Dagbók bæjarstjóra 2024: Vika 3

Arna Lára og Kristrún Frostadóttir með Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs.
Arna Lára og Kristrún Frostadóttir með Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs.

Dagbók bæjarstjóra dagana 15.-21. janúar 2024.

Þessari viku hef ég að mestu varið í Osló með Kristrúnu formanni Samfylkingarinnar og Óla aðstoðarmanni hennar. Systurflokkur okkar, norski verkamannaflokkurinn, var búinn að skipuleggja stífa dagskrá fyrir okkur sem snerist að mestu leyti um orku, samgöngur og atvinnumál. Þessi ferð er liður í málefnastarfi flokksins sem helgað er þessum málaflokkum. Við komum heim uppfull af fróðleik og reynslu Norðmanna sem við getum lært margt af.

Við funduðum með fjölbreyttum hópi fólks og fengum sýn þeirra á málin, auk þess að heimsækja mjólkurvinnsluna Tine (sem framleiðir meðal annars brúna Guðbrandsostinn sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér) og Sporvejen sem reka sporvagnakerfið í Osló.

Verkamannaflokkurinn er í ríkisstjórn með Senterpartiet og fengum við tækifæri til að funda með Jonasi Gahr Støre forsætisráðherra, Jon-Ivari Nygård samgönguráherra og Terje Aasland orkumálaráherra. Við funduðum einnig með Norska ASÍ (LO)og Norska SA (NHO), auk þess að hitta nokkra ráðgjafa. Allt saman mjög góðir fundir og við komum vel nestuð heim. Fólk var líka áhugsasamt að heyra um ástandið á Íslandi og þá sérstaklega Grindavík, sem er skiljanlegt.

Næsta vika fer í að vinna upp lista verkefnum og tölupóstum sem hafa setið á hakanum þessa vikuna.