COVID-19: Fyrirkomulag í skólum og íþróttastofnunum

Stjórnendur skóla-og tómstundasviðs hafa unnið að skipulagi sinna stofnanna alla helgina með hag sinna starfsmanna og nemenda að leiðarljósi vegna fyrirmæla sem komu með samkomubanninu sem hefst nú á miðnætti. Lögð er áhersla á að fara eftir fyrirmælum yfirvalda í einu og öllu í skipulögðu skólahaldi í sveitarfélaginu. Breytingar verða á skólahaldi í leik- og grunnskólum ásamt dægradvöl en lögð verður áhersla á að halda sem mestri þjónustu úti. Starfsfólk á öllum stofnunum vinnur að því að aðlaga starfsemina að breyttum aðstæðum sem geta tekið breytingu frá degi til dags og þeirri vinnu verður haldið áfram eins og best verður á kosið.

  • Leikskólinn Sólborg á Ísafirði þarf að aðlaga opnunartímann og lokunartímann að hverri deild en að öðru leyti verður hægt að halda úti þjónustu alla daga. Nánari upplýsingar koma fram á heimasíðu skólans eftir að starfsmannafundi lýkur á morgun kl. 11:00.
  • Laufás á Þingeyri veður með starfsmannafund á morgun kl. 08:00–10:00 til þess að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Að öðru leyti getur leikskólinn unnið vel eftir fyrirmælum yfirvalda. Allar upplýsingar koma fram á þeirra heimasíðu
  • Grænigarður á Flateyri er með starfsmannafund í fyrramálið þar sem starfið verður undirbúið en að öðru leyti getur leikskólinn unnið vel eftir fyrirmælum yfirvalda. Allar upplýsingar koma fram á sameiginlegri heimasíðu leik- og grunnskóla Önundarfjarðar. 
  • Tjarnabær á Suðureyri starfar eins og verið hefur en undirbúningsvinna vegna breyttra starfsaðstæðna hefur farið fram um helgina. Upplýsingar koma fram á heimasíðu skólans.
  • Í Grunnskólanum á Ísafirði hefur verið unnið að skipulagi fyrir næstu vikur alla helgina. Á morgun er starfsdagur í skólanum þar sem allt starfsfólk skólans mun aðlaga sig að breyttum starfsháttum og útfæra skipulagið enn frekar. Nánari útfærsla á breytingum á skólahaldi verður send til foreldra á morgun þegar starfsdegi lýkur.
  • Grunnskólinn á Þingeyri opnar á morgun kl. 10:00 eftir að starfsfólk skólans hefur unnið að samrýmdum starfsháttum. Allar breytingar og aðrar upplýsingar koma fram á heimasíðu skólans.
  • Skólastarf í Grunnskóla Önundarfjarðar fer fram með hefðbundnum hætti og byrjar á venjulegum tíma á morgun en skólastjóri hefur unnið að breytingum á skipulagi skóladagsins. Allar upplýsingar má finna á heimasíðu leik- og grunnskóla Önundarfjarðar.
  • Skólastarf Grunnskólans á Suðureyri fer fram með hefðbundnum hætti og byrjar á venjulegum tíma á morgun en skólastjóri hefur unnið að breytingum á skipulagi skóladagsins og hafa komið fram upplýsingar á heimasíðu skólans.
  • Íþróttir og skólasund fellur niður á meðan samkomubannið er í gildi og eru allir skólar hvattir til þess að vera með útihreyfingu.
  • Dægradvöl hefur unnið að breytingum á sínu skipulagi og mun útfæra það enn frekar á starfsdegi á morgun. Útlit er fyrir að starfsemin verði skert en lögð er áhersla á að hafa sem mesta þjónustu fyrir nemendur.

Ekki verður starfsemi í íþróttaskóla á meðan samkomubannið er í gildi.

Sundlaugar Ísafjarðarbæjar verða opnar fyrir almenning á hefðbundnum opnunartíma en bent er á þær leiðir sem þarf að fara eftir til þess að forðast smit. Það verða fjöldatakmarkanir við 20 manns og bil á milli gesta þarf að vera 2 metrar.

Íþróttahúsin eru opin en lágmarksstarfsemi er í þeim næstu vikuna. Æfingar hjá íþróttafélögum falla niður til 23. mars á meðan félögin aðlaga sig að breyttum aðstæðum fyrir sína iðkendur. Frekari upplýsingar koma frá HSV og aðildarfélögum þegar útfærsla liggur fyrir.

Skíðasvæðin verða opin en ekki verður hægt að nýta aðstöðu í skálunum. Afgreiðsla verður opin en gestir eru hvattir til þess að taka með sér aðgangskort.

Mikilvægt er að allir fylgist vel með upplýsingum sem koma frá hverri stofnun fyrir sig. Breytingar geta orðið á starfsemi stofnana með stuttum fyrirvara næstu fjórar vikurnar. Við erum að leggja upp í nýja tíma þar sem mikilvægt er að við stöndum saman og sýnum samfélagslega ábyrgð í því hvernig við heftum útbreiðslu á COVID-19. Gleymum ekki samheldninni, samstöðinni og umburðarlyndinu, verum hvetjandi í þessum aðstæðum því saman getum við svo margt.

Stefanía Ásmundsdóttir
Sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs