Akstursstyrkir vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að greiða foreldrum barna og unglinga á grunnskólaaldri sem eiga lögheimili í Dýrafirði, Súgandafirði og Önundarfirði og taka þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi í Ísafjarðarbæ akstursstyrk. Aðeins er veittur einn styrkur á hvert heimili á ári óháð fjölda barna. Ekki er greiddur út styrkur til barna og unglinga sem eiga lögheimili í Skutulsfirði þar sem frístundarúta milli Skutulsfjarðar og Bolungarvíkur þjónar þeim.

Upphæð styrks fyrir heimili er 30.000 kr. á ári. Styrkir eru greiddir út einu sinni á ári, í desember, að undangenginni auglýsingu frá Ísafjarðarbæ og tilkynningu HSV til aðildarfélaga.

Til að eiga rétt á styrk þarf að framvísa tveimur eða fleiri af neðangreindum gögnum á skrifstofu Ísafjarðarbæjar eða í gegnum tölvupóstfangið info@isafjordur.is ásamt upplýsingum um foreldri sem tekur við greiðslu:

· Staðfesting frá íþróttafélagi og/eða deild um að viðkomandi hafi stundað a.m.k. 12 æfingar yfir árið.

· Staðfesting frá tónlistarkennara barns um ástundun.

· Staðfesting starfsmanns félagsmiðstöðva á að barn/unglingur hafi sótt miðstöðina a.m.k. 12 sinnum yfir árið.

· Staðfesting umsjónarmanns björgunarsveitarstarfs að barn/unglingur hafi stundað skipulagt starf með unglingastarfi björgunarsveitar a.m.k. 12 skipti yfir árið.

· Kvittun fyrir æfingargjöldum tónlistarskóla.

· Kvittun fyrir æfingargjöldum íþróttafélags.

Síðasti dagur til að skila umsókn um styrk fyrir árið 2019 er 20. nóvember. Styrkir verða greiddir út 5. desember.