Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 35
Dagbók bæjarstjóra dagana 1.-7. september 2025, í 35. viku í starfi.
Þessi vika var þétt. Mikið að gera, margir fundir og margar ákvarðanir en hér verður stiklað á nokkrum þeirra en annars minni ég á að allar fundargerðir liggja frammi á vef Ísafjarðarbæjar.
Í bæjarráði voru lagðar fram tillögur á breytingum á samþykktum bæjarins, þetta snýr að því að einfalda og straumlínulaga ýmsa ferla hjá okkur með þjónustu til íbúa að leiðarljósi. Það gerum við með því að flýta stjórnsýslu með styttri afgreiðslutíma ákveðinna verkefna, svo sem að færa mál frá samþykkt bæjarstjórnar til fastanefndar eða af fastanefnd til starfsmanns. Þetta snýr til dæmis að breytingum sem snúa að endurnýjun lóðarleigusamninga, umsagnir til sýslumanns, útgáfa framkvæmdaleyfa og ýmislegt fleira. Hægt er að nálgast þessar breytingar inni á fundargerð bæjarráðs.
Ársfjórðungsuppgjör (hálfsársuppgjör) var lagt fram til kynningar. Uppgjörið sýnir jákvæða rekstrarniðurstöðu A og B hluta upp á 1.098 m.kr. fyrir janúar til júní 2025. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu upp á 1.020 m.kr. fyrir sama tímabil og er rekstrarafgangur 79 m.kr. hærri en áætlað var á öðrum ársfjórðungi. Þannig að við sjáum fram á að öllu óbreyttu ættum við að vera í 200 milljóna plús í lok árs. Það má ekki gleyma sér í gleðinni og mikilvægt að halda vel í taumana.
Afsal og rekstrarsamningur við Hollvinasamtök Samkomuhússins á Flateyri var samþykktur. Ferill þessa máls er orðinn nokkuð langur en hófst fyrir 2-3 árum þegar ákveðið var að selja Samkomuhúsið, þá voru gögn er varðar eignarhaldið ekki tiltæk og þurfti að fara í heilmikinn „uppgröft“ til að finna þau gögn. Fyrir tæpu ári var svo ákveðið að hefja söluferli en íbúar mótmæltu því og úr varð að þau stofnuðu Hollvinasamtök sem taka nú við húsinu. Til hamingju með það Flateyringar.
Súgfirðingar rifu gömlu geymsluna og búningsklefana á bak við Félagsheimilið en í bígerð er hjá Hofsú (hollvinasamtök) að byggja nýja geymslu og nútíma salernisaðstöðu við Félagsheimilið í náinni framtíð. Það verður að segjast eins og er að hollusta og frumkvæði fólks á svæðinu er lofsverð, hvort sem það snýr að félagsheimilum eða umhverfi almennt. Þannig byggjum við gott samfélag.

Hér var einu sinni geymsla og búningsklefar (Félagsheimilið á Súganda).... en ekki örvænta, hér verður endurbyggt.
Ég fundaði með fulltrúum frá Björgunarsveitinni Tindum í Hnífsdal vegna þjónustusamnings.
Þá stendur til í að fara í vinnu við að straumlínulaga ferla hér innanhúss og átti ég fund með „lean“ ráðgjafa varðandi það. Við fengum kynningu á kortaverksjá, þá voru lóðamál ýmiskonar til umræðu, eins og gengur, allskonar. Í lok vikunnar var undirbúningsfundur vegna fundar svæðisskipulagsnefndar sem er áformaður í næstu viku.
Undirbúningur vegna varmadæluverkefnis á Torfnesi er í gangi en við Axel og Steini Más funduðum en erum að bíða eftir minnisblaði frá ráðgjöfum um hvaða leið/lausnir standa til boða.
Bæjar- og sveitarstjórar á Vestfjörðum funduðu með Sirrý og Aðalsteini á Vestfjarðastofu. Þetta eru mánaðarlegir fundir þar sem farið er yfir það sem er efst á baugi.
Fyrsti fundur bæjarstjórnar eftir sumarfrí fór fram á fimmtudag, alltaf gott að komast í rútínu með bæjarstjórnarfundi en fundardagar bæjarstjórnar í vetur voru samþykktir á bæjarstjórnarfundi í maí. Þannig að það liggur alveg fyrir hvaða daga fundað verður fram yfir kosningar í vor. Sjá minnisblað.
Fyrir fundinn ákváðum við Nanný að rétta úr okkur og taka rölt uppí Naustahvilft, alveg passleg ganga til að koma sér í gírinn fyrir fund.

Það er hressandi að taka rölt upp í Naustahvilft fyrir bæjarstjórnarfund, og eiginlega alltaf. Mæli með.

Þetta er svolítið lýsandi mynd fyrir veður vikunnar, hæglæti, þoka og úrkoma.
Slökkvistöðin er í brennidepli. Í vikunni komu hönnuðir nýrrar stöðvar í vettvangsferð, skoðuðu núverandi aðstöðu, væntanlega lóð og funduðu auk þess með byggingarnefnd. Skrifað var undir samning um hönnun. Frumdrög verða klár 17. september næstkomandi. Þá munum við funda í kjölfarið, nefndin og hönnuðir. Í lok september verður grunntillaga tilbúin ásamt kostnaðaráætlun (gróf) og í nóvemberbyrjun eru lokaskil á hönnun.

Skrifað undir samning um hönnun nýrrar slökkvistöðvar.

Spegúlerað í gömlu slökkvistöðinni.

Spegúlerað á lóð væntanlegrar slökkvistöðvar.
Búið er að semja við Verkhaf um hreinsun og undirbúning lóðar og þeir eru klárir í að byrja. Þess vegna var fyrsta skóflustungan tekin núna á föstudaginn (5. september) og fékk ég þann heiður að gera það með góðri aðstoð frá Gylfa og Kristjáni í Bæ (frá Verkhafi). Skemmtilegt og langþráð verkefni sem þýðir stórbætta aðstöðu slökkviliðs og sjúkraflutninga.

Við skóflustunguathöfnina.

Fyrsta skóflustungan....

Svona tæki og ekkert annað dugar til að moka fyrir nýrri slökkvistöð.
Ég hef orðið þess áskynja að margir velta fyrir sér staðetningu stöðvarinnar, margar skoðanir á lofti þar en málið er að þessi staðsetning var valin eftir heilmikla staðarvalsgreiningu þar sem nokkrar staðsetningar voru til skoðunar og þessi staðsetning skoraði hæst. Auðvitað getum við séð eitthvað annað fyrir okkur, ef ég hefði mátt ráða og getað breytt ákvörðunum aftur í tímann þá hefði ég valið Torfnes, en hins vegar er ekkert pláss þar því þar eru íþróttamannvirkin, heilbrigðisstofunin, leikskóli og Menntaskólinn, þannig að draumastaðsetningin mín var hreinlega ekki í boði. Ég treysti á að þessi staðsetning á Suðurtanga verði okkur til gæfu og þarna muni rísa glæsileg slökkvistöð sem mun verða okkur íbúum til sóma.
Átti sérlega góðan og gagnlegan morgunverðarfund með forseta Íslands á laugardag. Halla Tómasdóttir var hingað komin til að vera viðstödd opnun „Gullkistan Vestfirðir“ og skólasetningu Lýðskólans. Hún nýtti því tækifærið og fundaði með mér og eftir það fórum við í móttöku hjá Vestra. Halla er nefnilega mikil fótboltaáhugakona og það var virkilega gaman að sjá þvílíkar móttökur hún fékk hjá Vestrafólki og hvetjandi orð forsetans munu örugglega gefa liðsmönnum aukinn kraft. Fundur okkar Höllu stóð í um klukkutíma en við ræddum um heima og geima og það sem hæst ber hér fyrir vestan, atvinnulífið, menntun, skógrækt, forvarnir, kraft kvenna og riddara kærleikans.

Halla forseti og hluti af liðsmönnum meistaraflokks Vestra.

Skoðuðum veitingasöluhús Vestra.
Þá var það Gullkistan Vestfirðir. Vá! Til hamingju Vestfirðingar allir með frábæra sýningu. Það var svo gaman. Það var svo mikill fjölbreytileiki. Það var svo mikil jákvæðni. Þetta var eins og vera mætt á risastórt ættarmót. Ég komst ekki yfir að heimsækja alla básana, bíð þess vegna spennt eftir næstu Gullkistu!
Ísafjarðarbær var með bás og þar var aldrei lognmolla, mikil traffík og gaman. Við vorum með hugmynda-/ábendingabox þar sem fólki gafst tækifæri til að skrifa niður eitthvað sem það vildi koma á framfæri. Við áformum svo að taka þessa miða, flokka þá og beina ábendingum/hugmyndum í viðeigandi nefndir bæjarins. Þarna á básnum var einnig lukkuhjól sem naut mikilla vinsælda en þar voru fjölbreyttir vinningar. Þá kom þjónustumiðstöðin sterkt inn með myndasýningu af stífluðum frárennslisdælum, Safnahúsið með handrit og þarna voru allskonar upplýsingar um þjónustu sveitarfélagsins. Þá var þarna sófi sem ég gaf mér smá tíma til að setjast í og þar gafst fólki tækifæri á að spjalla, eins og til dæmis tvær ungar dömur sem voru með ábendingu varðandi fimleikaæfingar en ég sagði þeim að ég vissi að Grettir á Flateyri á fínar græjur til að setja í gang æfingar og þær sögðust vita um þjálfara….þannig að boltinn er kominn á loft!

Gullkistan Vestfirðir, eins og sjá má var fjölmennt!

Í sófanum á Gullkistunni.
Ég þakka hér með starfsfólki Ísafjarðarbæjar sem kom að framkvæmd þessa viðburðar kærlega fyrir óeigingjarnt starf. Þá er ég að tala um fólkið sem græjaði básinn, stóð vaktir og svo þau í þjónustumiðstöðinni sem voru sérlega liðleg við aðstoð við allan undirbúning á húsi (gólf, svið, flöggun og svo framvegis).
Þjóð gegn þjóðarmorði, samstöðufundur fór fram á fjölmörgum stöðum á laugardag. Hér í Ísafjarðarbæ fór hann fram á Silfurtorgi. Markmiðið með fundinum var að láta í ljós hversu sorgmædd við erum á framferði stjórnvalda í Ísrael gagnvart fólki í Palestínu og sýna samkennd með því að senda skilaboð um að okkur sé ekki sama. Nokkur ávörp voru flutt, auk ljóðalesturs.

Á samstöðufundi á Silfurtorgi, þjóð gegn þjóðarmorði.
Ég mætti á skólasetningu Lýðskólans á Flateyri sem fór fram í gær, laugardag. Ánægjulegt að sjá nemendahópinn sem telur tuttugu manns. Þetta er fyrsta skólasetning Möggu Gauju eftir að hún varð skólastjóri sem og Sigurrósar kennslustjóra en auk þeirra starfar Margeir sem hefur unnið við skólann síðustu fjögur ár að mig minnir (hálfa starfsæfi skólans) en hann er jafnframt gamall nemandi. Náði í kærustu í Lýðskólanum (hana Steinunni Ásu) og nú eiga þau hús og tvö börn á Flateyri. Það er nefnilega málið að mörg sambönd og auðvitað vinátta hefur orðið til í Lýðskólanum og gaman að segja frá því að þegar ég var skólastjóri þá tók ég saman hve mörg af nemendum skólans frá upphafi væru búsett hér fyrir vestan, en þá voru það 15% útskrifaðra nemenda sem voru áfram hér.

Forseti Íslands, mennta- og barnamálaráðherra og nýnemar við Lýðskólann á Flateyri.

Eftir skólasetningu Lýðskólans var kaffiboð á Vagninum.

Það er alltaf stuð á Vagninum!
Skólasetningin var hefðbundin, ræður, söngur, myndataka og kaffi. Frábærar ræður forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðherra, Runólfs stjórnarformanns og Möggu Gauju skólastjóra. Á eftir var boðið í kaffi á Vagninum og þar var þetta eins og á Gullkistunni, eins og á ættarmóti.
Skokk, fjölskylduhittingur (þrefalt afmæli) og garðvinna var í brennidepli á sunnudegi. Uppskerufíkillinn ég útbjó grænmetisgratín í miklu magni sem verður fryst.

Grænmetisbökur uppskerufíkilsins.
Svo má ég nú ekki gleyma því að í vikunni áttum við Dúi minn fjögurra ára brúðkaupsafmæli, ávaxta- og blómabrúðkaup.

Í tilefni af ávaxta- og blómabrúðkaupi.