Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 16

Á svölum á byggingu Coloplast/Kerecis í Minneapolis. Dúi, Guðrún, Jóhanna og ég.
Á svölum á byggingu Coloplast/Kerecis í Minneapolis. Dúi, Guðrún, Jóhanna og ég.

Dagbók bæjarstjóra dagana 21.-27. apríl 2025, í 16. viku í starfi.

Þessa vikuna var ég meira og minna í fríi frá skrifstofunni, svosem bara þrír „venjulegir“ vinnudagar og því ágætis tækifæri til að fara í smá frí, sem var í þessu tilfelli löngu planað. Eftir páskamessu á páskadag keyrðum við (ég, Dúi og Guðrún (stjúpdóttir)) suður til Reykjavíkur og flugum síðan út til Minneapolis í Bandaríkjunum daginn eftir. Þar dvöldum við í góðu yfirlæti og nutum samveru með Jóhönnu og Jóni (dóttur Dúa og tengdasyni) sem starfa hjá Kerecis í Minneapolis.

Við hittum einnig frændfólk þau Önnu Ingólfs og Binna Braga og áttum með þeim góða stund, Binni er í grunninn Víkari, vinnur hjá Eflu og tók virkan þátt í byggingu laxasláturhúss ArcticFish í Bolungarvík. Við fórum auk þess á hafnarboltaleik, tónleika með Paul Simon, skoðuðum Foshay turninn, röltum um almenningsgarð sem er fullur af allskonar útilistaverkum, fórum í Mall of America (sem var ekki eins slæmt eins og ég hafði búið mig undir), tvær bruggverksmiðjur og svo tókum við Dúi þátt í Twin City hálfmaraþoni.

Þetta hlaup var alveg frábært, umhverfið fallegt, hlupum um gróin hverfi, meðfram Mississippi ánni og enduðum í Minnehaha sem er mjög vinsælt útivistarsvæði. Áberandi hvað gæslan var góð, fjöldi gatna voru lokaðar fyrir bílaumferð, margar drykkjarstöðvar en það var nýtt fyrir okkur að sjá að notuð voru fjölnota plastglös, mikið uppvask fyrir höndum hjá hlaupahöldurum!

Við Dúi á hlaupum um falleg hverfi Minneapolis og Saint Paul.
Við Dúi á hlaupum um falleg hverfi Minneapolis og Saint Paul.

Við borðuðum allskonar mat í ferðinni, ótrúlegt hvað mikið er djúpsteikt þarna en við fórum á steikhús, frumbyggjaveitingastað, úkraínskan stað og í MoA fórum við á Bubba Gump shrimp co. sem þau sem hafa séð Forest Gump tengja við.

Á hafnarboltaleikvanginum, heimaliðið er Twins.
Á hafnarboltaleikvanginum, heimaliðið er Twins.

Við veitingastaðinn Bubba í Mall of America.
Í Mall of America er þessi skyndibitastaður, sem sérhæfir sig í rækjuréttum, fiski og svo er auðvitað hægt að fá allskonar annað....djúpsteikt.

Meðfram Mississippi ánni eru góðir göngu og hjólastígar og óteljandi brýr þvera ána hér og þar.
Meðfram Mississippi ánni eru góðir göngu- og hjólastígar og óteljandi brýr þvera ána hér og þar.

Úr því við vorum þarna úti var ekki annað inni í myndinni en að heimsækja starfsstöð Kerecis í Minneapolis en þar vinna ca 30 manns, þar að auki eru í sama húsnæði og starfsstöð Coloplast (Coloplast á Kerecis) en þar vinna fjölmargir eða um 15 þúsund manns um allan heim. Þetta er mjög flott aðstaða og vel búið að starfsfólkinu. Við hittum fjölmarga starfsmenn og þar á meðal hann Mathias sem er yfir rannsóknum og þróun en hann kom í heimsókn til okkar á Suðureyri síðastliðið haust ásamt hópi starfsmanna Kerecis í Bandaríkjunum. Það er gaman að sjá hvað aukaafurð þorksveiða eins og gerð sáraumbúða úr þorskroði skipta gríðarlega miklu máli í stóra samhenginu.

Starfsstöð Coloplast og Kerecis í Minneapolis.
Starfsstöð Coloplast og Kerecis í Minneapolis.

Jón að segja frá afurðum Kerecis.
Jón að segja frá afurðum Kerecis.

Við með Mathias í Kerecis.
Við með Mathias í Kerecis.

Ég reif mig upp klukkan fimm einn morguninn til að ná fundi með þingmönnunum Örnu Láru, Maríu Rut og Lilju Rafney, forsvarsmönnum útgerðarfyrirtækja á Vestfjörðum og sveitarstjórnarfólki þar sem ræddar voru breytingar á veiðigjöldum. Á þessum fundi kom til dæmis fram hve mikil breyting varð á útflutningsverðmætum þorskafurða með tilkomu Kerecis. Læt glæru sem sýnir þetta fylgja með þessari færslu.

Glæra sem sýnir útflutningsverðmæti þorskafurða.

Nú erum við komin til landsins aftur, við lentum í morgun, erum svona að ná áttum, verð við vinnu sunnan heiða fram til 1. maí en verð komin á skrifstofuna á föstudaginn.

Ætla í lokin að hæla plokkurum landsins og til hamingju með Stóra plokkdaginn!

Afrakstur plokks fyrir aftan íþróttahúsið á Flateyri.
Í tilefni plokkdagsins, ein mynd af árangri dagsins frá Flateyri.

Plokkarar á Suðureyri.
Plokkarar á Suðureyri.

Afrakstur plokksins á Þingeyri.
Afrakstur plokksins á Þingeyri.

Eigið góða viku.