Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 43

Frá fundi Almannavarnadeildar ríkislögrelgustjóra (AVD) í sal bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.
Frá fundi Almannavarnadeildar ríkislögrelgustjóra (AVD) í sal bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

Dagbók bæjarstjóra dagana 27. október – 2. nóvember 2025, í 43. viku í starfi.

Ellefti mánuður ársins að hefjast! Hvað er með þennan tíma? Ég er ekki hissa á að ljóðskáld hafi haft tímann að yrkisefni. Hver kannast ekki við Tímann og vatnið eftir Stein Steinar og vitna þá gjarnan í hann en færri kannast kannski við þetta.

Tíminn er eins og hringur
og himinsins ljósakrans.
Ég ferðast um nútíð og framtíð
í fótspor hins hugsandi manns.

Svava Strandberg

Mér finnst nefnilega tíminn vera eins og hringur og nú styttist í að árið renni sitt skeið. Það er allavega að fara í hönd tími sem er alltaf mjög fljótur að líða. Verkefnunum fækkar ekki og var þessi vika enginn eftirbátur annarra þegar kemur að þeim.

Það sem bar hæst í líðandi viku var að fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2026 var lögð fram til fyrri umræðu. Til grundvallar þessari áætlun eru fjárhagsleg markmið sem við settum okkur í upphafi kjörtímabils. Það er gríðarlega mikilvægt verkfæri sem er brýnt að við nýtum okkur.

Miðað við áætlunina eins og hún var núna við fyrri umræðu þá eru lykilstærðirnar hér:

Rekstrarjöfnuður

Markmið okkar er að rekstrarjöfnuður þriggja ára sé jákvæður. Því markmiði náum við með glæsibrag, með rekstrarjöfnuð upp á tæpar 840 milljónir króna.

Framlegð

Markmið okkar er að framlegð sé yfir 7,5%, bæði í A-hluta og sameinuðum A+B hluta. Í A-hlutanum náum við því markmiði ekki, þar sem framlegðin er 6,5%, en í samanteknum A+B hluta er hún 10,4%.

Til að hækka framlegðina í 7,5% þurfum við að draga úr rekstrarkostnaði eða auka tekjur um samtals um það bil 80 milljónir króna, ef við ætlum að halda okkur við þetta markmið. Sú vinna mun fara fram á milli umræðna og verður verkefni næstu viku að finna leiðir til að ná þessari hækkun.

Veltufé frá rekstri

Markmið okkar er að veltufé frá rekstri sé yfir 8,5%. Í A-hlutanum er hlutfallið 8,8% og í samanteknum A+B hluta 12,6%, sem þýðir að markmiðinu er náð.

Efnahagur og skuldahlutföll

  • Skuldahlutfall í A-hluta á að vera undir 110%, og það markmið næst, þar sem hlutfallið er 98,6%.
  • Skuldaviðmið í A-hluta á að vera undir 60%, en þar náum við ekki markmiðinu þar sem hlutfallið er 67,4%.
  • Markmið um veltufjárhlutfall og afborganir í hlutfalli við framlegð í A-hluta næst ekki að þessu sinni.
  • Handbært fé í A-hluta er áætlað 445 milljónir króna, sem er vel yfir markmiðinu sem er 265 milljónir króna.

Samstæðan (A+B hluti)

  • Skuldahlutfall A+B á að vera undir 120%, og er það áætlað 92,5% árið 2026.
  • Skuldaviðmið A+B á að vera undir 80%, og er það áætlað 52,8% árið 2026.
  • Veltufjárhlutfall A+B hluta á að vera yfir 1,0, og samkvæmt áætlun 2026 verður það 1,01.

Veigamestu tekjustofnar sveitarfélaga eru útsvar, fasteignagjöld og framlög frá Jöfnunarsjóði. Við áætlun útsvars Ísafjarðarbæjar er stuðst við áætlanir frá hag- og upplýsingasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga sem gefur út staðgreiðsluáætlun sveitarfélaga. Í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2026 er gert ráð fyrir að útsvarsprósentan veðri óbreytt eða 14,97% líkt og tvö undanfarin ár. Varðandi fasteignagjöldin þá er þar inni fasteignaskattur (0,5% óbreytt frá fyrra ári) + lóðarleiga + vatnsgjald + holræsagjald + sorpgjald.

Margir sem lesa þennan pistil skilja eflaust ekkert í því hvað er A-hluti og A+B hluti. Starfsemi sveitarfélaga skiptist í A-hluta og B-hluta sem saman mynda samstæðu sveitarfélagsins. A-hluti merkir aðalsjóð sveitarfélags auk annarra sjóða og stofnana sem sinna starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð af skatttekjum. Undir B-hluta falla stofnanir sveitarfélags, fyrirtæki og aðrar rekstrareiningar sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélags og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar, þarna er til dæmis um að ræða höfnina, vatnsveitu, fráveitu og fleira.

Sú framkvæmdaáætlun sem lögð er fram gerir ráð fyrir fjárfestingum í kringum 600 m.kr. en markmiðið fyrir árið 2026 var 500 m.kr. Ástæða þess að við leggjum þetta upp svona er að það hefur gengið betur hjá okkur undanfarin tvö ár en ráð var fyrir gert. Það er samt sem áður mikilvægt að við sem bæjarstjórn stöndum við þau markmið sem við settum okkur í upphafi kjörtímabils og leitum leiða til að ná þeim. Það verður verkefnið á milli umræðna.

Á hinn bóginn má benda á að það gengur vel, það er uppbygging í gangi, það er uppbygging í farvatninu og framkvæmdaáætlunin okkar sýnir það vel.

Helstu framkvæmdir á næsta ári eru bygging slökkvistöðvar, gatnagerð, malbik og aftur malbik, endurnýjun á búnaði í Sundhöll Ísafjarðar og svona mætti lengi telja. Þá eru miklar framkvæmdir á vegum hafnarinnar og má þar nefna byggingu nýrrar móttökubyggingar fyrir skemmtiferðarskipafarþega.

Það er fjölgun stöðugilda í vændum. Með fjölgun stöðugilda erum við að koma til móts við auknar þjónustuþarfir. Á nýju ári er gert ráð fyrir nýju starfi kennsluráðgjafa á skóla- og tómstundaviði, nýr starfsmaður fráveitna verður ráðinn en við erum þáttakendur í Life verkefni sem fjármagnar þessa stöðu, fjölgun ferðafólks og íbúa kallar á eflingu slökkviliðs, þá eru meiri þjónustuþarfir sem snúa að stoðþjónustu við fatlað fólk sem er þá greitt að hluta í gegnum jöfnunarsjóð.
Það er verk að vinna fram að síðari umræðu en ég er full bjartsýni.

Þá var góð umræða meðal bæjarfulltrúa um þessa áætlun og ekki annað hægt að skynja en að við séum í þessu saman. Ég er þakklát fyrir það. Þá er ég þakklát fyrir frábært starfsfólk Ísafjarðarbæjar sem vinnur hörðum höndum að því að gera hlutina vel.

Forstöðumannafundur var í vikunni. Góður fundur sem snerist að mestu um að setja okkur inní nýjan starfsmannavef og spjall sem verið er að innleiða. Þá var kynnt dagskrá á stóra starfsmannadeginum sem allir starfsmenn Ísafjarðarbæjar eru boðaðir á í nóvember. Þar verður ýmislegt fróðlegt til umræðu eins og til dæmis áhugavert erindi um netöryggi. Síðan verður kynning frá starfsfólki af erlendum uppruna og verður inngilding viðfangsefni, þá verður tekið samtal um hvernig við getum brúað kynslóðabilið. Undir lokin bíður okkar síðan óvænt uppákoma! Ég er farin að telja niður.

Við fengum góða heimsókn frá starfsfólki Almannavarnadeildar ríkislögrelgustjóra (AVD) Tilgangur fundarins var fyrst og fremst að AVD var að kynna vinnu varðandi greiningu áfallaþols, en þar er lagt upp með annað vinnulag en verið hefur undanfarin ár. Áherslan þar hefur verið á hættumat vegna náttúruvár en nú er þörf á að víkka út áhersluna. Farið var yfir forsendur hættumats og þá sérstaklega þá þætti sem tengjast ógnarverkum af mannavöldum og inn í þetta koma mikilvægir innviðir.

AVD leggur áherslu á að fá stöðuna um land allt beint í æð og heyra hverjar helstu áskoranir eru. Þess vegna komu þau til okkar, þá er alltaf gott að sjá framan í fólk sem við erum að vinna með og fundinum ætlað að efla samstarfið enn frekar. Það hafa orðið þó nokkrar mannabreytingar innan deildarinnar og því mikilvægt að tengjast almannavarnanefndum og hitta alla aðila í eigin persónu. Frá AVD mættu Jóhann B. Skúlason aðstoðaryfirlögregluþjónn og Dagný Jónsdóttir verkefnastjóri. Þá voru á fundinum fulltrúar frá lögreglunni, almannavarnanefnd og slökkviliðsstjóri. Ljómandi góður fundur og tímabær.

Dagný stendur við ræðupúltið í fundarsal bæjarstjórnar.
Dagný Jónsdóttir verkefnastjóri hjá Almannavarnadeild ríkislögrelgustjóra (AVD) fékk að prófa púltið og þótti það ekki leiðinlegt.

Í vikunni hittist bakland Í-lista á góðum fundi og var ákveðið að fara að funda oftar og reglulegar í vetur.

Séð aftan á fundargesti í Rögnvaldarsal í Edinborgarhúsinu. Aftast á mynd er skjávarpatjald þar sem sjást gestir sem eru viðstaddir í gegnum fjarfundabúnað.Frá baklandsfundi Í-lista.

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Vestfjörðum fór fram í vikunni, í boði Vestfjarðastofu. Þar kom saman góður hópur fólks sem starfar við ferðaþjónustu á svæðinu og einkenndist kvöldið af glaðværð og stemmingu. Ella Óla sá um veitingarnar (og já ég er enn með vatn í munni) og Villi naglbítur skemmti.

Ferðaþjónar í uppskeruboði í sal Vestfjarðastofu.
Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Vestfjörðum.

Villi, Dúi og Sölvi að flytja tónlist á sviði í uppskeruboðinu.
Villi naglbítur skemmti á uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar og fékk Dúa og Sölva í smá atriði með sér.

Fyrir utan annasama „hefðbundna“ vinnudaga var ýmislegt annað að gerast. Það var til dæmis opið hús í Tónlistarskóla Ísafjarðar, þar var fjölmenni og ómaði tónlist út úr hverri stofu skólans.

Séð inn ganginn á 1. hæð TÍ.
Frá opnu húsi í Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Guðjón á svölum Hamra, sal TÍ.
Guðjón vinur okkar á opnu húsi, hann bjó á Suðureyri en er nú fluttur til Ísafjarðar. Mikill Man. City maður.

Gestir á opnu húsi fylgjast með nemanda spila á píanó inni í kennslustofu.
Á opnu húsi í Tónlistarskólanum skiptast krakkarnir á að spila inni í sínum stofum, þarna er Árdís Níní að spila.

Pétur Guðmundsson myndlistarmaður opnaði sýningu í gallerí Úthverfu og Slunkaríki í Edinborgarhúsi í tilefni af 75 ára afmæli sínu. Þarna sýndi hann 75 verk, litskrúðug og skemmtileg, full af húmor.

Pétur og Sigga saman við opnunina í Bryggjusal Edinborgarhússins.
Við Pétur Guðmunds við opnun á afmælissýningunni hans. Við hlið Péturs er smá myndskrýtla um Dalí.

Skúlptúrar Péturs til sýnis í Slunkaríki, á gangi Edinborgarhússins.
Pétur Guðmunds sýndi ekki bara málverk og teikningar, heldur einnig þessi skemmtilegu verk úr mdf plötum.

Gestir á opnuninni við borð með skissum og ljóðum eftir Pétur.
Teikningar, ljóð og skrýtlur Péturs voru þarna í bunkum.

Systrakvöld Frímúrara fór fram nú á helginni. Glæsilegt í alla staði, alltaf jafn gaman. Góð stund með bræðrunum í Njálu sem fagna 70 ára afmæli á árinu en auk þess er Frímúrarastarfs á Íslandi 100 ára í ár.

Séð yfir sal Frímúrara á Ísafirði. Bláar gardínur eru fyrir gluggum, hringborð eru dúkuð og við þá stólar með bláu áklæði.
Hann var glæsilegur salurinn á systrakvöldi Frímúrarastúkunnar Njálu.

Deginum í dag var varið í rólegheitum heima, kíktum reyndar smá á barnabörnin, fórum í sund en annars bara slakað.

Tveir garnhnyklar, annar ljósbláyrjóttur, hinn hvítur. Við hlið þeirra eru lítil koparlituð skæri.
Smá tími fyrir prjón í lok viku.