Stjórnarfundur 4. júní 2025
Fundargerð íbúasamtakanna Átaks Þingeyri 4. júní 2025
Mætt eru: Marsibil Kristjánsdóttir, Jóvina Sveinbjörnsdóttir, Karl Bjarnason og Guðrún Steinþórsdóttir.
Það sem tekið var fyrir á þessum fundi var meðal annars þetta:
Ný afstaðinn íbúafundur þann 26. maí sl. þar sem þjónustustefna Ísafjarðarbæjar var kynnt, var eitthvað misskilinn en íbúar töldu sig eðlilega vera mætta á íbúafund með bæjarstjóra og fleirum frá Ísafjarðarbæ þar sem þeir gætu vakið máls á þeim hlutum sem brenna á íbúum Þingeyrar og að hugsanlega yrði kynnt fyrir íbúum hvaða framkvæmdir stæðu fyrir dyrum nú í sumar. En það var því miður ekki, hér átti eingöngu að kynna þennan þjónustusamning og urðu það ákveðin vonbrigði því íbúum Þingeyrar finnst þeir ekki oft fá áheyrn hjá Ísafjarðarbæ og erfitt að ná þar inn. Erindi eru send inn og fá ekki afgreiðslu, engin svör, kom einnig fram, kanski eðlilegt að það myndist ákveðinn þreyta/pirringur.
Á fundinum hafði meðal annars komið til tals innsiglingar vitinn hér á Þingeyri en hann hefur verið ljóslaus í allan vetur, og merkilegt nokk að þá kannaðist enginn af sendinefnd Ísafjarðarbæjar við að hafa heyrt það, samt var búið að senda inn ábendingu um það í fundargerð Íbúasamtakanna í vetur, plús að formaður hringdi í hafnarstjóra og ræddi hættuna við að hafa vitann ljóslausan fyrir ókunna sjófarendur sem reikna eflaust með að þarna eigi að vera viti miðað við sjókort en svo eru enginn ljós!
Við sem sitjum í stjórn Íbúasamtakanna/ Hverfisráðs, spyrjum okkur eðlilega þeirrar spurningar hvort okkar frítíma sé ekki betur varið við eitthvað annað en að reyna að halda uppi merkjum Ísafjarðarbæjar / Þingeyrar þegar okkar ábendingar í gegnum fundargerðir eru miðað við þetta ekki lesnar ! Einnig erum við búin að missa mánaðarlegu fundina sem Hverfisráð átti með bæjarstjóra og bæjarritara. Hér verður eitthvað mikið að breytast ef einhver á að fást til að sitja í Hverfisráðum/Íbúasamtökum !
- Grenndargámar sem standa framan við björgunarsveitar húsið eru mikið notaðir en nokkuð skortir á góða umgengni, fólk fer inn í gámana að aftan og setur hluti í pokum í gámana en það á alls ekki að gera, plastpokar eiga ekki heima með málmum, gleri eða fatnaði. Sama á við um lífræna gáminn en þar er sett ýmislegt annað en lífrænt (byggingarefni t.d.), kom til tals á fundinum að setja þyrfti upp eftirlits myndavél og sjá hvort umgengnin myndi ekki lagast. Ef ekki verður breyting á umgengni við lífræna gáminn eigum við á hættu að missa hann.
- Það kom fram á íbúafundinum að til stendur að halda áfram með hreinsivirkið í Hafnarstrætinu og leggjum við í Hverfisráði það til að þetta verði gert í tvennu lagi frá frystihúsi upp að Blábanka, og fyrri áfanga lokað og gengið frá áður en byrjað yrði á seinni, og þetta vegna þess að nú er ferðamanna vertíðin byrjuð og mikið að gerast hjá Víkingaskálanum og Koltru en þarna koma fleiri fleiri rútur á dag/viku.
- Strætó bíllin hefur oft komið til tals, inn í grunnskóla hjá ungu kynslóðinni var þetta tekið upp á Íbúaþingi sem þau stóðu fyrir nú um daginn en þar kom fram að börnin hafa misst af rútunni á Ísafirði af því að hún hefur farið fyrir áætlunartíma. Í fyrradag þriðjud 3 júni kom engin morgun rúta en einn af okkar eldri borgurum ætlaði sér með henni yfir á Ísafjörð en engin rúta kom og var það tækni væddur vegfarandi sem gat upplýst eldri borgarann um að það kæmi ekki rúta því þeir hefðu ekki mannskap ! Þetta er nátturúlega ekki boðlegt ! Íbúar Þingeyrar vilja líka sjá betri þjónustu, t.d. að leyfilegt sé að fá far á Ísafjörð með síðustu rútunni en það er ekki í boði. Annað er að fólki skuli ekki vera gert kleyft að komast hér á milli fjarða um helgar og á t.d. hátíðum eins og Aldrei fór ég suður um Páskahelgina og aðrar uppákomur og skemmtanir, hvort fólk vill koma og heimsækja okkur eða öfugt.
- Varðandi auglýsta fundi hjá opinberum aðilum eins og Ísafjarðarbæ og þjóðkirkjunni teljum við að hér þurfi trúlega að gera breytingu á, því við getum ekki tekið það sem gefið að allir séu lengur á samfélagsmiðlum.
- Ítrekum og óskum eftir því að skipulag við Tankann verði klárað svo hægt verði að taka Tankann og svæðið í kring í notkun fyrir bæjarbúa og gesti Þingeyrar.
- Hraðahindranirnar inn í bæinn sem settar voru upp í fyrra, voru settar upp aftur án þess að við þyrftum að reka á eftir því og er það vel
- Sóparabíllinn kom loks, en vegna þess hve vorið var með eindæmum gott og við búin að hreinsa bæinn í lok apríl var okkur farið að lengja eftir sóparabílnum en hann mætti 20 mai ásamt holu viðgerðarmönnum og var þeim tekið fagnandi
- Það hefur lítið eða ekkert gerst eftir að heilbrigðiseftirlitið mætti og setti límmiða á nokkra bíla og báta hér í bæ. Bátur sem hallar hálfur út úr bátakerru hér mitt í bænum og við í Hverfisráði teljum hættulegan, stendur þar enn þó svo búið sé að tala við alla þá aðila sem hægt er, lögreglu, Ísafjarðarbæ, Heilbrigðiseftirlit ofl. Ekkert skeður, því miður og við sitjum uppi með þetta hræ !
- Olíu portið ( á skipulagi merkt sem grænt opið svæði) sem hreinsað var svo vel í fyrra er nú orðið fullt af báta kerrum. Nú verður Ísafjarðarbær að skipulegga hafnarsvæðið og útbúa svæðið almennilega fyrir smábáta eigendur, þannig að ákveðið pláss sé merkt bátum og bátakerrum þegar bátarnir eru á sjó á sumrin. Það er ekkert skipulag, bátar og kerrur um allan bæ og jafnvel bátar inn í görðum, hér verður að vera ákveðið skipulag svo menn viti hvar þeir geti geymt bátana sína yfir veturinn og kerrurnar á sumrin.
- Förum fram á það við Ísafjarðarbæ að hann fari fram á það við verktakann sem vann við hreinsikerfið á Oddanum í fyrra að laga umhverfið í kringum þessa mannvirkjagerð svo gestir og gangandi um fjöruna geti notið náttúrunnar á Oddanum en í dag lítur þetta út eins og byggingarsvæði sem hlaupið hefur verið frá í flýti.
- Hlíðargatan, efsta gatan í bænum telst ófær, annað hvort er að setja efni í götuna og laga eða loka götunni !
- Hvetjum Orkubú Vestfjarða til að fegra húsnæði sitt við Hafnarstræti en það er orðið frekar óhrjálegt á að líta.
- Ýtrekum enn og aftur ósk okkar og gildi þess að hafa bæjarstarfsmann búsettann hér á Þingeyri til að sjá um viðhald á byggingum/stofnunum hér í bæ og sjá um eftirlit með verktaka vinnu !
- Við fengum loks 4 nýja rusla kassa til að setja á ljósastaurana svo nú verður hægt að skipta út þessum ónýtu og fjölga þar sem vantar. Grunnskóla nemendur fengu þá til málunar og eru þeir hreint út sagt listaverk sem gaman verður að horfa á og nota !
- Húsbíll virðist vera búinn að koma sér vel fyrir á höfninni og verið þar nú í nokkrar vikur, spurnig hvort ekki verði að taka eigandann tali og fá hann til að flytja sig á viðeigandi stað, tjaldsvæði bæjarins.
- Okkur í Hverfisráði/Íbúasamtökunum langar að ítreka ósk grunnskólabarna hér í bæ en þau óskuðu eftir því á sínu bæjarþingi í vor að fá Aparólu, og kanski kominn tími á að hanna opið leiksvæði fyrir börnin á Þingeyri annars staðar en á tjaldsvæðinu eða á Iðnaðarsvæðinu/Hafnarsvæðinu en þar hefur verið smíðavöllur um nokkurt skeið.
Fleira ekki gert, fundi slitið.