Aðgengisdagur Sjálfsbjargar á laugardaginn

Mynd: www.sjalfsbjorg.is
Mynd: www.sjalfsbjorg.is

Sjálfsbjörg landsamband hreyfihamlaðra heldur aðgengisdaginn hátíðlegan í fyrsta sinn næstkomandi laugardag, þann 27. ágúst, með hópgöngu sem hefst kl. 14.

Hafsteinn Vilhjálmsson, formaður Sjálfsbjargar á Ísafirði segir í samtali við BB: „Við hér í Sjálfsbjörgu á Ísafirði ætlum að standa okkur og boða til hópgöngu frá bílastæði Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og ganga áleiðis að Suðurtanga. Í gönguna hvetjum við bæði fatlaða og aðra hreyfihamlaða að mæta, í hjólastólum, rafskutlum, göngugrindum sem öðrum hjálpartækjum og á tveimur jafnfljótum. Í göngunni ætlum við að skoða aðgengið á þessari leið.“

Öllum sem vilja er einnig frjálst að taka þátt í deginum með því að skrá inn upplýsingar um aðgengi að verslunum, kaffihúsum, veitingastöðum, söfnum, kirkjum, íþróttamannvirkjum og annarri þjónustu með því að:

1. Hlaða niður TravAble appinu í símann
2. Fá sér göngutúr í nærumhverfi einhvern tímann á laugardeginum
3. Kíkja á hina ýmsu staði og fylla inn upplýsingar um aðgengi í TravAble aðgengisupplýsinga-appið


Þátttakendur eru hvattir til að taka myndir og senda á info@sjalfsbjorg.is eða birta sjálfir myndir á samfélagsmiðlum og merkja myndina #aðgengisdagur2022