbadamosi frá Nígeríu er einn mikilvægasti leikmaður knattspyrnudeildar Vestra og hefur verið burðarás í liði félagsins undanfarin þrjú ár. Sem varnarsinnaður miðjumaður sameinar hann styrk, leikskilning og óþreytandi vinnusemi.

Á nýliðnu tímabili var Fatai valinn af félagi sínu sem besti leikmaður bikarmeistara Vestra. Hann leiddi liðið með krafti og yfirvegun til sögulegs sigurs í Mjólkurbikar KSÍ, sem var fyrsti bikarmeistaratitill félagsins og eitt stærsta íþróttaafrek vestfirskrar íþróttasögu. Framlag hans innan vallar sem utan var ómetanlegt.

Að mati knattspyrnudeildar Vestra er Fatai sá sem heldur leiknum saman, stillir hraðann og leiðir með góðu fordæmi. Hann er fyrirmynd fyrir samherja sína jafnt á æfingum sem í leikjum, og sýnir mikinn dugnað, vinnusemi og fagmennsku.

Fatai hefur nú skuldbundið sig áfram hjá Vestra og mun leiða liðið inn í Evrópukeppni sumarið 2026. Þar eru miklar væntingar til hans sem leiðtoga og lykilmanns í liði sem heldur áfram að skrifa söguna.

Efnilegustu íþróttamenn Ísafjarðarbæjar 2025

Við athöfnina voru efnilegustu íþróttamenn ársins 2025 einnig útnefnd, en það voru þau Haukur Fjölnisson í körfuknattleiksdeild Vestra og Freyja Rún Atladóttir í knattspyrnudeild Vestra.

Haukur hefur æft körfubolta hjá körfuknattleiksdeild Vestra (áður KFÍ) frá því að hann var fimm ára. Haukur leggur mikið á sig, bæði innan og utan vallar, til að ná árangri fyrir sig og lið sitt í körfubolta. Haukur er einn af lykil leikmönnum meistararflokks karla.

Freyja Rún er einn efnilegast leikmaður sem upp hefur komið hjá Vestra í mörg ár. Aðeins 14 ára gömul kom hún við sögu í átta leikjum hjá meistaraflokki kvenna í sumar og skoraði þar þrjú mörk.


Haukur Fjölnisson og Freyja Rún Atladóttir, efnilegustu íþróttamenn Ísafjarðarbæjar 2025.

Hvatningarverðlaun skóla-, íþrótta- og tómstundanefndar

Skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar afhenti hvatningarverðlaun sín á útnefningarhófinu. Verðlaunin hlaut Gunnar Ingi Hákonarson, handboltamaður í Herði.

Í rökstuðningi nefndarinnar segir:

Íþróttir snúast ekki aðeins um árangur á vellinum, heldur einnig um tengsl við samfélagið, elju og fórnfýsi. Efnilegur íþróttamaður stóð frammi fyrir stórri áskorun nú í upphafi vetrar. Gunnar Ingi Hákonarson, fæddur 2006, lenti í alvarlegu umferðaslysi og á einni svipan breyttist líf hans. Í kjölfarið hefur hann þurft að takast á við erfið verkefni sem enginn ungur íþróttamaður á að þurfa að upplifa: fengið gangráð, farið í krefjandi endurhæfingu og tekist á við óvissu og ótta. Samt hefur Gunnar mætt hverjum degi af ótrúlegum styrk. Gunnar er gott dæmi um hugrekki, seiglu og þann anda sem íþróttir eiga að byggja á. Gunnar er fyrirmynd – ekki aðeins sem íþróttamaður, heldur sem manneskja.

 
Brynjar Gunnarsson, afi Gunnars, tók við hvatningarverðlaununum fyrir hans hönd. Með honum eru Nanný Arna Guðmundsdóttir, formaður skóla-, íþrótta- og tómstundanefndar, og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir bæjarstjóri.

Landsliðsverkefni

Íþróttafólk sem tók þátt í landsliðsverkefnum á vegum sérsambands síns, var valið á æfingar, í úrtakshópa eða keppt fyrir hönd Íslands á árinu 2025 var einnig heiðrað á útnefningunni.