Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 19

Bæjarstjórnin hittist eftir fund vikunnar og skálaði fyrir góðum ársreikningi og góðu samstarfi.
Bæjarstjórnin hittist eftir fund vikunnar og skálaði fyrir góðum ársreikningi og góðu samstarfi.

Dagbók bæjarstjóra 12.–18.maí 2025, í 19. viku í starfi.

Fundur svæðisskipulagsnefndar var í upphafi vikunnar, það hillir undir að vinnslutillagan verði klár og í framhaldinu, í júní, fer hún í kynningu og henni fylgt úr hlaði á íbúafundum.

Starfsmannasamtöl héldu áfram, nú á ég aðeins eitt eftir og það verður tekið í næstu viku.

Vestfjarðastofa hélt aðalfund sinn í vikunni, haldinn í Súðavík. Að loknum ársfundi fulltrúaráðs Vestfjarðastofu var opið málþing þar sem fjallað var um frumkvæði og fjárfestingar á Vestfjörðum. Frummælandi á málþinginu var Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs. Þetta var mjög áhugavert og hvetjandi.

Samtök um söguferðamennsku voru með ársfund hér fyrir vestan, mér var boðið að ávarpa hópinn niðri í Turnhúsi í Neðstakaupstað.

Jóna Símonía ávarpar félaga í samtökum um sögutengda ferðaþjónustu.
Jóna Símonía ávarpar félaga í samtökum um sögutengda ferðaþjónustu.

Fulltrúi Björgunarsveitarinnar Dýra fundaði með okkur í lok vikunnar, fórum yfir ýmis mál en það er hugur í þeim. Til dæmis eru þeir langt komnir með að fjármagna nýjan björgunarsveitarbíl sem verður sérútbúinn til að flytja sjúklinga (pláss fyrir börur).

Ég ávarpaði opnun listsýningar nemenda á nýsköpunar og listabraut MÍ en þau voru að ljúka áfanga í listmálun og þá er hluti af náminu að velja verk, undirbúa sýningu og kynna verkin. Þá voru nokkur verk til sölu á sýningunni.

Frá opnun listsýningar nemenda MÍ.
Frá opnun listsýningar nemenda MÍ.

Í lögum er mælt fyrir að lögreglan og sveitarfélög fundi reglulega, samanber ákvæði um samstarfsnefnd um málefni lögreglunnar. Til að uppfylla þessa lagaskyldu og ekki síður til að ræða saman var fundur lögreglunnar og bæjar- og sveitarstjóra á Vestfjörðum í vikunni. Það er gott að taka slíkan fund en stefnt er að því að halda svona fundi tvisvar á ári.

Fyrsti fundur byggingarnefndar um byggingu slökkvistöðvar var í vikunni en vinnan er hafin og fer fram af miklum þunga næstu vikurnar á meðan við erum að klára þarfagreiningu og annað.

Almannavarnaæfing á sjó fór fram laugardaginn 17. maí, fjölmargir komu að þessari umfangsmiklu æfingu.

Nú er mikill uppskerutími, tónleikar, en ég fór á tónleika í Tónlistarskólanum og einnig á vortónleika Kvennakórsins á Ísafirði.

Frá nemendarónleikum í Tónlistarskólanum.
Frá nemendatónleikum í Tónlistarskólanum.
Kvennakórinn hélt vortónleika í vikunni, mjög skemmtileg dagskrá.
Kvennakórinn hélt vortónleika í vikunni, mjög skemmtileg dagskrá.

Þá var ársreikningur bæjarins samþykktur eftir seinni umræðu. Við erum ákaflega ánægð með árangurinn og af þessu tilefni birtum við grein á Vísi.

Eigum við eitthvað að ræða veðrið? Þvílík blíða – er alsæl með það.

Ég tók við fyrsta pokanum í vitundarvakningarviðburði CCU samtakanna, Sóley Veturliða afhenti mér hann.
Ég tók við fyrsta pokanum í vitundarvakningarviðburði CCU samtakanna, Sóley Veturliða afhenti mér hann.

Það er fátt sem toppar góðan hlaupatúr í fallegu umhverfi, eftir annasaman vinnudag.
Það er fátt sem toppar góðan hlaupatúr í fallegu umhverfi, eftir annasaman vinnudag.