Bæjarráð: Fyrirsjáanleiki nauðsynlegur í lagasetningu um veiðigjöld
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur áherslu á að breytingar á veiðigjöldum og auðlindagjöldum verði gerðar í skrefum og með skýrum fyrirsjáanleika. Þetta kemur fram í umsögn Ísafjarðarbæjar um frumvarp til laga um breytingar á lögum um veiðigjald sem nú liggur fyrir Alþingi. Í umsögninni er áréttað að Ísafjarðarbær styður álagningu veiðigjalda og auðlindagjalda almennt en að fyrirsjáanleiki sé nauðsynlegur til að fyrirtæki í sjávarútvegi geti skipulagt fjárfestingar og uppbyggingu í samræmi við stefnu stjórnvalda.
Bæjarráð tekur einnig heilshugar undir umsögn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga um frumvarpið. Í umsögn samtakanna eru gerðar alvarlegar athugasemdir við að greining frumvarpsins nái ekki til raunverulegra áhrifa hækkunar veiðigjalda á byggðalög. Samtökin benda meðal annars á að gögn frumvarpsins byggi á lögheimili fyrirtækja en ekki raunverulegri starfsemi þeirra – sem geti skekkt myndina verulega.
Einnig er bent á að hækkun veiðigjalda geti kallað á hagræðingu og samþjöppun í sjávarútvegi með neikvæðum áhrifum á byggðaþróun og atvinnulíf. Þá er bent á skort á greiningu á jafnréttisáhrifum lagasetningarinnar, sérstaklega í ljósi þess að fjöldi kvenna, meðal annars af erlendum uppruna, starfar í fiskvinnslu.
Samtökin sjávarútvegssveitarfélaga leggja til að:
- Greining fari fram á áhrifum veiðigjaldahækkunar á einstök sveitarfélög og byggðarlög.
- Frítekjumörk verði skoðuð sérstaklega með hliðsjón af litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
- Hækkun veiðigjalda verði stigvaxandi, til að tryggja aðlögunargetu atvinnulífs og sveitarfélaga.