Endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs: Umsögn Ísafjarðarbæjar

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur sent inn umsögn til innviðaráðuneytis vegna tillagna um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Í samráðsgátt Stjórnarráðsins kemur fram að markmið endurskoðunarinnar er að bæta gæði jöfnunar, einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins og að Jöfnunarsjóður fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar.

Lagt er til að tekið verði upp nýtt líkan sem leysi núverandi tekjujöfnunar-, útgjaldajöfnunar- og fasteignaskattsframlög Jöfnunarsjóðs af hólmi. Um yrði að ræða gagnsætt líkan sem sameinar fyrrgreind framlög í eitt framlag. Einnig að gerðar verði eftirfarandi breytingar á jöfnunarkerfinu:

  1. Nýtt jöfnunarframlag. Lagt er til að verði veitt vegna sérstakra áskorana sem skiptist í:
    Framlag vegna sérstaks byggðastuðnings.
    Framlag til sveitarfélaga með sérstakt höfuðstaðarálag.
  2. Breytingar á framlögum vegna íslensku sem annað tungumál. Lagt er til að Reykjavíkurborg fá greidd framlög vegna kennslu nemenda með íslensku sem annað tungumál.
  3. Vannýting útsvars dregin frá framlögum. Starfshópurinn leggur til að nýti sveitarfélag ekki útsvarshlutfall að fullu komi til skerðingar á framlögum úr Jöfnunarsjóði sem nemi vannýttum útsvarstekjum, þ.e. mismuni á útsvari miðað við hámarksálagningu og útsvari miðað við álagningarhlutfall sveitarfélags.

Starfshópurinn leggur til að nýtt líkan jöfnunarframlaga verði innleitt í skrefum á fjögurra ára tímabili til að stuðla megi að fyrirsjáanleika í rekstri sveitarfélaga.

Að sögn Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra, styðja tillögurnar að nýju regluverki vel við markmið sjóðsins sem hefur það hlutverk að jafna mismunandi útgjaldaþarfir sveitarfélaga. „Tillögurnar eru einfaldari og fyrirsjáanlegri en þær sem eru í gildi í dag. Þær koma vel við sveitarfélög eins og Ísafjarðarbæ, sem eru meðalstór, hafa fleiri en einn þéttbýliskjarna og eru með flóknar útgjaldaþarfir.“

Umsögnin í heild sinni:

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fagnar tillögum að breytingum á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem hafa það markmiði að einfalda útreikninga og bæta gæði jöfnunar. Mikilvægt er að Jöfnunarsjóður sinni með raunverulegum hætti því mikilvæga hlutverki að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum en aðstæður sveitarfélaga landsins eru afar ólíkar sem koma þarf til móts við. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tekur undir þá áherslu sem birtist í tillögunum um markvissa jöfnun, og að jöfnunarkerfið styðji áfram við bakið á meðalstórum sveitarfélögum og þeim sveitarfélögum sem hafa fleiri en einn þéttbýliskjarna og flóknar útgjaldaþarfir. Jafnframt má horfa til nýs framlags vegna höfuðstaðaálags, en önnur sveitarfélög utan Akureyrar og Reykjavíkurborgar, eru í dag einnig að veita mikla og fjölþætta félagslega þjónustu sem taka mætti tillit til.

Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi hans. Tilgangurinn er að sveitarfélögin standi á jafnari grunni, að teknu tilliti til land- og lýðfræðilegra þátta auk fjárhagslegs styrks, til að sinna sínum lögbundnu verkefnum.