COVID-19: Fréttir af skóla- og tómstundasviði 18. mars

Allir leik- og grunnskólar í sveitarfélaginu voru opnir í dag þar sem veður var ágætt í öllum fjörðum og gekk að mestu vel. Við erum þrátt fyrir það enn að leysa mál og finna lausnir svo allt gangi sem best fyrir alla.

Eins og fram kom í gær þurftum við að endurskoða skipulagið á leikskólanum Sólborg á Ísafirði eftir að hafa leitað eftir ráðleggingum frá sóttvarnarlækni. Úr varð að breyta þarf skipulaginu töluvert og frá og með morgundeginum, 19. mars, verða nemendur í skólanum annan hvern dag. Forstöðumaður Sólborgar sendir breytingar og nánari skilaboð til foreldra.

Leikskólinn Eyraskjól starfar alla daga og er það vegna þess að leikskólahúsnæðið býður upp á að nemendum sé skipt upp í minni hópa án þess að þeir skarist.

Dægradvöl gengur sinn gang og hefur dagurinn í dag verið góður.

Skíðasvæðið sendi út leiðbeiningar um hvernig best er að fara eftir viðmiðum um fjarlæg og annað. Vinsamlega kynnið ykkur það vel áður haldið er af stað.

Sundlaugar eru áfram opnar á fyrir almenning en með fjöldatakmörkunum.

Íþróttahúsin með lágmarksþjónustu.

Enn er verið að aðlaga skólaakstur og gott væri ef foreldar tækju samtal við nemendur um að halda fjarlægð í bílnum og þegar þeir yfirgefa hann á leið sinni inn í skólann. Þetta er mjög mikilvægt svo við getum fullvissað okkur um að við séum að gera rétt.

Skipulagið getur tekið breytingum mjög hratt og mikilvægt að fylgjast vel með skipulagi hjá sínu barni.

Í lokinn minni ég á að huga vel að sjálfum sér, borða hollt og gott, sofa vel og hreyfa sig á hverjum degi. Samstaða, jákvætt hugarfar og samvinna allra í samfélaginu kemur okkur langt.

Stefanía Ásmundsdóttir
Sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs