Bæjarráð vill halda virkjunarmöguleikum í Vatnsfirði opnum
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur lýst því yfir að það telji enn tilefni til að skoða áfram virkjunarkosti í Vatnsfirði, þrátt fyrir að svæðið sé friðlýst. Þetta kemur fram í bókun ráðsins í kjölfar útgáfu skýrslu Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri (RHA) „Vatnsaflsvirkjun í friðlandinu í Vatnsfirði?“. Í skýrslunni er kannað hvort fyrir hendi séu nægjanlega brýnir samfélagslegir hagsmunir til að breyta friðlýsingarskilmálum í friðlandi Vatnsfjarðar. Slík breyting væri forsenda þess að Vatnsdalsvirkjun, fyrirhuguð vatnsaflsvirkjun af 20–30 MW stærð, gæti komið til álita í rammaáætlun um nýtingu orkulinda. Skýrslan var unnin fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrr á þessu ári.
Í skýrslunni kemur fram að Vestfirðir glíma við skert afhendingaröryggi raforku, og að fyrirhuguð virkjun myndi bæta orkuöryggi verulega, meðal annars með styttri flutningsleiðum. Þá drægist nýting á olíuknúnu varaafli saman og fjárhagsleg hagkvæmni virkjunarinnar gæti verið veruleg.
Samhliða samfélagslegum hagsmunum er í skýrslunni rýnt í verndargildi Vatnsfjarðar og stöðu svæðisins innan nets friðlýstra svæða. Friðlandið er metið í góðu ástandi og gegnir lykilhlutverki í líffræðilegri fjölbreytni, meðal annars sem búsvæði farfugla og náttúrulegra skóga. Auk þess er bent á að Ísland hafi alþjóðlegar skuldbindingar á sviði náttúruverndar sem taka þurfi mið af, meðal annars samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.
Niðurstaðan er að þrátt fyrir að brýnir samfélagslegir hagsmunir séu til staðar þá sé ekki auðvelt að rökstyðja að aflétting eða breyting friðlýsingar friðlandsins í Vatnsfirði sé rétta leiðin til að bæta þar úr.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur áherslu á að halda virkjunarkostinum opnum til frekari skoðunar og útiloka ekki notkun hans í framtíðinni. Í bókun bæjarráðs segir: