Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 25

Dagbók bæjarstjóra dagana 23.-29. júní 2025, í 25. viku í starfi.
Þvílík vika! Púlsinn er búinn að fá að rjúka upp ansi oft, bæði vegna frétta og atvika sem snúa að starfi bæjarstjóra en einnig vegna líkamlegrar áreynslu sem var (oftast) alla jafna ánægjuleg.
Við tókum nefnilega daginn snemma á laugardag, keyrðum inn að Kvíanesi í Súgandafirði (rétt utan við Botn) og gengum upp Kvíanesdal, yfir Grímsdalsheiði og niður Garðadal í Önundarfirði og til Flateyrar á markaðinn á Götuhátíð. Hversu svalt er það? Nema mér og eiginmanninum tókst að villast í þoku uppá fjalli sem var samt allt í lagi, gengum nokkra aukakílómetra, sem var gott því mér tekst alltaf að fókusa svo vel á göngu, hugsa.
Á leið upp Kvíanesdal. Horft yfir Súgandafjörð.
Í þoku, Dúi var á undan og tók stefnuna aðeins of mikið til vinstri.
Þarna sést leiðin sem við gengum á leið okkar frá Súganda til Flateyrar, þarnna sjást "slaufurnar" sem við tókum í þokunni.
Svolítið merkilegt með þoku, hvað manni tekst að missa algjörlega áttirnar þegar maður hefur ekki kennileiti til að miða við. Nú er tími sumarfría og mikið sem mig vantar oft svör við spurningum sem rata inn á mitt borð og ég hef ekki svör en þarf að „fletta upp í“ starfsfólki. Já, ég veit ekki allt, kann ekki allt og get ekki allt. Kallast það ekki að vera mannlegur?
Samlíkingin við að villast í þoku er kannski ekkert spes samlíking og þó? Ég hef legið undir ásökunum, eins og reyndar öll bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, að ég/við stöndum ekki með íbúum, séum ekki starfi okkar vaxin, heimsk og ýmislegt verra en það sem ég fer ekki nánar út í. Það eru ýmis orð látin flakka í hita leiksins, ég skil það, stundum þarf maður maður að pústa og þá er það oft þau sem eiga það ekkert skilið sem sitja undir skömmum. En auðvitað kemur margt gagnleg fram í svona umræðu sem við tökum með okkur í ákvarðanatöku á næstunni.
Á föstudag bárust okkur fréttir af því að Arctic Fish hyggðust færa fóðurstöð fyrirtækisins, sem hefur verið staðsett á Þingeyri, til Ísafjarðar. Það eru vonbrigði svo vægt sé til orða tekið. Á morgun, mánudag, verður íbúafundur á Þingeyri þar sem forsvarsmenn Arctic Fish munu mæta og fara yfir málin með íbúum.
Vikan var annars fjölbreytt. Það voru ýmis flókin mál sem voru á borði bæjarstjóra og fóru með inn í helgina sem verða ekki rædd hér.
Á miðvikudag var okkur hjónum boðið í kaffiboð í Faktorshúsinu í Hæstakaupstað en þann dag voru 32 ár frá því að Áslaug og Maggi Alfreðs keyptu það hús af bænum en svo skemmtilega vildi til að þáverandi bæjarstjóri, Smári Haralds og kona hans hún Helga mættu einnig. Auk okkar voru nánir vinir og samstarfsfólk Áslaugar og Magga. Þetta var ósköp notaleg stund en þennan dag var einnig verið að fagna því að 20 ár voru frá því að formlegum endurbótum á húsinu lauk.
Í Faktorshúsi í Hæsta kaupstað, 25.júní 2025. Ég, hjónin Maggi og Áslaug og svo Smári sem var bæjarstjóri fyrir 32 árum þegar þau keyptu Faktorshúsið.
Þetta er stórmerkilegt hús, byggt 1788 og Áslaug er gjörsamlega búin að grafa sig ofan í sögu hússins. Fyrir 32 árum var húsið mjög illa farið og var það mikil lukka fyrir samfélagið allt að bærinn skuli hafa selt það og komið því í hendur á slíkum snillingum sem þau hjón eru.
Gleymdi alveg að minnast á það í dagbókinni að í vikunni var opinn fundur Samtaka atvinnulífsins (SA) en þar var mjög góð vinnustofa og rætt um helstu áskoranir fyrirtækja, hvað stjórnvöld geti gert til að stuðla að auknum tækifærum og hvernig við (samfélagið) getum aukið útflutningstekjur Íslands og þar með lífsgæði. Mjög skemmtilegt.
Ég og Erla skipulagsfulltrúi vorum með opinn fyrirspurnartíma á Flateyri á föstudaginn, það voru í kringum tíu manns sem mættu í spjall, nokkrar hugmyndir komu sem sneru að menningarmálum og tómstundamálum barna og unglinga. Þá mætti Gumbi með pælingar varðandi framtíðarvatnsveitu á Flateyri en eins og fólk eflaust veit þá hafa Flateyringar lent í því að tíðar aurskriður á Klofningsdal hafa haft neikvæð áhrif á gæði vatns í þorpinu.
Bæjarstjóraspjall í Skúrinni á Flateyri.
Ég og hann Úlfur okkar, sem hitti mig í bæjarstjóraspjalli á Flateyri en hann er formaður hollvinasamtaka félagsheimilisins á Flateyri. Þykir mjög vænt um þennan dreng, gamall nemandi í Lýðskólanum.
Við fórum í pallapartý á föstudagskvöldi í Götuhátíð, kíktum einnig á markaðinn á laugardeginum (eftir þokugönguna), fórum í sund og á víkingahátíð á Þingeyri. Við gegnum á Mýrafell í Dýrafirði í vikunni (Dúi fór reyndar ekki alveg á toppinn útaf dottlu), hlaupatúrar í Súganda og í Skutulsfirði.
Á götuveislumarkaði á Flateyri.
Víkingahátíð fór fram á Þingeyri á helginni.
Á víkingahátíðinni á Þingeyri var verið að heilgrilla lamb fyrir kvöldið.
Vöfflur og kaffi í Simbahöllinni á Þingeyri, hvað er betra?
Nestispása á Mýrafelli í Dýrafirði. Fjallganga sem ég mæli með.
Kvöldverður á Tjöruhúsinu með fjölskyldunni minni sem naut þess að vera í fríi hér í kyrrðinni.
Fjölskyldustemmari á Tjöruhúsinu.
Hitti Skagfirskar húsmæður á Happy Hour á Logni en þær voru að njóta, þar á meðal gamlar samstarfskonur og svo elsku Jónína mín, fyrrverandi tengdó.
Ég og Jónína mín. Fyrrverandi tengdamamma, garðyrkukona og mikill dugnaðarforkur sem mér þykir óskaplega vænt um.
Þá kíktum við á opið hús á Selakirkjubóli, hjá Peter og Angelu. Sólin skín nú í kvöld, lambakjöt á grillinu og gestir væntanlegir.
Á Selakirkjubóli í Önundarfirði en þar var opið hús. Þau gera þetta á hverju ári, Peter og Angela. Alltaf gaman.