Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 26
Dagbók bæjarstjóra dagana 30. júní-6. júlí 2025, í 26. viku í starfi.
Vikan var býsna annasöm. Mikið að gera á öllum vígstöðvum í lífi og starfi. Fyrst er að nefna fjölmennan íbúafund á Þingeyri. Fundurinn var haldinn í kjölfar tilkynningar Arctic Fish um að færa starfsemi fóðurstöðvar fyrirtækisins frá Þingeyri til Ísafjarðar. Þar gafst fólki tækifæri til að ræða við framkvæmdastjóra fyrirtækisins sem skýrði ástæður þessarar breytingar hjá fyrirtækinu. Í lok fundarins skoraði ég á Arctic Fish að við öll tækjum samtalið um hvað við getum gert fyrir samfélagið á Þingeyri til að hlúa að því. Þá á ég við Ísafjarðarbær, Arctic Fish og ríkið.
Frá íbúafundinum á Þingeyri.
Ég átti gott samtal við forstjóra Byggðastofnunar en þar ætla þau að taka saman að hvaða verkefnum þau hafa komið að á Þingeyri hingað til, til dæmis sem snýr að rekstrarstyrkjum, aflamarki, hvað kom út úr Brothættum byggðum og svo framvegis. Við stefnum á að ná fundi núna í júlí til að fara yfir möguleikana um hvað/hvernig hægt er að bregðast við. Það skal þó tekið fram að Byggðastofnun er meira í langtímaverkefnum sem snúa að brotthættum byggðum og átaksverkefnum og þess háttar. Þá verður sumarið notað til að undirbúa íbúafund á Þingeyri sem er áformaður 26. ágúst.
Við Siggi slökkviliðsstjóri funduðum með forsvarsfólki Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, en endurnýjun á samningi um sjúkraflutninga er í farvatninu. Þá átti ég nokkra aðra fundi með íbúum eins og gengur og einnig átti ég einn fundardag í Reykjavík í vikunni. Í lok eins vinnudagsins í vikunni tókum við okkur til nokkur og fórum út og hreinsuðum illgresi í umhverfi stjórnsýsluhússins og verðlaunuðum okkur með prins póló á eftir. Hef áður lýst því að mér finnst það mjög mikil heilun að rífa upp illgresi og losa mig við það og gera umhverfið sem ég bý í huggulegra.

Stundum þarf bara að framkvæma. Ég get reytt arfa, finnst það ekki leiðinlegt en ég er ekkert spes smiður...

Prins póló og kók/kristall - hvað er betra eftir góðan endi á vinnudegi?

Einn skipulagsfulltrúi og einn garðyrkjustjóri taka stöðuna.
Ég tók þátt í merkilegri minningarathöfn um óþekkta sjómanninn sem hefur hvílt í Flateyrarkirkjugarði síðan 1942. Rannsókn hefur nefnilega leitt í ljós að um er að ræða norskan sjóliða, Sigurd Arvid Nilsen að nafni en hann var fæddur í Gildeskål í Nordland árið 1918. Hann var um borð í skipi sem var skotið niður af þýskum kafbáti rétt úti fyrir Vestfjörðum. Sjómaður frá Flateyri hafði fundið líkið og var hann jarðaður í Flateyrarkirkjugarði. Síðan þá, eða í meira en áttatíu ár, hafa íbúar á Flateyri lagt blóm á leiðið á sjómannadaginn. Núna 3. júlí var afhjúpaður legsteinn, að viðstöddum fulltrúum frá norska sjóhernum, sendiherrra Noregs, fulltrúum frá Landhelgisgæslunni og ættingjum Sigurds. Íbúar Flateyrar tóku líka þátt í athöfninni. Á eftir bauð norska sendiráðið í móttöku í Safnahúsinu á Ísafirði.

Ég hélt ávarp við minningarathöfnina í garðinum. Ég talaði til ættingja Sigurds Arvid Nilsen og á norsku.
Kómedíuleikhúsið frumsýndi verkið Þannig var það eftir Jon Fosse en það er 55. stykki leikhússins. Við skelltum okkur en það var fullt hús í Haukadalnum og ég get svarið það að mér finnst Elfar Logi eflast, veit hreinlega ekki hvernig þetta endar. Ég mæli með að fólk kynni sér dagskrá Kómedíuleikhússins en það er ýmislegt í boði, í allt sumar.

Frá frumsýningu Kómedíuleikhússins á Þannig var það.
Við Dúi skelltum okkur í dagstúr með Ferðafélagi Ísfirðinga norður í Aðalvík, sigldum að Látrum, tókum þar á land og gengum á Straumnesfjall. Sigldum til baka um kvöldið en skiluðum leiðsögumanninum honum Snorra Grímssyni yfir að Sæbóli áður en stímið var tekið fyrir Rit, yfir Djúp og í land á Ísafirði. Þeir voru leiðsögumenn þeir Snorri og Yngvi sonur hans. Ferðin tókst vel, það var bjart, sól, frekar kalt fyrri partinn en svo hlýnaði þegar leið á daginn. Við vorum líklega í heildina 38 manns í þessari ferð. Ég mæli með að fólk kynni sér starfsemi Ferðafélagsins, það eru allskonar ferðir í boði í allt sumar.

Horft af Straumnesfjalli yfir að Fljótavík og Rekavík bak Látur (nær).

Á Straumnesfjalli.

Fékk þessa mynd af okkur hjónum senda frá einni samferðakonu. Myndin er tekin í Rekavík.

Sólvellir heitir þetta hús, á Látrum í Aðalvík. Vinkona mín á þarna innkomu og dvelur þarna af og til. Áttum við góðan tíma þarna saman fjölskyldurnar fyrir um tíu árum.
Í dag var rólegheitadagur, heimilisþrif, þvottur þveginn, slökun í sundi og svo sungum við í fermingarmessu hér í Súganda. Þá er fiskiveisla í kvöld með allskonar grænmeti úr gróðurhúsinu.

Þorvaldur og Dúi flagga á Suðureyri í tilefni fermingarmessu.

Grænfóður úr gróðurhúsinu.