Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 23
Dagbók bæjarstjóra dagana 9.–15. júní 2025, í 23. viku í starfi.
Eftir að ég skrifaði síðustu dagbók þá fórum við (á sunnudagskvöldinu) á tónleika í Hömrum (sal Tónlistarskólans), það var jazzhljómsveit Sigmars Matthíassonar. Tónleikarnir komu mér satt best að segja á óvart, jazz með austur Evrópskum áhrifum, mjög spes.
Það var enginn bæjarráðsfundur í vikunni því mánudagurinn var jú annar í hvítasunnu. Við nýttum því tækifærið og tókum góðan hlaupatúr inn Hnífsdal, upp að stíflu og til baka, góðir 10 km þar. Þetta er mjög falleg leið, ágætis vegur inn eftir, þægilegur til göngu, skokks og hjóls, mæli með að fólk gefi sér tíma og kanni þennan dal. Mikil kyrrð.

Inni við stíflu í Hnífsdal.
Rétt fyrir kvöldmat á hvítasunnudag var hringt í mig frá Vísi, þar sem ég var spurð um viðbrögð mín við fregnum af því að búið væri að slá framkvæmdir við byggingar á verknámshúsum við nokkra framhaldsskóla af borðinu. Ég brást illa við enda höfðum við ekki fengið neinar upplýsingar um eitt né neitt, hvorki af eða á. Þá gagnrýndi ég það að við og skólastjórnendur værum ekki upplýst um stöðuna. Það fór eitthvað í gang við þetta, þetta var leiðrétt, kom fram í ræðu forsætisráðherra á málþingi Sambandsins í vikunni og í fréttum. Þá fékk ég símtal frá Guðmundi Inga Kristinssyni mennta- og barnamálaráðherra í lok vikunnar þar sem hann sagði við mig beint að það væri ekkert annað að gera en að fara að hanna og byrja að byggja.
Að efla Menntaskólann hér, með byggingu verknámshúss, skiptir samfélagið á Vestfjörðum miklu máli. Skólinn er að bjóða upp á mjög fjölbreytt nám og þarf að fá stuðning til þess í byggðalegu sjónarmiði. Til dæmis hefur dreifnám, starfs- og verknám kennt með vinnu, komið mjög sterkt inn og fjölgað sem dæmi smiðum á svæðinu. Nemendum í dagskóla hefur fjölgað sem er ánægjulegt en á fimm ára tímabili hefur nemendum fjölgað úr 156 í 220 (nú í haust). Það segir sig því sjálft að góð aðstaða og fjölbreytni skilar sér og þá eru líka meiri líkur á að þeir nemendur sem velja MÍ setjist að hér á Vestfjörðum, frekar en að fara eitthvert annað. Þá er gaman að segja frá því að síðasta haust var heimavistin fullnýtt, í fyrsta sinn síðan seint á síðustu öld.
Í vikunni var fundur með Vegagerðinni vegna vinnu sem þeim hefur verið falið af innviðaráðuneytinu í að gera heildarendurskoðun á flugi á Íslandi. Í tengslum við þetta lagði Ísafjarðarbær fram upplýsingar sem snerust um mat á íbúaþróun í sveitarfélaginu til næstu 10–15 ára. Mat sveitarfélagsins á atvinnuþróun í sveitarfélaginu til næstu 10 – 15 ára. Hvaða þættir hafa áhrif á samgöngur í sveitarfélaginu sem sveitarfélagið telur skipta máli sérstaklega hvað varðar flugsamgöngur sem og félagslega þætti sem áhrif geta haft á flug á svæðinu. Til að fylgja þessu öllu eftir áttum við Sirrý á Vestfjarðastofu fund með fulltrúum Vegagerðarinnar en von er á niðurstöðum úr þessari vinnu í lok sumars eða í haust. Þessi vinna fór í gang í kjölfar frétta sem okkur bárust í vetur um að Icelandair hyggðist hætta áætlunarflugi hingað vestur frá og með hausti 2026 vegna markaðslegra forsendna. Þess vegna er verið að skoða inngrip, niðurgreiðslu af hálfu ríkisins. Skýrslan mun leiða það í ljós hvort svo verði. Við höldum í vonina að lausn fáist í þetta flugsamgangnamál og þjónustan skerðist ekkert.
Ég skaust til Reykjavíkur í vikunni og sótti ársfund Brákar en Brák íbúðafélag hses. er húsnæðissjálfseignarstofnun, sem er rekin án hagnaðarmarkmiða. Félagið var stofnað árið 2022 af 31 sveitarfélagi í þeim tilgangi að ná fram stærðarhagkvæmni sem næst ekki með litlum húsnæðissjálfseignastofnunum með fáar íbúðir í rekstri. Stofnuninni er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum aðgengi að íbúðum í langtímaleigu.
Í framhaldi af ársfundi Brákar fór ég á afmælisráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga en Sambandið fagnaði 80 ára afmæli sínu. Á dagskrá ráðstefnunnar voru fjölbreytt erindi um sögu og þróun sveitarfélaga, og áskoranir sem mæta sveitarfélögum framtíðarinnar. Ég endaði daginn á snæðingi með systur minni og mági, mjög ljúf samverustund.

Þarna var nú ekki töluð vitleysan, ég, Silla systir, Gerður bæjarstjóri Vesturbyggðar og Líf formaður borgarráðs Reykjavíkurborgar, á góðri stund.
Ég fékk frábært tækifæri til að fara um borð í skemmtiferðaskipið Norwegian Prima í vikunni. Fórum nokkur í boði Norwegian Cruise Line og á móti okkur tók Sandi Weir sem er almannatengill fyrirtækisins. Við byrjuðum á góðum fundi þar sem við fræddumst um starfssemi fyrirtækisins og fórum svo í skoðunarferð um skipið. Auðvitað bar innheimta innviðagjalds á góma en því var skellt á, með litlum sem engum fyrirvara um síðustu áramót. Þetta eru 2.500 kr. á mann á nótt í íslenskri landhelgi. Engin aðlögun eða neitt. Skipin vinna sínar áætlanir um það bil fjögur ár fram í tímann og eru yfirleitt búin að setja verðin út með tveggja ára fyrirvara. Þau eru því að fá ansi mikinn skell með þessari skattlagningu.
Nú er enginn að segja að það eigi ekki að taka gjöld af skemmtiskipafarþegum, alls ekki, það er bara hvernig farið er að þessu sem er svo vont. Fyrirsjáanleiki skiptir öllu máli í samkeppnisumhverfi, ég er hrædd um að það muni taka nokkur ár að vinna aftur upp traust skemmtiskipafyrirtækjana gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Ég vona að ákvörðuninni verði snúið, gjaldið lækkað og gefið út hvernig það verði hækkað í skrefum. Það mætti til dæmis byrja á horfa til gistináttaskatts sem innheimtur er á íslenskum gististöðum en það eru 800 krónur á nótt, á herbergi, það kallast fyrirsjáanleiki og sanngirni. Við viljum nefnilega fyrir enga muni missa skemmtiferðaskipafarþega úr flórunni hjá okkur hér fyrir vestan.
En aftur að skipinu. Norwegian Prima er stórglæsilegt og er smíðað fyrir 3.100 farþega og 1.500 manna áhöfn. Um borð væsir ekki um fólk, þar eru til dæmis 13 veitingastaðir, leikjasalur, spilavíti, leikhús með 650 sætum, verslanir, sundlaugar, pottar, barir, kaffihús, gokart-braut og margt, margt fleira. Það er sturluð staðreynd að gestir skipa þessa fyrirtækis segja í könnunum að þau koma í um 70% tilfella aftur á einhvern af þeim stöðum þar sem skipin koma við í siglingum sínum. Farþegarnir velja oft þennan fararmáta til að fá „nasaþef“ af tilteknu svæði, til dæmis Karabíska, Miðjarðarhafi eða Norður Atlantshafi, koma þá við í nokkrum höfnum finna og upplifa staðarandann og svo framvegis. Í framhaldi taka þau ákvörðum um næsta ferðalag sem er þá til að kanna tiltekið land eða landsvæði betur.

Þær eru nokkrar rennibrautirnar um borð, bæði vatns og þurr, jamm, allt til sko.

Um borð í Norwegian Prima eru allskonar málverk til sölu og eitthvað á uppboði.

Allskonar barir, kaffihús og búðir eru við þetta torg um borð í Norwegian Prima (meira að segja Starbucks!).
Farþegarnir sem komu til Ísafjarðar á föstudag flugu til Keflavíkur og komu um borð í Reykjavík, þannig að það er ekki ósennilegt að einhverjir farþeganna hafi gist þar áður en þau komu um borð. Eftir að skipið fór frá Ísafirði sigldi það norður fyrir land, kom meðal annars við á Akureyri, svo er siglt til Færeyja og jafnvel Noregs en þessi tiltekna ferð á að enda í Southhampton á Englandi eftir 10 daga frá því að farþegar komu um borð í Reykjavík.
Á meðan að skipið er bundið við bryggju er verslunum, mörgum veitingastöðum, leikjasölum og afþreyingu um borð lokað. Með því er verið að hvetja fólk til að fara í land, kaupa sér skoðunarferðir, rölta um bæinn, kíkja í búðir, veitingahús, bakarí og svo framvegis.
Við fengum að fara um stóran hluta skipsins, meðal annars upp í brú þar sem við áttum gott spjall við skipstjórann sem sýndi okkur allskonar tæknilega hluti sem ég hreinlega kann ekki að nefna, mátti ekki taka myndir þar uppi þannig að ég get ekki einu sinni sýnt eitthvað dót. Skipstjórinn elskar Tjöruhúsið, hann segir að þetta sé besti fiskveitingastaður sem hann hafi komið á, stemmingin er líka svo skemmtileg þar. Þá fór hann fögrum orðum um umhverfið og starfsfólkið á höfninni.

Norwegian Prima í höfn á Ísafirði.

Hópurinn sem fór til fundar um borð ásamt Sandi almanntengli og skipstjóranum.

Skipstjórinn á Norwegian Prima færði mér líkan af skipinu, það fær að prýða skrifstofuna mína.
Þvílíka blíðan sem er búin að vera um helgina, logn og sól og því frábærar aðstæður til útivistar. Við gengum frá Stað í Súgandafirði um Klofningsheiði til Flateyrar. Við höfum farið Klofningsheiðina nokkrum sinnum áður en alltaf frá Flateyri og yfir í Súganda. Það er magnað hvað upplifunin er ólík og ég mæli með, svona almennt, að fólk prófi að fara „öfuga“ leið miðað við hvað það er vant, sama hvort það er þessi gönguleið eða einhver önnur. Þetta var allavega gott upphaf á fjallgöngusumrinu 2025 en markmiðið er að fara í fleiri fjallgöngur hér á svæðinu næstu vikur.

Við Dúi komin upp úr Sunndal í Súganda á leið okkar yfir Klofningsheiði.

Kirkjustaðurinn Staður í Súgandafirði í forgrunni, Gölturinn útvörður fjarðarins fjær.

Á leið niður Klofningsdalinn, niður í Önundarfjörð, þarna erum við í farvegi aurskriðu sem féll nýverið, í fyrra eða árið þar áður....

Nestispása í bongóblíðu uppi á Klofningsheiði. Ég veit fátt betra en að borða nesti á fjöllum, þá er flatkaka með hangikéti í uppáhaldi.
Undirbúningur fyrir 17. júní er á fullu, mæli með að fólk kynni sér hátíðardagskrána, hvet fólk að gera sér glaðan dag, flagga og búa sig í þjóðbúning í tilefni dagsins.