Auglýsing um breytingar á aðalskipulagi vegna nýtingar á jarðhita í Seljalandi

Mynd: Verkís.
Mynd: Verkís.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, samþykkti þann 6. mars 2025 að auglýsa tillögu að breytingum á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020, í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, vegna nýtingar á jarðhita í Seljalandshverfi, Skutulsfirði.

Skipulagstillagan er sett fram í greinargerð frá 25. febrúar 2025 með uppdrætti í mælikvarða 1:10.000 og er unnin af Verkís samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Umrætt svæði er nú skilgreint sem svæði fyrir íbúðarbyggð í gildandi aðalskipulagi. Leggja þarf hitaveitulagnir að kyndistöðvum til að koma heitu vatni til notenda. Gert er ráð fyrir að dælustöð rísi á Torfnesi og dæluhús við Skógarbraut. Einungis verður affallsvatn frá varmadælum við kyndistöðvar Orkubús Vestfjarða og fer það um 15 gráðu heitt í fráveitukerfi bæjarins.

Markmið aðalskipulagsbreytingarinnar eru að heimila nýtingu jarðhitavatns af jarðhitasvæðinu í Tungudal til húshitunar á Ísafirði, heimila stofnlagnir og dælustöð hitaveitu til að leiða jarðhitavatn frá uppsprettu í borholum innan svæðisins að kyndistöðvum Orkubús Vestfjarða á Tunguskeiði og við Mjósund, skapa aðstöðu fyrir vinnslu og dælingu jarðhitavatnsins við borholur í Seljalandshverfi, heimila frekari jarðhitaleit innan svæðisins, einnig tryggja að framkvæmdir valdi sem minnstum neikvæðum áhrifum á umhverfið og að vandað verði til umhverfisfrágangs.

Aðalskipulagstillagan á uppdrætti og greinargerð eru í birtingu á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar mál nr. 1387/2024, frá og með 28. maí 2025 til 14. júlí 2025.

Aðalskipulagstillagan er einnig aðgengileg á uppdrætti og greinargerð með forsendum breytinga ásamt umhverfismati, á bæjarskrifstofum og hér fyrir neðan.

Greinargerð og uppdráttur

Hægt er að skila athugasemdum við aðalskipulagstillögu, rafrænt um skipulagsgáttina eða beint til skipulagsfulltrúa Ísafjarðarbæjar: skipulag@isafjordur.is til og með 14. júlí 2025. Einnig er hægt að senda póst á sama netfang til að fá nánari upplýsingar og leiðbeiningar.

Skipulagsfulltrúi Ísafjarðarbæjar