Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 21
Dagbók bæjarstjóra dagana 26. maí–1. júní 2025, í 21. viku í starfi.
Þrír íbúafundir voru haldnir í vikunni, um þjónustustefnu Ísafjarðarbæjar. Þjónustustefna Ísafjarðarbæjar er unnin samkvæmt 130. gr. sveitarstjórnarlaga en þar er kveðið á um að sveitarstjórn skuli móta sér stefnu sem sveitarfélagið hyggst halda uppi í byggðum og byggðarlögum fjarri stærstu byggðarkjörnum innan sveitarfélagsins. Stefnan er sett fram fyrir komandi ár og næstu þrjú ár á eftir og er unnin samhliða fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir sama tímabil. Við hófum þessa vinnu í byrjun árs en þetta er í fyrsta sinn sem við vinnum svona stefnu hér. Íbúafundirnir voru haldnir á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri og svo liggur stefnan til kynningar inni á Betra Ísland og gefst íbúum tækifæri til að kynna sér hana og koma með ábendingar og/eða athugasemdir næstu tvo mánuði eða út júlí. Hvet alla íbúa til að kynna sér málið, betur sjá augu en auga.

Á íbúafundi í félagsheimili Súgfirðinga.

Á íbúafundi í félagsheimilinu á Flateyri.
Það var reyndar þannig að ýmislegt annað kom upp í umræðum á fundunum sem hafði lítið með stefnuna sjálfa að gera en mikilvægt þó að kæmi fram og snýr t.d. að sveitarfélaginu og starfseminni á hinum ýmsu sviðum. Það er gott og gagnlegt að hitta íbúana á svona fundum en ég verð samt að vera hreinskilin með það að mér finnst alveg í lagi að fólk komi fram við aðra eins og það vill að það sé komi fram við sig. Kurteisi kostar ekkert. Ég þreytist ekki á að segja þetta.
Stjórn og starfsfólk Sambands íslenskra sveitarfélaga kom hingað í heimsókn, við áttum góðan fund með þeim, þar sem ég rúllaði yfir kynningu á sveitarfélaginu, auk þess að rædd var stefna og aðgerðaáætlun Ísafjarðarbæjar um móttöku skemmtiferðaskipa, skipulagsmál og annað.
Fjölmargir aðrir fundir voru í vikunni, eins og gengur, til dæmis með framkvæmdarstjóra Hjallastefnunnar sem rekur einn leikskóla á Ísafirði, svæðisskipulagsnefndin fundaði, framkvæmdarráð velferðaþjónustu Vestfjarða, byggingarnefnd slökkvistöðvar og margir aðrir fundir. Þá fékk ég nokkrar heimsóknir á skrifstofuna, Kristján Freyr rokkstjóri kíkti til dæmis við og áttum við gott spjall um Aldrei fór ég suður.
Ég fór í messu á uppstigningardag þar sem biskup Íslands, Guðrún Karls Helgudóttir predikaði. Eftir messuna og messukaffið hittumst við á Silfurtorgi þar sem við lögðum lokahönd á regnbogamálninguna.

Á uppstigningardag var fólk heiðrað fyrir 30 ára kirkjukórastarf.

Guðrún biskup og Sigríður bæjarstjóri mála regnbogann á Silfurtorgi.
Tónlistarskólanum á Ísafirði var slitið með hefðbundnu sniði í vikunni en þar voru veittar ýmsar viðurkenningar. Ágústa Þórólfsdóttir píanókennari var heiðruð fyrir starf í þágu tónlistar en hún hefur verið kennari við skólann síðan 1982 og hefur starfað með öllum fimm skólastjórum Tónlistarskólans!

Ágústa Þórólfsdóttir píanókennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar fékk heiðursverðlaun skólans.
Ég fór, eins og fjölmargir aðrir fulltrúar sem höfðu sent inn umsögn vegna frumvarps um breytingu á veiðigjöldum, á fund atvinnuveganefndar til að fylgja eftir umsögn Ísafjarðarbæjar um frumvarpið. Í umsögn Ísafjarðarbæjar kom fram að við tækjum heilshugar undir umsögn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, þá lögðum við áherslu á fyrirsjáanleika þegar slíkar breytingar eru boðaðar, það skiptir máli fyrir fyrirtækin svo uppbygging og fjárfestingaráform þeirra séu í takt við boðaða stefnu stjórnvalda. Það er svolítið sérstakt að skynja áhyggjur sem liggja í loftinu vegna þessa og það á þessari helgi.
Við fögnuðum sjómannadeginum hér eins og annarsstaðar á landinu. Ég tók virkan þátt í gleðinni á Suðureyri en við kíktum einnig í sjómannadagskaffi á Flateyri. Sjómannadagshátíðin á Suðureyri stóð reyndar í fleiri daga, byrjaði á miðvikudagsköldi með krakkabíói, þá var uppistand, óvissuferð fyrir unglinga, trúbador, pubquiz, kappróður, froðudiskó, hátíðarkvöldverður, ball og ýmislegt fleira.

Væb og froðudiskó!! Svakalega gaman og ósvikin gleði.

Ball með Babies flokknum, klikkar ekki!

Í sjómannadagskaffi á Flateyri, Toggi var fyrstur í röðinni.
Þær klikka sko ekki á hlaðborðinu kvenfélagskonurnar!
Ég bauð uppá bakgarðsskemmtiskokk á laugardagsmorgninum en það fór þannig fram að fólk hljóp eða gekk ákveðinn hring. Þessi hringur var farinn á 10 mínútna fresti. Farnir voru fimm hringir og það var gaman að sjá flotta mætingu en það voru yfir 30 manns sem mættu, á öllum aldri.

Ein sjálfa af hópnum áður en hlaupið var af stað síðasta hringinn í bakgarðsskemmtiskokkinu.

Ég og Kristján rútubílsstjóri, hann var sennilega elsti þátttakandi í bakgarðsskemmtiskokkinu.
Í sjómannadagsmessunni var Guðni Einarsson heiðraður en í ræðu kom fram að Guðni fór í sinn fyrsta steinbítsróður aðeins fjögurra ára en líf hans hefur helgast af sjómennsku og útgerð, hann hefur verið á fjölda báta allt frá því að vera á skaki á trillu til þess að vera á hvalveiðum. Það var ánægjulegt að vera viðstödd þessa heiðrun en ég minnist þess mjög vel þegar afi minn var heiðraður á sjómannadaginn fyrir tja… ca 40 árum síðan.

Lilja Rafney afhendir Guðna Einars heiðursorðu sjómannadagsins.
Sjómannadagshelgin endaði svo með kvöldsiglingu út Súgandafjörð en hefðin er að bátaeigendur bjóði fólki í siglingu. Ég, Dúi og Þórður fórum, ásamt fleirum, með Viktoríu þeirra Steina og Halldóru og það var ofsalega gaman, alltaf gaman að komast út á sjó og fá annað sjónarhorn á landið, takk fyrir okkur.

Við stýrið á Viktoríu.

Gölturinn, útvörður Súgandafjarðar að norðanverðu.

Ég, Halldóra og Lilja á siglingu að kvöldi sjómannadags.