Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 45

Elfar Logi og Marsibil hjá Kómedíuleikhúsinu með Siggu, eftir undirritun samstarfssamnings leikhússi…
Elfar Logi og Marsibil hjá Kómedíuleikhúsinu með Siggu, eftir undirritun samstarfssamnings leikhússins og Ísafjarðarbæjar.

Dagbók bæjarstjóra dagana 10. – 16.nóvember 2025, í 45. viku í starfi.

Þar sem ég endaði síðustu vinnuviku með löngu helgarfríi á Spáni þá hóf ég þessa vinnuviku í fríi en tók þó bæjarráðsfund vikunnar í „fjar“. Fríið heppnaðist vel og var ég komin til vinnu við skrifborðið mitt í hádeginu á miðvikudag.

Í vikunni undirituðum við loksins samninginn við Kómedíuleikhúsið sem var samþykktur í bæjarstjórn fyrir nokkrum vikum. Það eru mikil fríðindi að hér skuli vera rekið leikhús og verður að segjast eins og er að það komast fáir með tærnar þar sem þau hjón Elfar Logi og Marsibil í Kómedíuleikhúsinu hafa hælana.

Kómedíuleikhússamningurinn var ekki sá eini sem undirritaður var í vikunni því við undirrituðum einnig endurnýjaðan samning við Hjallastefnuna um rekstur á Eyrarskjóli. Þau komu hingað framkvæmdarstjórar Hjallastefnunnar þau Alma og Bóas ásamt Ingibjörgu og Mörtu frá Eyrarskjóli, við undirrituðum samninginn og Hafdís sviðsstjóri bauð upp á köku í tilefni af undirrituninni.

Fulltrúar Hjallastefnunnar og Ísafjarðarbæjar fyrir framan merki sveitarfélagsins eftir undirritun.
Ingibjörg leikskólastjóri á Eyrarskjóli, Bóas og Alma framkvæmdastjórar Hjallastefnunnar, ég og Hafdís. Myndin er tekin í tilefni af því að við vorum að undirrita samning við Hjallastefnuna um reksturinn á Eyrarskjóli.

Stóri starfsmannadagur Ísafjarðarbæjar fór fram eftir hádegi á fimmtudaginn. Það er annað hvert ár sem allir starfsmenn bæjarins koma saman, hlusta á fyrirlestra og taka þátt í vinnustofum. Í ár var ákveðið að halda starfsmannadaginn í húsakynnum Grunnskólans á Ísafirði. Það var þröngt en tókst. Maturinn og kaffið var æði. Við fengum fyrirlestur um netöryggi frá Bjarka Traustasyni frá Advania, Anna Steinsen var með bráðsnjallan fyrirlestur sem hún nefndi „Brúum kynslóðabilið“ og gekk út á það að útskýra mun á kynslóðum, hvað það er sem einkennir þær og hvers vegna við erum eins og við erum. Þá voru vinnustofur þar sem starfsfólk af erlendum uppruna sagði frá sinni reynslu við að koma til starfa hjá Ísafjarðarbæ og í framhaldi var rætt saman í hópum hvað og hvernig við getum gert betur þegar við tökum á móti nýju fólki inn á vinnustað og þá sérstaklega þegar um erlent fólk er að ræða. Það er nefnilega þannig að hjá Ísafjarðarbæ starfa um 400 einstaklingar og af þeim eru tæp 100 af erlendu bergi brotnir. Þá er jafnframt gaman að segja frá því að hjá Ísafjarðarbæ starfar fólk af 28 þjóðernum. Í lok dagsins var uppistandsfyrirlestur. Jóel Sæmundsson leikari hélt fyrirlestur fyrir „Ragnar Olgeirsson frá Attentus“ um samskipti, teymisvinnu og gervigreind. Þessi starfsmannadagur endaði semsagt þannig að við fórum flest, vonandi öll, hlæjandi heim eftir hressan endapunkt. Ég þakka teyminu sem sá um skipulag á þessum degi kærlega fyrir vel unnin störf en þar var fremstur í flokki Baldur mannauðsstjóri ásamt Helgu Sigríði Hjálmars, Dagnýju Finnbjörns og Hörpu Stefáns, TAKK ÞIÐ og takk allt starfsfólk Ísafjarðarbæjar fyrir frábæran dag.

Séð yfir matsalinn í Grunnskóla Ísafjarðar. Þétt setinn bekkurinn á stóra starfsmannadeginum.
Fullur salur á stóra starfsmannadeginum, þar sem starfsfólk Ísafjarðarbæjar kom saman, fræddist, ræddi og hló.

Jóna,  Baldur og Rakel standa hlið við hlið. Baldur heldur á viðurkenningarskjali.
Rakel og Jónu á stjórnsýslu- og fjármálasviði fannst Baldur eiga inni viðurkenningu vegna þess hversu vel tókst til með stóra starfsmannadaginn.

Á föstudag funduðum við Margrét Geirs með Höllu Signýju um samræmda móttökuáætlun og inngildingu. Fjórðungssamband Vestfjarða (FV) fékk styrk í verkefni úr byggðaáætlun en verkefninu var útvistað til Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og þannig kemur Halla Signý til skjalanna sem starfsmaður þar. Verkefnið snýr að því að þróa samræmda móttökuferla fyrir öll sveitarfélögin á Vestfjörðum, til að veita nýjum íbúum betri yfirsýn yfir þjónustu, félagsstarf, menningu og samfélögin sem þau eru að flytja til. Þá er það áskorun fyrir sveitarfélögin að finna leiðir innan stjórnsýslunnar til þess að raddir íbúa af erlendum uppruna nái að heyrast hvort sem um er að ræða í sveitarstjórnum, í gegnum formlegt nefndarstarf eða aðra ferla. Ástæða fundarins okkar á föstudag var að fara yfir þessi drög að samræmdri móttökuáætlun en núna fljótlega verður hún send til sveitarstjórna á Vestfjörðum til umsagnar. Það var skemmtilegg tilviljun að á meðan á fundi okkar stóð lenti morgunvélin og með henni voru sjö nýir íbúar frá Úkraínu.

Nýir íbúar frá Úkraínu í fundarherbergi á velferðarsviði Ísafjarðarbæjar.
Sjö nýir íbúar, öll frá Úkraínu, nýlent og mætt beint í pappírsvinnu hjá starfsfólki velferðarsviðs. Hress og kát og spennt fyrir nýjum kafla.

Á laugardaginn var í nægu að snúast. Tekið var á móti nýju björgunarskipi á Ísafirði, Guðmundi í Tungu. Skipið sigldi inn Pollinn og lagðist upp að flotbryggju við gömlu Fagranesbryggjuna þar sem fram fór móttökuathöfn sem byrjaði á því að sr. Magnús Erlingsson blessaði skipið. Síðan lék Lúðrasveit Tónlistarskólans nokkur lög. Þá voru flutt nokkur ávörp í tilefni af heimkomunni og að lokum var fólki boðið að skoða skipið. Slysavarnadeildin Iðunn bauð síðan til kaffisamsætis í Guðmundarbúð og þar var opið hús þar sem færi gafst á að skoða aðstöðuna og björgunartæki. Þetta var virkilega skemmtileg móttökuathöfn, gaman að fá að skoða skipið og að lokum að þiggja kaffiboðið.

Á bryggjunni á Ísafirði við móttökuathöfn. Fremst er björgunarsveitarfólk, fyrir aftan sést í nýja og gamla björgunarbátinn.
Við móttöku björgunarskipsins Guðmundar í Tungu.

Eftir þennan viðburð arkaði ég upp í Safnahús þar sem fram fór viðburður í tilefni 100 ára afmælis hússins (Gamla sjúkrahúsið). Þetta var málþing þar sem viðfangsefnið var ísfirsk byggingararfleifð og áskoranir sem fylgja því að vernda og viðhalda slíkri arfleifð. Þarna voru sex erindi hverju öðru áhugaverðara. Vel mætt, fullt út úr dyrum. Nú er ég búin að fara með stuttu millibili á fyrirlestra í Safnahúsinu og alltaf vel mætt, það er augljóst að erindi sem snúa að menningu okkar eru að hitta í mark og vekja áhuga fólks. Við megum vera svo stolt af Safnahúsinu okkar.


Á málþingi í Safnahúsi þar sem viðfangsefnið var ísfirsk byggingararfleifð og áskoranir sem fylgja því að vernda og viðhalda slíkri arfleifð.


Pétur H. Ármannsson flutti erindi um sjúkrahúsbyggingar Guðjóns Samúelssonar á málþinginu í Safnahúsi. Þarna sést hvernig Guðjón sá fyrir sér skipulag Eyrartúnsins.

Eftir málþingið arkaði ég niður í Edinborgarhús á árlega bókmenntavöku „Opna bók“. Þar var fullt af fólki mætt til að hlusta á upplestra höfunda sem lásu upp úr nýútkomnum verkum sínum, en það voru:

Elfar Logi Hannesson, Leiklist á Ísafirði
Fríða Ísberg, Huldukonan
Jón Kalman Stefánsson, Þyngsta frumefnið
Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Vegur allrar veraldar
Þröstur Jóhannesson, Elsku Monroe og Bogart
Þá komu Gylfi Ólafs og Arnheiður okkar og tóku tvö lög sem er að finna í nýútkominni nótnabók með lögum eftir Villa Valla sem Gylfi safnaði saman. Boðið var upp á kaffi og konfekt undir lestrinum.

Mjög skemmtileg samkoma og áhugaverðar bækur.

Arnheiður Steinþórsdóttir og Gylfi Ólafsson á sviðinu í stóra sal Edinborgarhússins. Arnheiður er að syngja og Gylfi spilar á hljómborð.Á bókmenntavökunni fluttu Gylfi Ólafs og Arnheiður okkar tvö lög sem er að finna í nýútkominni nótnabók með lögum eftir Villa Valla sem Gylfi safnaði saman.

Fleiri viðburðir voru í bænum þennan laugardag en þar sem maður getur illa klónað sig þá urðu þessi þrír að duga.

Sunnudagurinn var nýttur hér heima í tiltekt og jólasería sett utan á húsið. Fórum líka út að hlaupa og hér var eldaður hryggur með tilbehör í kvöldmat, legg ekki meira á ykkur!

Sigríður að skokka í Súgandafirði
Sunnudagsskokk í norðanverðum Súganda, hlupum út fyrir Gilsbrekku í þetta sinn.

Hús Sigríðar og Dúa á Suðureyri, jólaljós hafa verið sett meðfram kanti milli kjallara og aðalhæðar.
Almennt er ég nú frekar mikil jólamanneskja, sérstaklega hef ég gaman af því að lýsa upp umhverfið með jólaljósum. Settum upp fyrstu seríurnar í dag. Þetta kemur nú bara ljómandi vel út.