Drög að endurskoðuðu hættumati fyrir Flateyri birt

Mynd: Veðurstofa Íslands
Mynd: Veðurstofa Íslands

Veðurstofa Íslands hefur birt drög að endurskoðuðu hættumati fyrir Flateyri sem kynnt var á íbúafundi með Flateyringum og fyrir bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar í nóvember 2020. Eftir á að rita skýrslu um hættumatið og öðlast það ekki formlegt gildi fyrr en það hefur verið kynnt aftur og staðfest af ráðherra.

Hættumatskort (DRÖG desember 2020)

Gert hefur verið rýmingarkort sem byggir á þessu hættumati. Rýmingargreinargerðin hefur ekki verið uppfærð en verður það gert þegar vinnu við hættumatið er lokið.

Rýmingarkort af Flateyri - til bráðabirgða

Rýmingarkort af Flateyri

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að eftir snjóflóðin á Flateyri í janúar hafi verið ljóst að endurskoða þyrfti hættumat fyrir Flateyri og að ofanflóðahætta þar væri vanmetin. „Bæði snjóflóðin fóru að hluta fyrir varnargarðana ofan þorpsins. Flóðið úr Innra-Bæjargili féll á hús við Ólafstún þar sem stúlka grófst í flóðinu en var bjargað. Flóðið úr Skollahvilft rann langt út í höfnina og olli þar mjög miklu tjóni. Talið er að sá hluti flóðanna sem rann yfir varnargarðana hafi verið svokallaður flóðfaldur, sem rennur ofan á fremsta hluta flóðsins með iðuköstum þar sem hraðinn getur verið mun meiri en hraði sjálfs þétta kjarna flóðsins.“

Nánari upplýsingar má finna í frétt Veðurstofunnar um málið.