Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 44

Sigríður og Valþór við undirritun endurskoðaðs samnings við Björgunarfélagið vegna almannavarnarýmis…
Sigríður og Valþór við undirritun endurskoðaðs samnings við Björgunarfélagið vegna almannavarnarýmis.

Dagbók bæjarstjóra dagana 3. – 9. nóvember 2025, í 44. viku í starfi.

Það er ágætt að hafa eina dagbók í styttra lagi.

Vikan bauð upp á hefðbundinn fund í bæjarráði í upphafi viku, fund svæðisskipulagsnefndar. Síðan fundaði ég með öllum sviðsstjórum til að fara yfir starfsáætlanir ársins, sjá hvort markmið ársins hafi náðst og svo framvegis.

Í vikunni var undirritaður nýr samningur um sjúkraflutninga milli Ísafjarðarbæjar og Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Þá funduðum við um varmadæluverkefnið á Torfnesi en það er allt að skýrast þar með hvers konar búnað eigi að setja upp þar.

Ég kíkti í heimsókn niður í Guðmundarbúð en þar er slökkviliðið búið að koma sér fyrir til næstu 24 mánaða, á meðan við byggjum nýja slökkvistöð. Við undirrituðum endurskoðaðan samning við Björgunarfélagið vegna almannavarnarýmis og svo fékk ég að skoða aðstöðuna í Guðmundarbúð.

Slökkvilið og félagar í björgunarfélaginu í skrifstofurými í Guðmundarbúð.
Slökkviliðs- og björgunarsveitarmenn í Guðmundarbúð.

Danski sendiherrann, Erik Vilstrup Lorenzen, kom í heimsókn og áttum við ljómandi gott spjall um ýmislegt allt frá atvinnulífi til dönskukennslu. Ég er nefnilega mjög hlynnt því að Íslendingum sé kennt allavega eitt norðurlandatungumál, það er gott að geta gert sig skiljanlegan á Norðurlöndunum á öðru máli en ensku. Það er því góður grunnur að kunna smá í dönsku og ótrúlegt hvað hún fylgir okkur.

Danski sendiherrann og Sigríður takast í hendur fyrir framan merki Ísafjarðarbæjar á vegg í afgreiðslu sveitarfélagsins.
Ég og danski sendiherrann á Íslandi.

Bæjarfulltrúar áttu góðan vinnufund til að fara yfir fjárhagsáætlun bæjarins á milli umræðna í bæjarstjórn. Eins og ég gat um í síðustu dagbók þá þarf að færa til og yfirfæra áætlunina til að láta hana uppfylla þau markmið sem við setjum okkur.

Ég fór, ásamt Margréti sviðsstjóra velferðarsviðs á Þingeyri í vikunni. Við áttum þar dagpart þar sem við buðum uppá fundi með íbúum. Það var ljómandi, alltaf gott að hitta fólkið.

Sigríður og Margrét fyrir utan Blábankann. Sjálfa í nærmynd.
Við Margrét Geirs við Blábankann á Þingeyri, þar sem við áttum gott spjall við íbúa.

Í vikunni var kvenfélagsfundur hjá Ársól á Suðureyri og þá hittist kirkjukórinn til að æfa fyrir aðventukvöld sem er áformað 30. nóvember í Suðureyrarkirkju. Mér þótti hálfleiðinlegt að missa af farsældarþingi Vestfjarða á föstudag og kótilettukvöldi á Súganda á laugardagskvöld en mér skilst að hvorutveggja hafi lukkast ljómandi vel. Við Dúi tókum okkur nefnilega smá frí, þrír virkir dagar á hlýrri slóðum og tíminn nýttur til að hlaupa eitt hálfmaraþon sem gekk svona líka ljómandi vel.

Dúi og Sigga á Spáni, með Áslaugu vinkonu sinni.
Á leið út að borða með Áslaugu vinkonu, hún býr á Spáni en áður bjuggum við í sama húsi á Berugötunni.

Sigga á hlaupum í hálfmaraþoni.
Fullkomnar aðstæður til að hlaupa hálfmaraþon, 23 gráðu hiti, sól og andvari.

Sjálfa af Siggu og Dúa komin í mark í maraþoninu.
Komin í mark! Ég hljóp á mínum lakasta tíma, enda ekki sinnt æfingum sem skyldi. Maður uppsker eins og maður sáir…