Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 30

Dagbók bæjarstjóra dagana 28. júlí-3. ágúst 2025, í 30. viku í starfi.

Seinni vika sumarfrís.

Við Dúi nutum lífsins lystisemda á Spáni í átta daga. Rútínan var góð, við byrjuðum dagana á smá vinnustund og síðan var haldið út í daginn. Hittum vini, lágum á ströndinni, fórum í gönguferðir og hlupum. Hlóðum batteríin. Maturinn, veðrið og allt fullkomið.

Við dvöldum eins og svo oft áður í bæ sem heitir Torrevieja, sem er mörgum Íslendingum að góðu kunnur. Í upphafi 19. aldar voru þarna bara stöku bæir á svæðinu en þéttbýlið fór að myndast undir lok 19. aldar. Upp úr 1990 bjuggu um 25 þúsund manns í bænum en nú búa þarna rúmlega 100 þúsund manns.

Veglegur bakki með vatnsmelónum, jarðarberjum, hráskinku og öðru þurrkuðu kjöti, ostum, ólífum og fleiru.
Tapas - namm

Svalir á annarri hæð þar sem þvottur hangir til þerris.
Algeng sjón að sjá, enda þornar þvotturinn á mettíma.

Fura við ströndina sem hefur vaxið til hliðar vegna ríkjandi vindáttar.

Fyrir utan ferðaþjónustu er saltframleiðsla stór atvinnuvegur í borginni og reyndar er saltframleiðslan í Torrevieja sú mesta á Spáni. Mest allt iðnaðarsalt (fyrir götur og vegi) sem notað er á Íslandi er flutt frá Torrevieja. Þá er ávaxta og vínrækt mikið stunduð á svæðinu, einkum appelsínur og sítrónur.

Eitt af því sem mikið er flutt til Torrevieja er sandur, ótrúlegt. Sandi frá Sahara hefur verið komið fyrir hér og þar við strendur og víkur en strandlengjan er mjög klettótt, enda hvað er baðströnd án sands?

Íbúðin okkar er í hverfi við miðbæinn þar sem meirihluti íbúa eru Spánverjar. Þá eru veitinga – og kaffihús óteljandi, einhverjir gólfvellir eru í úthverfum (hef lítið vit á því), allskonar afþreying á sjó og landi og svo er flugvöllurinn ekki nema í 45 mínútna akstursfjarlægð, þannig að það er ekki flókið að ferðast þangað.

Bareigendurnir Sean og Denise fyrir utan barinn sinn á Torrevieja.
Þetta eru Sean og Denise á Poenix bar (hverfisbarinn), þau voru að selja og nú taka við nýjir tímar hjá þeim. Nýr eigandi er Joanna sem er sænsk, hún ætlar að halda í andrúmsloft staðarins.

Mynd tekin af sólbekk á strönd. Sigga heldur í bókina Diplómati deyr. Í bakgrunni má sjá fólk á sólbekkjum, undir sólhlífum.
Mæli með þessari bók.

Torrevieja séð frá sjó, á skútu. Farþegar horfa á sólarlagið. Á skut skútunnar er stór blómakrans sem er í laginu eins og hjarta.
Fórum í skútusiglingu eitt kvöldið.

Við komum heim á Suðureyri í dag sem er stór dagur, yngri sonur minn er tvítugur. Það verður því extra gott kvöldkaffi í kvöld.

Framundan er vinnuvikan er það eru næg verkefni í vinnunni og ég sé fram á annasamar helgar einnig, hvort sem er í leik eða í starfi.