Ársreikningur Ísafjarðarbæjar 2018

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar var samþykktur í síðari umræðu bæjarstjórnar þann 2. maí síðastliðinn. Rekstrarafgangur Ísafjarðarbæjar nam 44 millj. kr. árið 2018 en gert hafði verið ráð fyrir 29 millj. kr. afgangi í fjárhagsáætlun. Niðurstaðan var í meginatriðum eins og fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og afskriftir var 489 millj. kr. samanborið við 335 millj. kr. árið áður en áætlunin 2018 hafði gert ráð fyrir 504 millj. kr.

Rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs var neikvæð um 14,2 millj. kr. en gert hafði verið ráð fyrir halla upp á 25,6 millj. kr.

Tekjur sveitarfélagsins námu 4.919 millj. kr. en gert hafði verið ráð fyrir 4.996 millj. kr.  Laun og launatengd gjöld voru alls 2.517 millj. kr.  sem er um 5,5 millj. kr. yfir því sem áætlað var. Heildarfjöldi starfsmanna hjá sveitarfélaginu í árslok 2018 var 438 en meðalfjöldi stöðugilda 315. Launþegar á árinu voru í allt 706.

Heildar skuldir og skuldbindingar í ársreikningi 2018 voru 7,5 milljarðar króna og þar af eru vaxtaberandi skuldir 5 milljarðar króna. Skuldahlutfall sveitarfélagsins var 152,32% í árslok 2018 og hækkar úr 145,15% frá árslokum 2017. Þá hækkun má rekja til samkomulags um 562,8 millj. kr. framlag til Brúar lífeyrissjóðs sem fjármagnað var með láni frá Lánasjóði sveitarfélaga. Ef ekki hefði komið til þess þá hefði skuldahlutfallið lækkað á milli ára og verið um 141%. Skuldaviðmiðið var 100,05% í árslok samkvæmt reglum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga en það var 114,26% árið áður. Ástæður lækkunar skuldaviðmiðsins má rekja til breyttra reglna við útreikning þess en með sambærilegum útreikningum árið áður var skuldaviðmiðið 100,92%.

Veltufé frá rekstri var 514 millj. kr. en áætlanir höfðu gert ráð fyrir 463 millj. kr. Veltufé frá rekstri sýnir hvað rekstur gefur af sér til að standa undir framkvæmdum og afborgunum lána.

Veltufjárhlutfallið var 0,88 í árslok 2018 en var 0,67 árið áður. Bókfært eigið fé nam 1.488 millj. kr. í árslok en var 1.354 millj. kr.  í árslok árið áður. Eiginfjárhlutfallið var 16,56% af heildarfjármagni en var 17,11% árið áður.

Íbúar Ísafjarðarbæjar þann 1. janúar 2019 voru 3.800 og fjölgaði þeim um 93 frá fyrra ári eða um 2,5%. Skatttekjur sveitarfélagsins voru 866 þús. kr. á hvern íbúa en tekjur samtals 1.295 þús. kr. á hvern íbúa.

 

Fjárfestingar

Fjárfest var fyrir 575 millj. kr. á árinu 2018 en áætlaðar fjárfestingar voru 730 millj. kr. Helsta skýring frávika frá áætlun er sú að inni í fjárfestingum er ekki 100 millj. kr. fjárfesting á árinu vegna Sindragötu 4a þar sem áætlað er að selja allar íbúðirnar á árinu 2019 og þær því flokkaðar meðal veltufjármuna. Fjárfestingar sveitarsjóðs námu 520 millj. kr. og fjárfestingar B-hluta stofnana námu 55 millj. kr.

Mikil umsvif voru við gatnagerð og stíga á árinu þar sem malbikunarstöð kom vestur og var fjárfest fyrir 275 millj. kr. Götur sveitarfélagsins voru malbikaðar fyrir 100 millj. kr., þar af 55 millj. kr. á Ísafirði og 45 millj. kr. á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri. Stærsta einstaka framkvæmdin á árinu var hellulögn Tangagötu frá Þvergötu að Austurvegi sem nam 70,5 millj. kr. Nýjar götur; Akurtunga og Æðartangi voru gerðar fyrir um 66 millj. kr. á árinu og nýr göngustígur var lagður meðfram grjótgarðinum í Fjarðarstræti fyrir 33 millj. kr. sem hefur vakið mikla ánægju meðal íbúa og notkun hans farið fram úr öllum spám.

Til viðbótar við gatnagerð og stíga voru settar 107 millj. kr. í skólamannvirki á árinu. Þar má helst nefna hönnun á viðbyggingu við Eyrarskjól sem verður til þess að skólinn getur tekið við fleiri börnum og bætir starfsmannaðstöðu til muna. Gerðar voru breytingar innanhúss í Grunnskólanum á Ísafirði til að koma fyrir starfsemi Dægradvalar sem nú getur tekið við öllum börnum 1. til 3. bekkja. Skólalóðir Grunnskólanna á Ísafirði og Flateyri voru endurnýjaðar á árinu.

Miklar framkvæmdir voru í snjóflóðavörnum á árinu og var hlutur sveitarfélagsins um 54,6 millj. kr.  Framkvæmdir í Kubba fóru á fullt og nam kostnaðurinn alls 573 millj. kr., en Ofanflóðasjóður greiðir 90% af honum.

Fjárfesting í íþróttamannvirkjum nam um 35 millj. kr. og tækjakaup eignasjóðs námu um 18,3 millj. kr. Meðal annars var keyptur skólabíll á Þingeyri fyrir 5,7 millj. kr. og björgunarbúnaður fyrir slökkviliðið fyrir 6,5 millj. kr. Nýja þjónustuhúsið á tjaldsvæðinu á Þingeyri var klárað fyrir um 9,6 millj. kr., hverfisráðin fengu úthlutað 11,1 millj. kr. og uppbyggingasamningar voru framkvæmdir fyrir 8 millj. kr.

Ársreikninginn má nálgast með því að smella hér.