Ársreikningur Ísafjarðarbæjar 2020

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar 2020 var samþykktur í síðari umræðu bæjarstjórnar þann 3. júní síðastliðinn.

Rekstrartekjur námu 5.043 m.kr. og voru það 51 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Álagningarhlutfall útsvars var 14,52%, sem er lögbundið hámark þess. Álagningarhlutfall fasteignaskatts í A-flokki var 0,625% en í B-flokki nam álagningarhlutfallið 1,32% sem er lögbundið hlutfall. Í C-flokki var álagningarhlutfallið 1,65%, sem einnig er lögbundið hámark með álagi. Íbúafjöldi í Ísafjarðarbæ var 3.794 þann fyrsta janúar 2021 og námu skatttekjur samtals ríflega 3.528 m.kr.

Ársreikningurinn sýnir rekstrarhalla upp á 608 m.kr. fyrir samantekinn rekstrarreikning A- og B-hluta. Fjárhagsáætlun fyrir sama tímabil gerði ráð fyrir rekstrarhalla upp á 379 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 564 m.kr.

Rekstrargjöld voru 84 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld voru 58,6 m.kr. hærri í kostnaði en áætlun gerði ráð fyrir og söluhagnaður (tap) eigna var 129 m.kr. hærra í kostnað en áætlað var. Rekstrarniðurstaðan er því 228,7 m.kr. neikvæðari en áætlun gerði ráð fyrir. Má rekja það að mestu til tveggja liða; annars vegar breytingar á lífeyris- og orlofsskuldbindingu sem var 136 m.kr. hærri en áætlað var og síðan vegna sölutaps á íbúðum í Sindragötu sem nam 108 m.kr. og ekki var áætlað fyrir. Söluhagnaður vegna íbúða fasteigna Ísafjarðarbæjar var jafnframt áætlaður 40 m.kr. en varð 18 m.kr. 

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2020 nam 1.460 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A- og B-hluta en eigið fé A-hluta var jákvætt um 807 m.kr. Eiginfjárhlutfallið var 14,7% af heildarfjármagni en var 19,3% árið áður.

Laun og launatengd gjöld voru ríflega 2.928 m.kr. en í áætlun með viðaukum var gert ráð fyrir ríflega 2.881 m.kr. Heildarfjöldi starfsfólks Ísafjarðarbæjar í árslok 2020 var 324.

Fjárfestingar

Fjárfest var fyrir rúmar 398 m.kr. í A- og B-hluta á árinu 2020 en áætlaðar fjárfestingar voru 486 m.kr. Umsvifamestu fjárfestingarnar sneru að skólahúsnæði (tæplega 121,5 m.kr.) og hafnarframkvæmdum (115 m.kr.).

Covid-19

Áhrif heimsfaraldurs Covid-19 á rekstur sveitarfélagsins fólust meðal annars í verulegri lækkun tekna hafnasjóðs, endurgreiðslu á þjónustugjöldum vegna skerðingar á þjónustu, frestun innheimtu fasteignagjalda (í einhverjum tilvikum) og annarra tekna. Auk þess var aukning á útgjöldum á ýmsum sviðum. Fjallað er nánar um áhrif faraldursins á rekstur sveitarfélagsins á árinu 2020 í skýringu 23 í ársreikningi. Ljóst er að áhrifa faraldursins mun gæta inn á árið 2021 og mögulega til næstu ára en það er mat stjórnenda að greiðsluhæfi sveitarfélagsins sé óskert. 

Snjóflóð

Í janúar 2020 féll snjóflóð á Flateyri sem olli talsverðum skemmdum á eignum og innviðum sveitarfélagsins. Ísafjarðarbær fékk fékk greiddar bætur að fjárhæð 25 m.kr. til að standa straum af ýmsum kostnaði sem það varð fyrir og eru þær færðar meðal óreglulegra liða í rekstrarreikningi.

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar 2020

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar 2020 – sundurliðun