Bæjarstjórn fordæmir innrás Rússa í Úkraínu

Á 491. fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, sem fram fór fimmtudaginn 3. mars, var óskað eftir því að taka ályktun um innrás Rússa í Úkraínu á dagskrá með afbrigðum. 

Forseti bæjarstjórnar lagði fram eftirfarandi tillögu að bókun bæjarstjórnar sem var samþykkt einróma:

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fordæmir harðlega innrás Rússa í Úkraínu og lýsir fullri samstöðu og stuðningi við fólkið í Úkraínu. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hvetur ríkisstjórn Íslands sem og aðrar vinaþjóðir til að taka á móti flóttafólki og veita allan þann stuðning sem þarf til að hjálpa úkraínsku þjóðinni að komast í gegnum þessar hörmungar. Ísafjarðarbær lýsir sig reiðubúin til að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu.

Tillagan var tekin á dagskrá að ósk Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarfulltrúa Í-lista sem tók til máls á fundinum og sagði meðal annars að þó ályktunin væri lítil í stóra samhenginu þá skipti hún máli. „Ef allir geta lagt eitthvað smá af mörkum til að lina þjáningar úkraínumanna þá er það vel þess virði.“ 

Að sögn Birgis Gunnarssonar, bæjarstjóra, er er afar mikilvægt að allir landsmenn sameinist í stuðningi við Úkraínu í þeim hörmungum sem á þeim dynja. „Ísafjarðarbær sýnir með þessu vilja sinn til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar og lýsir sig reiðubúinn til að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu.“