Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 31

Dagbók bæjarstjóra dagana 4.-10. ágúst 2025, í 31. viku í starfi.

Á mánudaginn fór ég, ásamt fleirum, um borð í skemmtiferðaskip og var viðstödd plattaskipti. Þetta var semsagt fyrsta heimsókn Scarlet Lady til Ísafjarðar og líkt og venjan er við slík tímamót skiptust hafnarstjóri og skipstjóri á plöttum til að innsigla sambandið. Virgin Voyages á og rekur Scarlet Lady og þar er lögð áhersla á að andrúmsloftið um borð sé afslappað og nái að heilla fólk sem hingað til hefur verið of „svalt“ til að hafa áhuga á að ferðast með skemmtiferðaskipum. Klæðaburður um borð er mun óformlegri en oft gerist á skipum annarra útgerða, sást það glögglega t.d. á klæðaburði starfsfólks skipsins. Um borð í skipinu eru veitingastaðir, verslanir, spilavíti, skemmtistaðir, hárgreiðslustofur, tattoostofa (sú fyrsta sem starfrækt er á hafi úti) og ýmis önnur þjónusta til að láta fólk líða sem best. Scarlet Lady var á tíu daga siglingu frá Portsmouth á Englandi til Reykjavíkur, með viðkomu í sex öðrum höfnum, þ.a.m. Akureyri og Ísafirði. Skipið kom svo aftur við hjá okkur síðar í vikunni og var þá á bakaleið til Portsmouth.

Stýrimaður og skipstjóri Scarlet Lady standa hvor sínum megin við Hilmar hafnarstjóra í skuti skipsins.
Við plattaskiptin á mánudag. Stýrimaðurinn, Hilmar hafnarstjóri og skipstjórinn.

Gestir frá Ísafjarðarbæ um borð í Scarlet Lady. Þeir sitja við rúllettuborð í spilavíti skipsins.
Um borð í Scarlet Lady.

Hingað kom sendinefnd frá Vági í Færeyjum til að kynna sér móttöku skemmtiferðaskipa á Ísafirði. Vágur er u.þ.b. 1.300 manna samfélag á Suðurey, syðstu eyju Færeyja. Íbúar í Vági eru að fikra sig inn á skipamarkaðinn en vonir standa til að skipakomum muni fjölga á komandi árum og að þær verði með tímanum öflug stoð undir atvinnulífið á staðnum. Gátu fulltrúarnir fylgst með móttöku á skipinu Viking Neptune sem kom með u.þ.b. 900 farþega í höfn á þriðjudag og á miðvikudag þegar tvö stærri skip komu í heimsókn Mein Schiff með u.þ.b. 2.700 farþega sem lá við bryggju og Celebrity Silhouette með u.þ.b. 2.800 farþega og lagðist við akkeri. Þannig að þau fengu að sjá tvo óklíka daga hér á höfninni. Sendinefndin átti fundi bæði með mér og með hafnarstjóra Ísafjarðarbæjar. Frétt um heimsóknina kom inn á heimasíðu Vága.

Sigríður með færeysku sendinefndinni á Ásgeirsbakka á Ísafirði.
Ég með færeysku sendinefndinni. Rakul, Arni, Edith, ég og Marin. 

 

Nefnd um byggingu slökkvistöðvar fundaði á föstudag. Þar var ákveðið að leggja til við bæjarstjórn að ganga til samninga við lægstbjóðanda í útboði vegna hreinsunar á lóð slökkvistöðvar við Suðurtanga, Ísafirði. Þannig að það verkefni ætti að komast í gang á næstu dögum/vikum. Þá er verið að semja við aðila um hönnun á stöðinni. Semsagt þetta er allt í ferli.

 

 

Ég var með fyrirspurnartíma á Suðureyri eftir hádegi á föstudag, Erla skipulagsfulltrúi kom með mér. Það litu nokkrir íbúar inn og rætt var um allt milli himins og jarðar, við Erla tókum niður punkta og athugasemdir og þökkum gestunum kærlega fyrir komuna og spjallið.

Sigríður og gestir við fundarborð í Sunnuhlíð á Suðureyri.
Bæjarstjóraspjallið á föstudaginn.

 

 

Einleikjahátíðin ActAlone fór fram á helginni, á Suðureyri. Í rauninni hófst hún á miðvikudagskvöld með tónleikum, þannig að fimm daga veisla var þetta. Það var fjölmenni í þorpinu og ekki þverfótað fyrir áhugaverðum viðburðum sem voru nærri 30 talsins. Magnað hjá aðstandendum hátíðarinnar. Auðvitað náði maður ekki nema hluta af allri veislunni og varla hægt að telja allt upp en ég mæli með að fólk kynni sér Act-ið og taki frá helgina eftir verslunarmannahelgi að ári og mæti. Lokaviðburður hátíðarinnar í ár var ósköp þægilegur hádegisjazz Gylfa Ólafs (sem er formaður bæjarráðs og ská-stjúptengdsonur minn), þetta voru fyrstu sólótónleikar Gylfa, skemmtilegur endir á frábærri hátíð.

Bernd Ogrodnik á sviði með brúðuleiksýningu.
Frá brúðusýningunni Umbreyting, hann Bernd er ótrúlegur!

Óðinn Gestsson skenkir fiski af hlaðborði í garðveislu á Suðureyri.

Fiskiveislan á Actinu er fastur liður, nammmm.... Óðinn Gestsson hélt um taumana þar.

Hallgrímur Helgason á sviði í félagsheimilinu á Suðureyri.
Hallgrímur Helgason á Actinu.

Gylfi Ólafsson með jazztónleika í Grunnskóla Suðureyrar.
Hádegisjazz með Gylfa Ólafs, lokaatriðið á Actinu.

 

 

Við Dúi leiðsögðum á Sporhamarsfjall í Önundarfirði á laugardag. Þetta var ferð á vegum Ferðafélags Ísfirðinga sem ég hef áður minnst á í pistlum mínum en þetta félag er einstaklega virkt verð ég að segja. Við vorum heppin með veður og hópurinn góður, eins og við var að búast en v vorum tíu talsins af fjórum þjóðernum. Gaman að í hópnum voru nokkrir nemendur frá Háskólastri Vestfjarða. Enn hvet ég fólk til að kynna sér dagskrá Ferðafélagsins.

Hópur á toppi Sporhamarsfjalls í Önundarfirði.
Á toppi Sporhamarsfjalls í Önundarfirði.

Sigríður við vörðu á toppi Sporhamarsfjalls.
Smá svona skjálfti í hnjám...

Horft yfir Sporhamarinn á toppi fjallsins. Manneskja situr á klettinum.
Á Sporhamarsfjalli.

 

 

Kær vinkona mín til 35 ára, hún Ása Dóra, kom í heimsókn til okkar með dóttur sína hana Jódísi Möggu, þær voru hér í nokkra daga og nutu dagskránnar á Actinu. Við elduðum góðan mat og ræddum um heima og geima.

Jódís Magga stendur og virðir fyrir sér lítinn skúlptúr af Vigdísi Finnbogadóttur.
Andans fólk hét listsýning Brynhildar Kristinsdóttur. Jódís Magga heillaðist af Vigdísi.

 

Sunnudagurinn fór svo í garðatiltekt, uppskerustúss, saftgerð og svo kíktum við í afmæliskaffi til Arnheiðar okkar, 31 árs.

Safpottur á eldavél
Krækiberjasaft í vinnslu.