Aðalskipulag: Vinnslutillaga vegna Mjólkárlínu 2 til kynningar

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar birtir til kynningar vinnslutillögu breytinga á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 skv. 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga 123/2010. Tillagan felur í sér breytingu á greinargerð og uppdrætti.

Aðalskipulagsbreyting þessi tekur til Mjólkárlínu 2 milli Mjólkárvirkjunar og Bíldudals og helgunarsvæðis hennar, þ.e. þess hluta hennar sem liggur innan marka Ísafjarðarbæjar. Um er að ræða lagningu nýs 16 km langs 66 kV jarðstreng frá Mjólká að Hrafnseyri og þaðan með sæstreng yfir Arnarfjörð í átt að Bíldudal. Jarðstrengurinn liggur að mestu leyti samhliða þjóðvegum, þ.e. Vestfjarðavegi nr. 60 frá Mjólká og þaðan að Hrafnseyrarvegi nr. 626 og meðfram Hrafnseyrarvegi að Hrafnseyri.

Meginmarkmið framkvæmdarinnar er að tryggja áreiðanleika raforkuafhendingar á sunnanverðum Vestfjörðum. Núverandi afhending Landsnets á orku til Orkubús Vestfjarða á svæðinu er annars vegar við Mjólká og hins vegar við Keldeyri við Tálknafjörð en þangað er orka leidd um Tálknafjarðarlínu frá Mjólká. Orka er svo flutt frá Tálknafirði um Bíldudalslínu að Bíldudal en sú lína hefur verið spennuhækkuð í 66 kV. Með lagningu jarð- og sæstrengs frá Mjólkárvirkjun að Bíldudal kemst á hringtenging á milli Mjólkár, Bíldudals og Tálknafjarðar.

Greinargerð og uppdráttur liggja til kynningar á skrifstofum umhverfis- og eignasviðs til 3. nóvember 2022. Gögnin eru einnig hér að neðan.

Fyrir frekari upplýsingar sendið póst á netfangið skipulag@isafjordur.is eða bréfleiðis á Ísafjarðarbæ, Hafnarstræti 1, 400 Ísafirði.

Greinargerð og umhverfismatsskýrsla – vinnslutillaga

Uppdráttur