Blábankastjóri óskast

Starf bankastjóra í Blábankanum á Þingeyri hefur verið auglýst laust til umsóknar. Núverandi Blábankastjóri, Birta Bjargardóttir, mun láta af störfum í haust og því er leit hafin að arftaka hennar. Að sögn Ketils Berg Magnússonar, stjórnarformanns Blábankans, er mikil gróska í Blábankanum. „Starfið í Blábankanum gengur vel og með nýrri stefnumótun skilgreinum við Blábankann sem suðupott sköpunar á Vestfjörðum.“

Nánari lýsingu á starfinu og umsóknarform má finna á alfred.is.

Blábankinn á Þingeyri er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var árið 2017 þegar Landsbankinn hætti starfsemi á Þingeyri og bauð húsnæðið til starfseminnar. Stofnaðilar voru einkaaðilar, Ísafjarðarbær og sveitarstjórnarráðuneytið. Markmið Blábankans er að skapa alþjóðlegan vettvang fyrir nýsköpun og sjálfbærni og auka lífsgæði fólks á Þingeyri.