Aldrei fór ég suður er tónlistarviðburður ársins

Ísfirska tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður var í gærkvöldi valin „tónlistarviðburður ársins“ á Íslensku tónlistarverðlaunum sem afhent voru í Hörpu. Á móti verðlaunum tóku Örn Elías Guðmundsson, Kristján Freyr Halldórsson, Birna Jónasdóttir, Pétur Magnússon og Eygló Jónsdóttir.

Hátíðin var fyrst haldin fyrir 15 árum og hefur allt frá fæðingu verið óskabarn Ísfirðinga og nærsveitarmanna. Eins og allir vita þá þarf heilt þorp til að ala upp barn og það á svo sannarlega við í þessu tilfelli. Þó forráðamenn séu frekar fáir þá eru þeir fjölmargir sem leggja hönd á plóg ár eftir ár og er hátíðin orðin órjúfanlegur hluti af samfélaginu.

Ísafjarðarbær óskar aðstandendum hátíðarinnar og velunnurum öllum hjartanlega til hamingju með þessa miklu viðurkenningu. Það starf sem unnið hefur verið á síðustu fimmtán árum verður seint fullþakkað.