Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 46

Jólasveinarnir höfðu hraðar hendur við að útbýta gotteríi á Þingeyri.
Jólasveinarnir höfðu hraðar hendur við að útbýta gotteríi á Þingeyri.

Dagbók bæjarstjóra dagana 17. – 23. nóvember 2025, í 46. viku í starfi.

Þessi vika var þétt. Mikið að gera. Ég fékk einhvern flensuskít en náði að keyra mig í gegnum dagana en það hefndi sín í lok dags og lá ég eins og rotuð þegar heim kom. Núna á sunnudegi er ég sama sem raddlaus en þetta kemur allt.

Stærsta mál vikunnar var að bæjarstjórn samþykkti, eftir aðra umræðu, framlagða fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2026. HÚRRA!

Fjárhagsáætlunin lítur vel út, samanlagðar tekjur A- og B-hluta verða 9,4 milljarðar króna. Útsvarsprósentan er óbreytt, 14,97% enda lögð áhersla á að halda áfram ábyrgu rekstrarformi. Fasteignaskattur lækkar jafnframt niður í 0,48 prósent, sem léttir byrðar á íbúa Ísafjarðarbæjar.

Rekstarniðurstaðan verður jákvæð um 274 milljónir króna í A-hluta og í samstæðunni allri (A+B) er rekstrarniðurstaðan sömuleiðis jákvæð um 583 milljónir króna.
Áfram verður haldið að greiða niður skuldir og standa þannig vörð um sterka fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Fjármálamarkmið eru flest á áætlun eða nást að fullu, sem endurspeglar góða stjórn og trausta stefnumótun.

Framkvæmdir og fjárfestingar nema alls 1,3 milljörðum króna á komandi ári. Þá verður sérstök áhersla lögð á viðhaldsverkefni til að halda áfram að byggja upp og viðhalda innviðum sveitarfélagsins. Frístundastyrkur verður hækkaður, auk þess sem þjónusta á bæði velferðarsviði og skóla- og tómstundasviði verður efld til að mæta þörfum íbúa.

Fráveitumálin verða tekin föstum tökum og unnið markvisst að úrbótum á því sviði. Auk þess verður standsett moltugerðarstöð. Að lokum má reikna með að malbikunarlykt muni svífa um stræti og torg á næsta ári, enda verður unnið ötullega að endurbótum og lagningu gatna.

Það var mikil eining í röðum bæjarfulltrúa við afgreiðsluna og gott að finna að við höfum öll metnað og ábyrga framtíðarsýn þar sem þjónusta, uppbygging og traust fjármál haldast í hendur.

Fjárhagsáætlun 2026: Samantekt bæjarstjóra

Fjárhagsáætlun 2026

Greinargerð fjárhagsáætlunar 2026

Slökkvistöðvarnefnd fundaði í lok vikunnar og fjallaði um framkvæmdahraða verkefnisins. Sendum boltann til bæjarráðs sem tekur ákvörðun um þetta þar sem bæjarráð ber ábyrgð á og tekur ákvarðanir sem snúa að fjármálum sveitarfélagsins.

Svæðisskipulagið var afgreitt úr nefnd í vikunni og nú hafa öll sveitarfélög á Vestfjörðum fengið beiðni um samþykki bæjar/sveitarstjórnar á auglýsingu tillögu að Svæðisskipulagi Vestfjarða 2025-2050. Það er jákvætt að þetta verkefni hefur staðist tímaáætlun sem lagt var upp með fyrir tveimur árum síðan. Allar líkur á að Svæðisskipulag Vestfjarða verði staðfest næsta vor.

Almannavarnanefnd fundaði á föstudag, það eru alltaf tveir fundir á ári hjá þeirri nefnd, sem er mjög fjölmenn.

Ég átti mjög góðan fund með Pálma svæðisstjóra á Vestursvæði og Kristni deildarstjóra þjónustudeildar Vegagerðarinnar. Fundarefnið var öryggismál á Skutulsfjarðarbraut og umbætur á öryggismálum í Vestfjarðagöngum.

Ég fór í heimsókn í Tónlistarskóla Ísafjarðar í vikunni, Doddi bæjarfulltrúi kom með mér. Bjarney Ingibjörg skólastjóri tók á móti okkur, fór yfir starfsemi skólans og gekk með okkur um húsakynnin. Þrír píanónemar spiluðu eitt jólalag, sexhent, inni í Hömrum sem er tónleikasalur skólans. Tónlistarskóli Ísafjarðar var stofnaður árið 1948 af Tónlistarfélagi Ísafjarðar og hefur hann verið rekinn sem sjálfseignarstofnun. Aðkoma bæjarins að rekstrinum er sú að bærinn greiðir laun kennara og skólastjórnenda, samtals 13,5 stöðugildi. Góð og gagnleg heimsókn í Tónlistarskólann, takk!

Yfirlit yfir fjölda nemenda í TÍ, eftir hljóðfæri. Píanó 81. Gítar, rafgítar og bassi 35. Fiðla 7. Selló 4. Blásturshljóðfæri 20. Einsöngur 15. Forskóli 23. Kór 26. Samspil 11. Slagverk 15.
Upplýsingar um fjölda nemenda í Tónlistarskólanum.

Sigga, Doddi og Bjarney Ingibjörg á skrifstofu kennara í TÍ.
Ég, Doddi bæjarfulltrúi og Bjarney Ingibjörg skólastjóri Tónlistarskólans.

Þrír nemendur TÍ spila sexhent á flygilinn í Hömrum.
Þau spiluðu sexhent í Tónlistaskólanum.

Í lok vinnudags á föstudag skellti ég mér á sýningu í Lýðskólanum en nemendur voru að sýna afrakstur tveggja vikna í grímusmiðju. Grímusmiðjan er á vegum Kómedíuleikhússins og grímukennarar eru þau Elfar Logi og Marsibil. Gaman að sjá afraksturinn og fékk ég að sprella smá með þeim af þessu tilefni.

Sigga, þakin vaselíni, með plast utan um hárið.
Alþakin vaselíni í andliti, búið að plasta hausinn.

Sigga með gifsgrímu yfir andlitinu.

Afsteypa af andliti Siggu komin upp á vegg. Fyrir neðan er miði sem á stendur: Hver skildi þetta vera.

Helgin einkenndist af tendrun jólaljósa á jólatrjám á Þingeyri og Flateyri, kolaportsmarkaði í Hnífsdal, jólahlaðborði á Logni, jólamarkaði á Flateyri, sem sagt allskonar jólatengdu.

Jólatréð á Þingeyri eftir að ljósin voru tendruð. Fjöldi fólks samankomið fyrir neðan Simbahöllina.
Jólatréð á Þingeyri kemur úr garði á Engjaveginum á Ísafirði, stórt og fallegt tré.

Kirkjukórinn að syngja í sviðsbílnum.
Kirkjukórinn í Dýrafirði söng nokkur jólalög við tendringuna á Þingeyri.

Leikskólabörn að syngja í sviðsbílnum.
Leikskólabörn á Þingeyri tóku lagið á tendruninni þar.

Skólabörn á Flateyri að stilla sér upp í sviðsbílnum.
Á Flateyri sungu skólabörn.

Jólatréð á Flateyri eftir tendrun.
Jólatréð á Flateyri var tekið úr skógarreitnum fyrir ofan Grænagarð í Skutulsfirði. Glæsilegt tré.

Séð yfir félagsheimilið á Flateyri þar sem fjöldi fólks er að skoða úrvalið á markaðinum.
Á jólamarkaðnum í Samkomuhúsinu á Flateyri.

Séð yfir stóra salinn í félagsheimilinu í Hnífsdal. Þar eru lengjur af borðum, fullar af fötum. Fjöldi fólks að skoða úrvalið.
Árlega halda kvenfélagskonur í Hnífsdal kolaportmarkað og kökubasar. Þetta er alltaf mjög vinsælt og vel sótt.

Dúi, Sigga og Erla við hringborð á veitingastaðnum Logni.
Við skelltum okkur á jólahlaðborð með Erlu vinkonu.

Sara Signýjardóttir og Skúli Þórðar að syngja og spila á píanó og gítar á veitingastaðnum Logni.
Skúli mennski og Sara spiluðu jólalög á hlaðborðinu.

Þá voru magnaðir minningartónleikar um Halla Engilberts á laugardagskvöld. Þar komu fram fjölmargir listamenn sem unnu með Halla í gegnum tíðina. Fjölskylda Halla kom á svið í lokin og tók nokkur lög við frábærar undirtektir áheyrenda. Gæsahúðarmómentin voru ófá á þessum tónleikum.

Séð niður í salinn í Edinborgarhúsinu ofan af svölum. Sviðið er fullt af tónlistarfólki og úti í sal eru margir áhorfendur.
Á minningartónleikum um Halla Engilberts, í Edinborgarhúsi.