Skipulags- og mannvirkjanefnd

581. fundur 06. apríl 2022 kl. 08:15 - 11:20 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Ragnar Ingi Kristjánsson varamaður
  • Þóra Marý Arnórsdóttir formaður
  • Gautur Ívar Halldórsson varamaður
  • Jóna Símonía Bjarnadóttir aðalmaður
  • Björgvin Hilmarsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Axel Rodriguez Överby sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs
  • Helga Þuríður Magnúsdóttir verkefnastjóri
  • Smári Karlsson verkefnastjóri
Fundargerð ritaði: Helga Þuríður Magnúsdóttir verkefnastjóri
Dagskrá

1.Grjótvörn og uppfylling til norðurs frá Norðurtanga í Skutulsfirði - Aðalskipulagsbreyting - 2020110080

Lögð fram valkostagreining unnin af Verkís ehf. í mars 2022 vegna landfyllinga og íbúðarsvæða í Skutulsfirði. Gunnar Páll Eydal, ráðgjafi mætir til fjarfundar til að ræða greiningarvinnuna. Lagðir fram fjórir valkostir af hálfu Verkís í samræmi við umsögn Skipulagsstofnunar dags. 22. október 2021, þar sem valkostagreining snýr að uppfyllingum við Pollgötu, Mávagarð, Suðurtanga og norðan Eyrar. Miðað við þær forsendur er aðeins einn valkostur sem kemur til greina vegna tímaramma verkefnis en hins vegar ber að skoða alla valkosti með framtíðarsýn í huga.
Björgvin Hilmarsson fulltrúi Í-listans leggur fram eftirfarandi bókun:

„Í upphafi(valkostagreiningarinnar) er tekið fram að sterk viðbrögð hafi komið frá almenningi.

Svo er tiltekið hvað fram kom í umsögn Skipulagsstofnunar (geri ráð fyrir að þar sé átt við umsögn stofnunarinnar við landfyllingu norðan Eyrar) og þar er af nægu að taka.

M.a. bendir Skipulagsstofnun ítrekað á að fyrir þurfi að liggja hvaða valkostir koma til greina, að vegna umfangs framkvæmdarinnar þurfi samráð við íbúa að vera víðtækt á öllum stigum sem hefur alls ekki verið. Hún metur það svo að jafnvel ætti að halda samkeppni um skipulagshönnun svæðisins vegna mikilvægis og umfangs. Það er aldeilis eitthvað annar tónn en sá að gera allt í óðagoti bara vegna þess að efni er skyndilega í boði.

Í stuttu máli þá má skilja á valkostagreiningunni að af þeim fjórum valkostum sem metnir eru þá er sá sem kemur best út landfylling við Pollgötu en sá sísti er landfylling norðan Eyrar (sjá greiningartöflur um fýsileika og áhrif).

1. Pollur:

9 plúsar
5 mínusar
= 4
2. Mávagarður:

4 plúsar
4 mínusar
= 0
3. Suðurtangi:

6 plúsar
5 mínusar
= -1
4. Norðan Eyrar:
5 plúsar
6 mínusar.
= -1

Í greiningunni segir að næg íbúðarsvæði séu til staðar án landfyllingar, að framboð af íbúðarsvæðum sé umfram þörf miðað við vænta fólksfjölgun á skipulagstímabilinu!

Einnig bent á að landfyllingar séu dýrar, standi lágt og hafi umhverfisáhrif. Þær séu heldur ekki útilokaðar síðar.“

Skipulags- og mannvirkjanefnd frestar afgreiðslu málsins.
Gunnar Páll Eydal yfirgaf fundinn klukkan 8:55.
Ragnar Ingi Kristjánsson yfirgaf fundinn klukkan 9:25.

2.Ósk um óverulega breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar vegna jarðhitanýtingar við Laugar í - 2022030080

Lagður fram uppdráttur ásamt greinargerð dags. 31. mars 2022, unnið af Verkís ehf. með tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 vegna borholusvæðis í landi Lauga í Súgandafirði og byggingar dæluhúss Orkubús Vestfjarða ohf. í landi Ísafjarðarbæjar, að landnotkun breytist úr landbúnaðarsvæði í iðnaðarsvæði. Áform Orkubús Vestfjarða hafa verið kynnt fyrir landeiganda Lauga.
Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila málsmeðferð í samræmi við 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga 123/2010.

3.Dynjandisheiði - Breyting á aðalskipulagi vegna veglagningar - 2021030106

Lagðar fram athugasemdir frá Guðmundi R. Björgvinssyni og Geir Sigurðssyni dags. 29. mars 2022, þar sem þeir mæla með veglínu D skv. tillögu á breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 vegna áforma um vegbætur á Dynjandisheiði sem var auglýst skv. 2. mgr 30. gr. skipulagslaga 123/2010 og var frestur til að skila inn athugasemdum til 5. apríl 2022.
Skipulags- og mannvirkjanefnd tekur undir athugasemdir frá Guðmundi R. Björgvinssyni og Geir Sigurðssyni dags. 29. mars 2022, þar sem þeir mæla með veglínu D.

4.Frumvörp og þingsályktunartillögur til umsagnar 2022 - 2022010031

Kynntur tölvupóstur Sigrúnar Helgu Sigurjónsdóttur f.h. nefndasviðs Alþingis, dagsettur 10. mars 2022, þar sem Ísafjarðarbæ er sent til umsagnar frumvarp til laga um eignarráð og nýtingu fasteigna (óskipt sameign, landamerki o.fl.), 16. mál. Umsagnarfrestur var til 24. mars 2022.
Lagt fram.

5.Sjókvíaeldi Arctic Sea Farm í Dýrafirði - 10.000 tonn - 2017080006

Lögð fram ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu fyrirhugaðrar notkunar ásætuvarna í fiskeldi Arctic Sea Farm í Dýrafirði, Ísafjarðarbæ, samkvæmt 19. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka laganna. Niðurstaða Skipulagsstofnunar er að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Kærufrestur er til 2. maí 2022.
Skipulags- og mannvirkjanefnd gerir ekki athugasemd við fyrirhugaða notkun ásætuvarna í fiskeldi Arctic Sea Farm, en minnir á að eftirlit sé fullnægjandi.

6.Hábrún ehf - fiskeldi í Ísafjarðardjúpi - 2017050072

Hábrún ehf. hefur sent Skipulagsstofnun meðfylgjandi matsáætlun um ofangreinda framkvæmd, móttekin 23. mars 2022, skv. 21. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

Óskað er eftir að Ísafjarðarbær gefi umsögn um meðfylgjandi matsáætlun ofangreindrar framkvæmdar skv. 21. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 og 12. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Í umsögninni þarf eftir því sem við á að koma fram hvort umsagnaraðili hafi athugasemdir við það hvernig framkvæmdaraðili hyggst vinna að umhverfismati framkvæmdarinnar, út frá sínu starfssviði, svo sem um skilgreiningu valkosta, gagnaöflun, úrvinnslu gagna, umhverfismat og framsetningu umhverfismatsskýrslu. Einnig, ef á skortir, hvaða atriðum umsagnaraðili telur að gera þurfi frekari skil eða hafa sérstaklega í huga við umhverfismat framkvæmdarinnar. Leyfisveitendur skulu í umsögn sinni gera grein fyrir þeim leyfum sem eru á starfssviði þeirra og framkvæmdin er háð.

Umsögnin óskast send Skipulagsstofnun fyrir 26. apríl 2022.
Frestað.

7.Öldugata 1b og 1, ósk um sameiningu lóða - 2021080073

Lögð fram ósk þinglýstra eigenda Öldugötu 1b, Flateyri L141223 um endurnýjun á lóðarleigusamningi fyrir fasteignina fnr. 212-6592, dags. 25. mars 2022.
Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn á að heimila útgáfu lóðarleigusamnings undir Öldugötu 1b, í samræmi við deiliskipulag Flateyrar.

8.Æðartangi 6, Ísafirði. Umsókn um byggingarlóð undir atvinnuhúsnæði á Suðurtanga - 2022020036

Lögð fram umsókn um byggingarlóð við Æðartanga 6, Ísafirði, frá Magnúsi Jónssyni, f.h. Gömlu spýtunnar ehf. undir atvinnuhús, dags. 4. febrúar 2022 ásamt mæliblaði Tæknideildar frá 28. ágúst 2020.
Frestað.

9.Æðartangi 8-10 -ósk um breytingu á deiliskipulagi - 2022030158

Lögð fram tillaga að óverulegri breytingu á deiliskipulagi Suðurtanga, unnin af Verkís ehf. 21. mars 2022, skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga f.h. Vestfirskra verktaka ehf. vegna sameiningu lóða við Æðartanga 8-10.
Frestað.

10.Góustaðir við Sunnuholt - Fyrirspurn um byggingarleyfi - 2019100003

Lagðar fram athugasemdir sem bárust eftir grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44 gr. skipulagslaga 123/2010, vegna áforma Gauta Geirssonar í landi Góustaða, Ísafirði um byggingu íbúðarhúss á nýrri lóð „Sunnuholt 5.“
Skipulags- og mannvirkjanefnd tekur undir athugasemdir og leggur til við umsækjanda að breyting verði gerð á þann veg að mannvirki fylgi götulínu.

11.Selakirkjuból 2-4, Breiðadal Neðri 4 og Breiðadal 2 -Innsta Bæ. Skipulagslýsing fyrir 9 ný sumarhús - 2021100018

12.Hreggnasasvæði og Hólsá Bolungarvík - deiliskipulag - 2022030123

Lagt fram bréf Finnboga Bjarnasonar, skipulags- og byggingarfulltrúa Bolungarvíkurkaupstaðar, dagsett 16. mars 2022, vegna vinnu við deiliskipulag fyrir íbúabyggð á Hreggnasasvæði og frístundabyggð við Hólsá í Bolungarvík. Skipulagslýsingu ásamt uppdráttum má nálgast á vefsíðu Bolungarvíkurkaupstaðar og frestur til athugasemda er til 19. apríl.
Skipulags- og mannvirkjanefnd gerir ekki athugasemd.

13.Ósk um leyfi til uppsetningar listaverks í Simsonsgarði í Tungudal - 2022030091

Lagður fram tölvupóstur Guðrúnar Veru Hjartardóttur, dagsettur 9. mars 2022, þar sem óskað er eftir leyfi til að setja upp tvö listaverk í Simsonsgarði í Tungudal. Listaverkin eru úr náttúrulegum efnum og raska ekki umhverfi garðsins og munu þau standa frá miðjum júní til ágústloka 2022.
Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkir erindið.

14.Ósk um leyfi til uppsetningar listaverks - 2022020078

Lagt fram erindi Sigríðar Dóru Jóhannsdóttur, dagsett 16. febrúar 2022, þar sem óskað er eftir leyfi til að setja upp listaverk í landi Búðar fyrir utan byggðina í Hnífsdal. Listaverkið er skúlptúr sem unninn verður úr jarðefni og salti og mun standa tímabundið u.þ.b. frá 1. júní til 27. ágúst 2022. Öll ummerki um listaverkið verða afmáð.
Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkir erindið.

15.Fundargerðir heilbrigðisnefndar og ýmis erindi 2022 - 2022020094

Lagður fram tölvupóstur frá Antoni Helgasyni hjá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða þar sem óskað er umsagnar sveitarfélagsins vegna starfsemi SAM ehf. sem eru með hjólbarðaverkstæði. Nýtt starfsleyfi er í vinnslu hjá Heilbrigðisnefnd Vestfjarða. Óskað er eftir staðfestingu á að þessi starfsemi sé í samræmi við samþykkta notkun fasteignar og gildandi deili- og aðalskipulag.

Sam ehf Skeiði 1, 400 Ísafjörður, F210911. Lítið hjólbarðaverkstæði. Húsnæðið hefur áður verið lager fyrir matvörur, byggingarvörur, og trésmíðaverkstæði og nú geymsla fyrir bíla og tæki. Ekki er gert ráð fyrir dekkjalager á staðnum né geymslu á ónýtum dekkjum.
Skipulags- og mannvirkjanefnd hafnar erindinu þar sem starfsemin samræmist ekki skipulagi og skráningu húsnæðis.

16.Stafrænt aðalskipuag, gagnalýsing og leiðbeiningar Skipulagsstofnunar - 2021120011

Lagður fram tölvupóstur Skipulagsstofnunar þar sem eru kynntar breytingar á skipulagslögum þar sem voru sett ákvæði í ný lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana sem gera ráð fyrir smíði og rekstri skipulagsgáttar, landfræðilegrar gagna- og samráðsgáttar um skipulag, umhverfismat og framkvæmdir. Skipulagsstofnun hefur það hlutverk að setja upp og annast rekstur gáttarinnar sem skal vera starfrækt frá 1. desember 2022.

Skipulagsgáttin er nýnæmi við skipulagsgerð, umhverfismat og framkvæmdaleyfisveitingar. Í gáttinni verða aðgengileg á einum stað skipulagstillögur, umhverfismat og framkvæmdaleyfi eftir því sem málum vindur fram í kynningu, afgreiðslu og lokasamþykkt. Þar munu einnig birtast umsagnir og athugasemdir, viðbrögð við þeim og endanlegar áætlanir, ákvarðanir, álit og leyfi til framkvæmda. Aðgangur að gáttinni skal vera opinn og án endurgjalds.

Vinna við undirbúning skipulagsgáttar hófst í byrjun árs 2022. Forhönnun gáttarinnar er nú í vinnslu og þar er lögð áhersla á samráð við helstu hagsmunaaðila og notendahópa.
Lagt fram.

Fundi slitið - kl. 11:20.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?