COVID-19: Tilkynning um tilslakanir á samkomubanni

Tilkynning frá aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum

Á undanförnum vikum hafa takmarkanir á samkomum verið viðhafðar á Vestfjörðum umfram það sem auglýst hefur verið á landsvísu vegna hópsýkingar af völdum Covid-19 í Bolungarvík og á Ísafirði. Árangurinn af þessum aðgerðum er sá að tekist hefur að hemja hópsýkinguna. Engin ný smit hafa komið upp síðustu fjóra daga, engu að síður er mikilvægt að núverandi aðgerðum verði aflétt hægt.

Aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum átti í morgun fund með landlækni, sóttvarnalækni og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra um næstu skref í aðgerðum gegn útbreiðslu Covid-19 á norðanverðum Vestfjörðum. Var niðurstaða fundarins sú að sóttvarnalæknir legði til við heilbrigðisráðherra að auglýsing ráðherra frá 21. apríl , með gildistöku 4. maí nk., gildi fyrir norðanverða Vestfirði, þ.e. Súðarvíkurhrepp, Bolungarvíkurkaupstað og Ísafjarðarbæ, með eftirfarandi takmörkunum tímabilið 4. maí kl. 00:00 til 10. maí 2020 kl. 23:59:

  • Í stað 50 manna samkomubanns, eins og verður á öðrum stöðum á landinu frá og með 4. maí, verði 20 manna samkomubann, einnig fyrir börn í leik- og grunnskólum.
  • Starfsemi sem krefst snertingar eða mikillar nálægðar milli fólks verði áfram óheimil.

Að svo stöddu er ekki unnt að greina nánar frá fyrirhuguðum takmörkunum, en ætla má að auglýsing heilbrigðisráðherra verði birt á allra næstu dögum. Auglýsingunni verður fylgt eftir með íbúafundi aðgerðastjórnar á Facebook, sbr. síðari tilkynningu þar um.

Í þessu felst að á norðanverðum Vestfjörðum verða tekin tvö skref inn á landslínuna varðandi samkomubann, annars vegar 4. maí og hins vegar 11. maí nk., að því gefnu að útbreiðsla sjúkdómsins verði okkur hagstæð og ekki komi til bakslags.

Aðgerðastjórn 27. apríl 2020

Uppfært 28. apríl:

Í nánari útlistingu frá Lögreglunni á Vestfjörðum kemur þetta fram:

Á landinu öllu, þ.m.t. Súðavík, Suðureyri, Þingeyri og Flateyri, gilda auglýsingar heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum og skólahaldi vegna farsóttar til 4. maí. Helstu reglur auglýsingarinnar eru:

20 manna samkomubann: Í því felst að óheimilt er að fleiri en 20 einstaklingar komi saman, hvort sem er í opinberum eða einkarýmum. Enn fremur skal tryggt á öllum vinnustöðum og í allri starfsemi að ekki séu á sama tíma fleiri en 20 einstaklingar inni í sama rými. Sérreglur gilda varðandi matvöruverslanir og lyfjabúðir.

Tveggja metra reglan: Á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. tvo metra á milli einstaklinga.

Lokun samkomustaða: Sundlaugar, líkamsræktarstöðvar, skemmtistaðir, spilasalir, spilakassar og söfn. Veitingastaðir skulu loka kl. 23:00 alla daga vikunnar.

Starfsemi sem krefst snertingar eða mikillar nálægðar milli fólks er óheimil. Það á við um hárgreiðslustofur, snyrtistofur, tannlæknastofur, nuddstofur og sambærilega þjónustu. Einnig á þetta við um allt íþróttastarf.

Skólahald:

  • Framhaldsskólar og háskólar skulu vera lokaðir.
  • Grunnskólar mega hafa kennslu í skólabyggingu ef hægt er að tryggja að ekki séu fleiri en 20 nemendur í sömu kennslustofu og að nemendur blandist ekki milli hópa, t.d. í mötuneyti eða frímínútum
  • Leikskólar mega hafa opið, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélag, ef þeir tryggja að börn séu í fámennum hópum og aðskilin eins og kostur er.
  • Skólafélagar sem ekki eru í sama hópi í skólastarfinu ættu ekki að vera í návígi utan skóla.

Á Ísafirði, í Bolungarvík og Hnífsdal gilda ofangreindar reglur, þó þannig að leik- og grunnskólar eru lokaðir (þó ekki fyrir börn foreldra á forgangslistum). Þá er miðað við fimm manna samkomubann í stað 20 og í stærri verslunum mega 30 viðskiptavinir vera í versluninni.

 ---

Þann 4. maí tekur í gildi ný auglýsing heilbrigðisráðherra fyrir allt landið sem felur í sér umtalsverða rýmkun á samkomum og skólahaldi. Þannig hækkar samkomubannið úr 20 í 50 manns, unnt verður að opna framhalds- og háskóla og ýmsir þjónustuveitendur geta á ný tekið á móti viðskiptavinum. Frá sama tíma falla alveg niður takmarkanir á fjölda nemenda í leik- og grunnskólum og einnig fjöldatakmarkanir við íþróttaiðkun og æskulýðsstarf barna á leik- og grunnskólaaldri. Þá rýmkar einnig um íþróttaiðkun fullorðinna.

Ofangreint mun einnig gilda í Ísafjarðarbæ, Súðavík og Bolungarvík, þó þannig að:

  •  Í stað 50 manna samkomubanns verði 20 manna samkomubann, einnig fyrir börn í leik- og grunnskólum, svo og í íþrótta- og æskulýðsstarfi þeirra.
  • Starfsemi sem krefst snertingar eða mikillar nálægðar milli fólks verði áfram óheimil.

Þessi frávik munu gilda til 11. maí. Þar eftir munu hinar almennu landsreglur gilda. Gerð verður frekar grein fyrir þessum sérreglum þegar ný auglýsing heilbrigðisráðherra kemur út.