Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 8

Á vinnufundi um svæðisskipulag Vestfjarða.
Á vinnufundi um svæðisskipulag Vestfjarða.

Dagbók bæjarstjóra 27. febrúar–2. mars 2025, í áttundu viku í starfi.

Mánudagurinn var mikilvægur fundadagur. Bæjarráð, að sjálfsögðu.

Síðan sat ég fund með nokkrum bæjarstjórum, hafnarvörðum og fulltrúum samtaka skemmtiferðaskipafyrirtækja (CLIA og Cruise Iceland). Fulltrúar frá CLIA voru stödd í Reykjavík í vikunni þar sem þau nýttu tímann og funduðu með ráðherrum, þingmönnum og okkur. Umræðuefnið var hvaða áhrif boðuð hærri gjöld eða skammur fyrirvari gjalda mun hafa á þróun í komum skemmtiferðaskipa til Íslands. Fyrirtækin eru að selja ferðir sínar með allt að tveggja ára fyrirvara þannig að áhrifin koma ekki alveg í ljós fyrr en 2027. Við skulum halda í þá von að það finnist lausn og við sitjum ekki uppi með tómar hafnir og ónotaðar fjárfestingar tengdar komu skemmtiferðaskipa.

Það var svo ekkert tilfinngaklám til umræðu á síðasta fundi mánudagsins þegar við, nokkrir bæjarstjórar funduðum með fulltrúum frá Samgöngustofu, Isavia, heilbrigðisráðuneyti, innviðaráðuneyti og Reykjavíkurborg, um lokun flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli. Á fundinum kom fram að 10% allra sjúkraflutninga á Íslandi eru upp á líf og dauða og hver mínúta skiptir máli, einn fjórði allra sjúkrafluga fer um þessa tilteknu flugbraut sem styrinn stóð um. Þegar fundurinn var haldinn var nýlega búið að fella 600 tré. Að því loknu var framkvæmt áhættumat og það var verið að ljúka því þennan dag.

Áhættumatið er grunnurinn að ákvarðanatöku um næstu skref en við fengum svo ánægjulegar fréttir að brautin var opnuð fyrir sjúkraflug síðastliðinn fimmtudag. Það liggur svo fyrir að halda áfram og höggva alls 1400 tré svo annað flug, eins og til dæmis kennsluflug geti farið um tiltekna braut. Fyrir mér eru þetta engin geimvísindi og ég hreinlega skil ekki seinaganginn en árið 2018 skilaði nefnd um framtíð flugvallarins af sér skýrslu og í henni kom fram að það væri áríðandi að fella tré til að tryggja öryggi. Halló, það eru sjö ár síðan!

Í vikunni gaus upp mikil umræða á samfélagsmiðlum um Gróanda. Tilefnið var að nýlega var auglýst skipulagslýsing um Eyrarkláf. Það fór í gang sá orðrómur að búið væri að taka ákvörðun um og hanna mannvirki og bílastæði á því svæði sem Gróandi er. Hið rétta er að bærinn samþykkti að auglýsa skipulagslýsingu en það er fyrsta skref í lýðsræðislegu ferli. Með kynningu lýsingarinnar er almenningi gefinn kostur á að leggja fram sjónarmið og ábendingar sem að gagni gætu komið við mótun tillögu að breytingu skipulags vegna Eyrarkláfs.

Ég átti mjög góðan fund með Hildi Dagbjörtu forsvarskonu Gróanda en hún hefur með mikilli seiglu unnið að uppbyggingu svæðisins. Þá sá ég að í dag var fundur á Heimabyggð þar sem Gróandi bauð uppá samtal og spjall um það sem er að gerast í Gróanda og einnig var fulltrúi frá stjórn Eyrarkláfs á fundinum. Ég er veðurteppt í Reykjavík og hafði því ekki tök á að mæta en ég vona að það hafi verið vel mætt. En til að taka af allan vafa, það hefur aldrei staðið til að leggja stein í götu Gróanda.

Gleðitíðindi vikunnar voru að það náðust samningar í kennaradeilunni. Ég óska öllum til hamingju með það og ég hlakka til að sjá hvernig virðismatsvegferðin gengur. Það var mikið havarí í aðdragandanum og verð ég bara að segja að mér fannst fólk fara fram úr sér. Þarna var um að ræða deilu á milli stéttarfélaga kennara annarsvegar og sveitarfélaga og ríkis hinsvegar, mér þótti dapurlegt að sjá deiluna persónugerða gagnvart kjörnum fulltrúum. Skrýtið að svona deila hafi snúist á tímabili upp í persónulegar árásir en ég ætla ekki að fara nánar út í það hér. Mér finnst bara lágmark að gera þá kröfu að fólk umgangist hvort annað af virðingu, því þannig byggir maður upp traust.

Á vinnufundi um svæðisskipulag Vestfjarða.
Á vinnufundi um svæðisskipulag var unnið í hópum. Ég var í hóp númer 4, með Ástrósu Valsdóttur bæjarfulltrúa í Bolungarvík, Jenný Láru Magnadóttur bæjarfulltrúa í Vesturbyggð og Axel Överby sviðsstjóra hjá Ísafjarðarbæ.

Það var stór vinnufundur í svæðisskipulagsnefndinni í vikunni, þetta potast allt saman í rétta átt. Ég ætla svo sem ekkert að segja meira frá þessu núna en ég hef áður lýst þessari vinnu í fyrri dagbókarfærslu og ég á alveg örugglega eftir að tala um þetta síðar.

Á fundi í Vestfjarðastofu með þingmönnum Samfylkingar.
Á fundi í Vestfjarðastofu með þingmönnum Samfylkingar.

Þá voru einhverjir þingmenn á ferð í kjördæmaviku, ég missti reyndar af Framsóknarfólki en þau voru með opinn fund á sama tíma og ég var á upplýsingafundi með Jöfnunarsjóði, þá náði ég ekki opna fundinum með Flokki fólksins en ég náði í skottið á Samfylkingarfólki.

Heimsókn í Hvestu.
Sigþrúður Margrét Gunnsteinsdóttir (Sissú), forstöðumaður Hvestu og skammtímavistunar, Hjalti Þórarinsson, Kristín Þórarinsdóttir, ég, Guðmundur Þórarinsson, Matthildur Benediktsdóttir og Margrét Geirsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs.

Vinnustaðaheimsókn vikunnar var í Hvestu. Hvesta Hæfingarstöð er vinnustaður og dagþjónusta fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Hlutverk Hvestu er að bjóða notendum upp á vinnuumhverfi og tómstundamiðaða þjónustu sem tekur mið af áhuga og þörfum hvers og eins. Þarna er unnið að því að auka hæfni fatlaðs fólks til starfa, efla virkni og viðhalda getu í daglegu lífi með þjálfun.Það var algjörlega frábært að hitta allt fólkið og mikið var spjallað.

Ég fór suður á helginni, á meðan eiginmaðurinn sat landsfund í sínum flokki þvældist ég um, fór í spa, á bókamarkað, á „Garnival/ (hátíð fyrir prjónafólk), átti gæðastundir með vinkonum, systur, mági og syni. Ég lét svo tilleiðast og þáði boð um að fara á landsfundarhófið. Það var gaman, ég hitti fullt af gömlum kunningjum og sveitungum, borðaði góðan mat og dansaði fram á nótt. Takk fyrir góða helgi! Sjallar, til hamingju með nýja forystu.

Framundan er spennandi vika, sem mun rjúka áfram á ógnarhraða. Njótið daganna, það mun ég gera.