Umhverfis- og framkvæmdanefnd

Fundargerðir hverfisráða Ísafjarðarbæjar, auk fundargerða fastanefnda, starfshópa og annarra nefnda sveitarfélagsins af fundum sem haldnir voru til og með ársins 2017 má finna undir aðrar fundargerðir
160. fundur 18. september 2025 kl. 08:30 - 10:36 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Valur Richter varaformaður
  • Þóra Marý Arnórsdóttir aðalmaður
  • Þorvaldur Óli Ragnarsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Axel Rodriguez Överby sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs
  • Erla Margrét Gunnarsdóttir Skipulags- og umhverfisfulltrúi
Fundargerð ritaði: Erla Margrét Gunnarsdóttir skipulags- og umhverfisfulltrúi
Dagskrá
Bryndís Ósk Jónsdóttir, Védís Geirsdóttir og Edda María Hagalín mættu á fund kl. 8:30

1.Samþykkt um hundahald og kattahald - 2025 - 2025070013

Núgildandi samþykktir um hundahald og kattahald eru frá 2013. Rætt hefur verið um hjá núverandi bæjarstjórn og fyrrum bæjarstjórn að þær þarfnist uppfærslu. Í megindráttum er hægt að velja um tvær leiðir varðandi hunda- og kattahald, þ.e. sú leið sem í gildi er núna að bæði hundar og kettir séu leyfisskyldir hjá sveitarfélaginu. Heppilegast væri þá að steypa samþykkt um hunda- og kattahald saman í eina samþykkt. Hin leiðin er að hafa leyfisskyldu á hundahaldi, en sinna ekki leyfis- eða skráningarskyldu á köttum. Samþykkt um kattahald myndi þá taka á öðrum skyldum kattaeigenda, s.s. örmerkjaskráningu, dýravelferð, viðurlögum við brotum o.þ.h.

Er því lagt fram minnisblað Bryndísar Óskar Jónsdóttur, sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs, dags. 10. júlí 2025, auk uppfærða samþykkta um hunda- og kattahald annars vegar og samþykkt um hundahald og samþykkt um kattahald hins vegar, en lagt er til við nefndina að taka afstöðu til þess hvora leiðina nefndin vill fara.
Umhverfis- og framkvæmdanefnd vísar til samþykktar bæjarstjórnar nýjum samþykktum um hundahald annarsvegar og kattahald hins vegar þar sem skráningarskylda katta er afnumin.

2.Samþykkt um búfjárhald - 2025 - 2025070010

Núgildandi samþykkt um búfjárhald er frá 2016. Rætt hefur verið um hjá núverandi bæjarstjórn og fyrrum bæjarstjórn að uppfæra þurfi samþykktina. Á árinu 2020 bókaði umhverfis- og framkvæmdanefnd að starfsmanni væri falið að breyta samþykkt um búfjárhald vegna reglna um fiðurfé. Þá var umræða í nefndinni í maí 2021 um breytingar á samþykktinni, en ekki var unnið frekar með málið.

Lögð fram ný samþykkt um búfjárhald 2025 ásamt minnisblaði frá Bryndísi Ósk Jónsdóttur, sviðstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs, dags. 2. júlí 2025.
Umhverfis- og framkvæmdanefnd vísar til samþykktar bæjarstjórnar nýjum samþykktum um búfjárhald.

3.Gjaldskrár 2026 - 2025050026

Á 159. fundi umhverfis- og framkvæmdanefndar fór fram fyrri umræða um gjaldskrár sem heyra undir nefndina. Um er að ræða gjaldskrár fyrir eftirfarandi málaflokka, áhaldahús, dýrahald, fráveitugjöld, Skrúð, sorp, tjaldsvæði og vatnsveitu.

Nú eru gjaldskrár sem heyra undir nefndina, dýrahald, Skrúð, tjaldsvæði og áhaldahús lagðar fyrir að nýju til síðari umræðu með breytingum fyrir starfsárið 2026, tekið er mið af áætlaðri hækkun vísitölu neysluverðs og launavísitölu.

Gjaldskrár sorps, fráveitu og vatnsveitu verðar lagðar fyrir á fundi nr. 161
Umhverfis- og framkvæmdanefnd leggur til við bæjarstjórn að samþykkja gjaldskrár um dýrahald, skrúð, tjaldsvæði og áhaldahús með þeim breytingum sem lagðar eru til.
Edda yfirgaf fund kl 9:10. Védís yfirgaf fund kl. 9:35 og Bryndís Ósk yfirgaf fund kl 09:00

4.Framkvæmdaáætlun 2026 til 2036 - 2025050028

Lögð fram drög að framkvæmdaáætlun verkefna umhverfis- og framkvæmdanefndar fyrir árin 2026-2036 til umræðu innan nefndar.
Drög að framkvæmdaáætlun kynnt fyrir nefnd. Umhverfis- og framkvæmdanefnd óskar eftir grófu kostnaðarmati á þverun vatnslagnar yfir pollinn ásamt styrk- og veikleikagreiningu. Nefndin hefði viljað sjá gatnagerð á Suðurtanga hefjast fyrr.

5.Viðhaldsáætlun 2026 - 2025050029

Lögð fram viðhaldsáætlun verkefna umhverfis- og framkvæmdanefndar fyrir árið 2026 til umræðu innan nefndar.
Viðhaldsáætlun verkefna umhverfis- og framkvæmdanefndar fyrir árið 2026 kynnt og verður tekin fyrir á næsta fundi til samþykktar.
Smári Karlsson kom á fund kl. 10:01

6.Sorphirða og -förgun - útboð 2025 - 2024100021

Lagt fram minnisblað Eyþórs Guðmundssonar deildarstjóra og Smára Karlssonar verkefnastjóra, dags. 3. september 2025 um valkostagreiningu á rekstri jarðgerðarstöðvar í Ísafjarðarbæ. Einnig lagt fram minnisblað Eyþórs Guðmundssonar deildarstjóra og Smára Karlssonar verkefnastjóra, dags. 14. september 2025 um útboð á sorphirðu í sveitarfélaginu. Óskað er eftir því að umhverfis- og framkvæmdanefnd taki afstöðu til þeirra atriða sem reifuð eru í minnisblöðunum.
Umhverfis- og framkvæmdanefnd leggur til að sveitarfélagið fjárfesti í moltustöð og komi sér upp húsnæði og sjái sjálft um daglegan rekstur. Gera þarf ráð fyrir fjárfestingu í framkvæmdaáætlun.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd leggur til að bæjarstjórn veiti umhverfis- og eignasviði heimild til að auglýsa útboð á sorphirðu og förgun í Ísafjarðarbæ á grundvelli framangreindra útboðsdraga og óbreytts fyrirkomulags þjónustunnar.

7.Fíflholt - endurnýjun á samningi - 2025080135

Sorpurðun Vesturlands (SV) er hlutafélag í eigu sveitarfélaga á Vesturlandi, stofnað í þeim tilgangi að reka urðunarstað fyrir blandaðan úrgang frá sveitarfélögum á Vesturlandi. Árið 2011 var samþykkt að taka einnig við úrgangi frá sveitarfélögum á Vestfjörðum, í kjölfar þess að sorpbrennslustöð Funa á Ísafirði var lokað árið 2010.

Lagður fram endurnýjaður samningur milli SV og Ísafjarðarbæjar.
Umhverfis- og framkvæmdanefnd leggur til við bæjarstjórn að fela bæjarstjóra að undirrita samning.
Smári Karlsson yfirgaf fund kl. 10:32

8.Gangbraut í Hrannargötu á Ísafirði - 2025090093

Lagður fram tölvupóstur dags. 10. september 2025, frá Anítu B. Pálínudóttur hjá Vegagerðinni, varðandi bætt öryggi við gangbraut í Hrannargötu á Ísafirði. Jafnframt er lögð fram tillaga á uppdrætti, dags. í september 2025.
Umhverfis- og framkvæmdanefnd tekur jákvætt í erindið og vísar málinu áfram til skipulags- og mannvirkjanefndar.

9.Ársskýrsla Náttúrufræðistofnunar - 2024 - 2025080109

Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá starfsfólki Náttúrufræðistofnunar þar sem ársskýrsla stofnunarinnar fyrir árið 2024 er kynnt, dags. 15. ágúst 2025. Í skýrslunni er farið yfir helstu verkefni ársins, sameiningarferlið og framtíðarsýn nýrrar stofnunar.

Þetta er fyrsta ársskýrsla sameinaðrar stofnunar og jafnframt síðasta ársskýrsla Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn.
Lagt fram til kynningar.

10.Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum á Íslandi - 2025090046

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 155/2025: Drög að aðgerðalista aðlögunaráætlunar vegna áhrifa loftslagsbreytinga á Íslandi. Umsagnarfrestur er til og með 30. september 2025.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 10:36.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?