Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 18
Dagbók bæjarstjóra dagana 5.–11. maí 2025, í 18. viku í starfi.
Þetta var hressileg vika.
Hér var haldið áhugavert málþing þar sem umfjöllunarefnið var snjóflóð og áhrif slíkra hamfara á samfélög. Náttúruvá sem hefur mótað líf og sögu margra samfélaga víðs vegar um landið. Við vitum það öll að hér eru sannarlega áskoranir og nokkuð ljóst að við ráðum ekki för þegar náttúran er annars vegar. Við lærum hins vegar að lifa með henni og erum alltaf að safna í reynslubankann. Við lærum hvernig má lágmarka þann skaða sem náttúruhamfarir eins og snjóflóð hafa í för með sér og lærum einnig hvernig best er að takast á við þær áskoranir sem af hamförum hljótast. Endurreisn eftir áföll er lykilatriði hér og með því að skrá sem mest og best það sem við gerum og hvernig við bregðumst við á hverjum tíma, má leiða að því líkum að við höfum gögn og reynslu sem læra má af til að gera enn betur. Samvinna og upplýsingagjöf er forsenda þess að við getum tekið upplýstar ákvarðanir – og treyst öryggi okkar og komandi kynslóða.
Á málþinginu kom fólk saman til að deila þekkingu, reynslu og lausnum – ekki aðeins til að skilja betur þau öfl sem koma af stað snjóflóðum, heldur einnig til að efla viðbúnað, rannsóknir og öryggi þeirra sem búa á hættusvæðum. Þá var farið í áhugaverða ferð á vettvang þeirra atburða sem við minnumst að áttu sér stað fyrir þrjátíu árum síðan, á Flateyri og Súðavík. Þetta var virkilega vel heppnað málþing og ég þakka þeim sem stóðu að því. Vel gert!

Ég bauð þátttakendur á snjóflóðamálþingi velkomin í Edinborgarhúsið.

Guðmundur Björgvinsson leiddi gesti Ofanflóðs um Flateyri. Við minningarsteininn hélt hann áhrifamikla tölu um hörmungarnar á Flateyri fyrir 30 árum síðan. Ég veit um fáa sem nálgast þessar atburði með jafn mikilli yfirvegun og virðingu.

Bragi sveitarstjóri í Súðavík tók á móti ráðstefnugestum við minningarreitinn.
Þá fór ég á mjög áhugaverðan fund hjá Kirkjugarðaráði. Ágústa Erlingsdóttir framkvæmdastjóri Kirkjugarðaráðs og Smári Sigurðsson framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar héldu erindi og fóru yfir ýmislegt áhugavert. Kirkjugarðar eru sjálfseignastofnanir og lúta stjórn fulltrúa trú- eða lífsskoðunarfélaga með yfirumsjón kirkjugarðaráðs. Um kirkjugarða gilda lög um kirkjugarða greftrun og líkbrennslu þar sem meðal annars koma fram skyldur sveitarfélaga við kirkjugarða og reglur er varða skipulag og framkvæmdir.
Á fundinum var farið yfir hlutverk sjóðsins og hvernig er hægt að sækja um styrk í hann og hvaða skilyrði umsókn þarf að uppfylla. Einnig var farið yfir hvernig rekstur kirkjugarða er fjármagnaður og fyrir hvað er verið að greiða, ábyrgð og hlutverk kirkjugarðsstjórna, rafræn skil ársreikninga og hagræðingu í rekstri kirkjugarða. Þá var rætt um á hvers ábyrgð og forræði grafartaka í kirkjugörðum er, hver á að slá og hirða garðinn og hver á að moka snjó. Hvernig og hvenær á að ganga frá nýrri gröf, hver á að sjá um legsteininn, blómin eða fallin leiði. Sem sagt, góður fundur og ýmislegt sem ég er fróðari um.
Landsnet er á hringferð um landið að kynna Kerfisáætlun Landsnets og var fundur í Edinborgarhúsi í vikunni þar sem farið var yfir verkefnin sem eru áformuð á Vestfjörðum. Stærri verkefnin eru bygging tengivirkis á Steingrímsfjarðarheiði, línulagnir frá Hvalá, um þetta tengivirki til Kollafjarðar og tvöföldun línu í Mjólká svo eitthvað sé nefnt.

Á kynningarfundi Landsnets.
Starfsmannasamtöl lituðu vikuna en ég tek viðtöl við sviðsstjóra og nokkra aðra starfsmenn sem heyra undir mig. Klára í næstu viku.
Mér var boðið að vera viðstödd fjölmenna athöfn Oddfellow stúkanna tveggja á Ísafirði í lok vikunnar. Þar voru afhentir styrkir og gjafir að fjárhæð 20 milljón króna úr styrktar og líknarsjóði Oddfellow til kaupa á tækjum og búnaði á starfssvæðinu. Meðal styrkveitinga voru veglegar gjafir til hjúkrunarheimila og heilsugæslu, Vesturafls, slökkviliðs, skóla, líkamsræktar, Rauða krossins og björgunarsveita. Ég komst að því að á Ísafirði eru tvær stúkur, karlastúka og kvennastúka. Karlastúkan heitir Gestur og kvennastúkan Þórey. Það voru yfirmeistarar hvorrar stúku sem sáu um afhendinguna, Ingólfur Þorleifsson og Helga Birna Jónsdóttir. Það voru léttar veitingar í boði í þessari móttöku, sérstaklega þótti mér snitturnar frá Hamraborg góðar, þessar gömlu góðu. Ég þakka kærlega fyrir mig og óska öllum þeim sem fengu styrki til hamingju.

Yfirmeistarar Oddfellow á Ísafirði, Ingólfur Þorleifsson og Helga Birna Jónsdóttir.
Síðast en ekki síst var ársreikningur Ísafjarðarbæjar lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Það verður að segjast að árangurinn er glæsilegur.
Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var jákvæð um 1.168 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 738 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 480 m.kr. samkvæmt rekstrarreikningi en áætlun gerði ráð fyrir 185 m.kr. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 3.025 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A- og B-hluta, en eigið fé A-hluta nam 1.261 m.kr.
Nú kann einhver að spyrja hver er munurinn á A- og B-hluta. Í stuttu máli: Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti fjármögnuð með skatttekjum. Hér er um að ræða aðalsjóð, en auk hans eru eignasjóður og þjónustumiðstöð auk hlutdeildar sveitarfélagsins í samstarfsverkefnum. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins, en rekstur þessara fyrirtækja er fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtæki sem falla undir B-hluta starfsemi sveitarfélagsins eru Byggðasafn Vestfjarða, Eyri, Fasteignir Ísafjarðar ehf., Fráveita, Funi, Hafnarsjóður, Vatnsveita og Þjónustuíbúðir Hlíf auk hlutdeildar sveitarfélagsins í samstarfsverkefnum.
Ein kennitalan sem horft er til þegar ársreikningar eru skoðaðir er skuldahlutfallið en það eru heildarskuldir og skuldbindingar í hlutfalli við reglulegar tekjur. (Segir til um hve stór hluti af heildareignum er fjármagnaður með lántöku). Skuldahlutfallið hjá Ísafjarðarbæ er að lækka, það er 116 % árið 2024 en var árið áður 2023 134% (en áætlun gerði ráð fyrir að það færi í 125% 2024). Veltufé frá rekstri er að aukast sem um munar á milli ára sem styrkir getu sveitarfélagsins til að standa undir framkvæmdum og öðrum skuldbindingum. Um er að ræða veltufjárhlutfall upp á 20,2% af rekstrartekjum árið 2024 en var 14,4% á árinu 2023.
Helgin fór í garðyrkjustörf, módelstörf og heimilisstúss. Þá nýttum við boð jógakennara indverska sendiráðsins og fórum í jóga á Bryggjukaffi á Flateyri, nýttum tækifærið og tókum hlaupatúr þar og snæddum hádegismat á Bryggjukaffi í góðra vina hópi.

Ljósmyndari frá Vísi var á svæðinu um helgina og var skipulögð myndataka í leiðinni.

Helgin var nýtt í garðstúss á heimilinu.

Gámabíllinn kemur í þorpin tvisvar í viku yfir vetrarmánuðina og þrisvar í viku á sumrin. Það eru mikil þægindi í því og við nýttum okkur þjónustuna um helgina, tiltekt semsagt á heimilinu.