COVID-19: Endurskipulagning þjónustu á Hlíf

Í ljósi Covid-19 smits sem kom upp á Hlíf um helgina hefur velferðarsvið Ísafjarðarbæjar endurskipulagt þjónustuna í húsinu í samráði við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Aðstandendum og gestum er bannaður aðgangur að húsinu og er íbúum eindregið ráðlagt að halda sig inni í íbúðum. Íbúar sem eru í mataráskrift fá mat sendan beint í íbúðir sínar. Einnig hefur verið lokað fyrir alla þjónustu sem veitt er af fólki utan Hlífar, s.s. að loka dagdeild og starfsemi Félags eldri borgara auk þess sem heimaþjónusta er takmörkuð verulega.

Íbúar verða upplýstir um framvindu smitrakningar og niðurstöðu úr sýnatökum eftir því sem upplýsingar berast. Mjög fátt starfsfólk verður á ferli á Hlíf en íbúar geta hringt í síma velferðarsviðs 450 8043 og jafnframt í hjálparsíma Rauða krossins, 1717. 

Mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða sem þegar hafði verið gripið til hafa sannað sig en talsverðar sóttvarnarráðstafanir hafa verið viðhafðar á Hlíf upp á síðkastið, meðal annars með hólfaskiptingu á matmálstímum. Þetta hefur takmarkað verulega fjölda þeirra sem þurftu að fara í sóttkví þegar smitið greindist.

Í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða kemur fram að ekkert nýtt smit hafi greinst á Ísafirði í gær, sunnudaginn 23. ágúst. Allir sem eru í sóttkví og fjölskyldumeðlimir sýkta einstaklingsins á Hlíf voru skimaðir á sunnudag. Uppruni smitsins er því enn óljós og því er mikilvægt að smitgát sé viðhöfð áfram. Umfram allt þurfa íbúar að fylgjast með heilsufarinu og láta vita umsvifalaust ef þeir finna fyrir einkennum Covid-19. Ef sú staða kemur upp þá skal hringja í síma 1700 fyrir leiðbeiningar um sýnatöku.