Áhrif kvennaverkfalls á þjónustu Ísafjarðarbæjar

Boðað er til kvennaverkfalls þriðjudaginn 24. október undir yfirskriftinni Kallarðu þetta jafnrétti?

Á fjórða tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og launafólks standa að verkfallinu og munu konur og kvár þá leggja niður störf sé þess nokkur kostur. Ísafjarðarbær styður jafnréttisbaráttu kvenna og kynsegin fólks og leitað er allra leiða til að konur og kvár geti lagt niður störf og tekið þátt í skipulagðri dagskrá á Ísafirði. Þjónusta sveitarfélagsins verður því töluvert skert þennan dag. 

  • Allir skólar, leikskólar og dægradvöl verða lokuð á þriðjudaginn. 
  • Dagdeild á Hlíf verður lokuð.
  • Sundlaug og íþróttahús á Flateyri verða lokuð.

Ekki verður litið á fjarvistir kvenna og kvár vegna þátttöku í skipulagðri dagskrá sem óréttmætar né verður dregið af launum vegna þeirra. Hluti af þjónustu og starfsemi sveitarfélagsins er þó með þeim hætti að ekki er með nokkru móti hægt að leggja hana alfarið niður, til að tryggja að velferð, öryggi og heilsu fólks sé ekki stefnt í hættu.