Almannavarnarnefnd og aðgerðarstjórn Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps í nýtt húsnæði

Ísafjarðarbær hefur samþykkt að taka á leigu nýtt rými fyrir almannavarnarnefnd og aðgerðarstjórn í húsnæði Björgunarfélags Ísafjarðar að Sindragötu 6.

Um er að ræða mikilvægt framfaraskref fyrir almannavarnarnefnd og aðgerðarstjórn vegna samlegðaráhrifa og samnýtingar á búnaði við aðra viðbragðsaðila. Rýmið er staðsett við hliðina á svæðisstjórn björgunarsveitanna. Það er mjög mikilvægt fyrir samhæfingu í héraði að vera með góðri aðstöðu í samfélagi við aðra viðbragðsaðila.

Í kjölfar snjóflóðanna á Flateyri og Súgandafirði í janúar 2020, kom almannavarnarnefnd saman og hélt rýnifundi um flóðin, þar sem verkferlar og samskipti voru yfirfarin, t.a.m. boðleiðir m.t.t. samgangna og samskipta bæði á landi og á sjó. Á þeim rýnifundum var farið yfir aðstöðuna sem uppfyllir ekki kröfur samtímans m.t.t. salerna, hvíldaraðstöðu og almennra æfinga.