Stjórnarfundur 3. júní 2021

Íbúasamtökin Átak

Fundargerð

Fundur 3. júní 2021 kl.20:00

Þingeyri

Mætt: Guðrún, Wouter, Guðmundur, Lára Ósk, Hafsteinn og Helgi fh. íbúasamtakanna.

Agnes fh. ÖVD.

Dagskrá:

1. Erindi send Ísafjarðarbæ

Engin svör borist frá Ísafjarðarbæ vegna erinda um skipulagsmál.

Ekki ásættanlegt að svör berist og ákveðið að formaður ræði þetta á fundi með bæjarritara og bæjarstjóra.

Ákveðið að senda erindi um virkjanaáform og meltutank. Skortur er á samráði við íbúa um inngrip af þessu tagi á fyrstu stigum.

2. Samstarf við íbúasamtökin á Flateyri og Suðureyri

Ísafjarðarbær hefur nú tekið áfram hugmyndir um heimastjórn og fagna íbúasamtökin að hreyfing sé á verkefninu og hlakka til að taka þátt í þessu starfi og þeim bættu starfsháttum sem þessu fyrirkomulagi munu fylgja.

3. Þjóðgarður

Íbúasamtökin hvetja ráðamenn til að stofna þjóðgarðinn hið fyrsta - með gestastofu á Þingeyri, sem hjarta Vestfjarða

4. Blábankinn

Rætt um breytingar á stjórn og stefnu Blábankans og mikilvægi þessa að bankinn starfi náið með hagsmunaaðilum á svæðinu. Íbúasamtökin þurfa að velja fulltrúa í staðinn fyrir Agnesi þegar hún fer úr stjórn.

5. ÖVD

Íbúafundur var haldinn 7. júní var ákveðið að óska eftir framlengingu á verkefninu og OVD mun funda með Ísafjarðarbæ til að fara fram á framlengingu. Framtíðarsýn rædd og hlutverk verkefnastjóra. Brýnt að gera framtíðarsýn, stefnumótun og aðgerðaáætlun fyrir þróun Þingeyrar til framtíðar. Heimastjórn, íbúalýðræði grundvöllurinn en brýnt að tapa ekki þeim tengslum sem myndast hafa við Ísafjarðarbæ með verkefninu. Nauðsynlegt að ÍSafjarðarbær styðji betur við verkefnið og beiti sér og sé ekki fyrirstaða þegar kemur að því að koma verkefnum í framkvæmd.

6. Stígur á Sandafelli

Formaður og ÖVD fulltrúi hafa ítrekað þetta við Ísafjarðarbæ reglulega, einnig vegna tengdra verkefna í ÖVD og verkefna styrktum af framkvæmdasjóði ferðamannastaða og framtíðar hjólreiðastefnu Ísafjarðarbæjar. Stígurinn er annars vegnar aðdráttarafl fyrir ferðamenn en einnig mikilvægur fyrir lýðheilsu íbúanna.

7. Önnur mál.

Aðstaða barna til íþróttaiðkunar Rætt um biðaðstöðu fyrir börn sem stunda íþróttir á Ísafirði og hverstu stopular strætisvagnaferðir eru.

Frístundastarf – skoða ætti hvort ekki er hægt að tengja betur ungmennastarf á svæðunum þannig að ungmenni í minni kjörnunum geti betur nýtt sér framboð á Ísafirði.

Fegrunardagur felldur niður vegna veðurs

Brýnt er að Ísafjarðarbær setji sér stefnu um markmið menningarsjóðs

Mikilvægt að íbúar séu látnir vita um fyrirhugaðar vatns- og götuframkvæmdir.

Fundi slitið kl. 21:30

Fundarritari: Guðmundur Ólafsson


Viðhengi- erindi til Ísafjarðarbæjar verða send 27. júní 2021

Erindi frá Átaki í tengslum við vinnu við skipulags- og matslýsingum fyrir Botnsvirkjun og Hvallátursvirkjun í Dýrafirði.

Þann 18. mars 2021 heimilaði bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar málsmeðferð á skipulags- og matslýsingum fyrir Botnsvirkjun og Hvallátursvirkjun í Dýrafirði, skv. 40. gr. skipulagslaga 123/2010.

Átak óskar hér með eftir nánari upplýsingum um fyrirhugaðar áætlanir um virkjanir í botni Dýrafjarðar en ekkert samráð hefur verið haft við íbúa varðandi þetta mál:

  1. i) Í umsögn skipulags- og mannvirkjanefndar frá 10. Febrúar 2021 segir: „Nefndin bendir þó á að svæðið er undir friðlýsingu frá Náttúrufræðistofnun Íslands sem og hverfisvernd í aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar og því er ekki samræmi milli áforma og aðalskipulags.

Virkjanir í botni Dýrafjarðar myndu væntanlega hafa mikil áhrif á náttúru, umhverfi og ásýnd Dýrafjarðar og því eðlilegt að íbúum sé gerð grein fyrir þessum framkvæmdum og áhrifum þeirra. Hér er ekki einungis átt við umhverfisleg áhrif heldur einnig efnahags- og samfélagsleg áhrif (skapar þetta störf á svæðinu til lengri tíma litið? Hefur þetta áhrif á orkuöryggi á svæðinu? Hvaða áhrif hefur þetta á ferðaþjónustu? Hvað með framtíðaráform um þjóðgarða á Vestfjörðum? o.s.frv.).

Átak óskar hér með eftir því að Ísafjarðarbær kynni þetta mál á sérstökum fundi með Átaki.

  1. ii) Í umsögn skipulags- og mannvirkjanefndar frá 10. febrúar 2021 kemur enn fremur fram að „Beiðninni um breytingu á aðalskipulagi er vísað inn í vinnu við endurskoðun aðalskipulags Ísafjarðarbæjar.

Átak óskar hér með eftir upplýsingum við því hver lagði fram ofangreinda beiðni.

Svæðið nýtur hverfisverndar í núverandi aðalskipulagi. Öll áform um virkjanir kalla því á grundvallarbreytingu á núverandi aðalskipulagi og mun væntanlega hafa umtalsverð og varanleg áhrif á umrætt svæði. Í því ljósi er mikilvægt að fram fari ítarleg kynning og umræða um fyrirhugaðar virkjanaáætlanir og áhrif þeirra. Málið varðar alla íbúa svæðisins og framtíðaruppbyggingu, t.d. í tengslum við útivist, náttúruupplifun, ferðaþjónustu og framtíðarhugmyndir um þjóðgarða á Vestfjörðum.

Átak óskar hér með eftir því að Ísafjarðarbær kynni þetta mál á sérstökum fundi með íbúum.

iii) Umrætt svæði er undir friðlýsingu frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands um skipulagslýsingar fyrir Botnsvirkjun og Hvallátursvirkjun (sent Ísafjarðarbæ 21.5.2021) kemur m.a. fram að:

Náttúrufræðistofnun telur að betur þurfi að standa að athugunum á náttúrufari á svæðinu áður en ákvarðanir eru teknar um endanlegt deiliskipulag í tengslum við þessi áform um uppbyggingu tveggja vatnsaflsvirkjana í botni Dýrafjarðar. Mælt er með að farið sé í athuganir á fuglalífi, gróðurfari og jarðminjum (sérstaklega steingervingum) á svæðinu. Einnig þarf að meta mjög vandlega hvort og hvernig starfsemi virkjananna hafi áhrif á viðkvæmt lífríki á fjörusvæðum sem metið er með hátt verndargildi.

Átak óskar hér með eftir upplýsingum um það hvort haldið verði áfram vinnu við deiliskipulag á svæðinu. Spurningin er sett fram í ljósi þess að deiliskipulag vegna virkjana í botni Dýrafjarðar væri ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag. Þá er spurningin einnig sett fram í ljósi umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands þar sem m.a. segir „… að betur þurfi að standa að athugunum á náttúrufari á svæðinu áður en ákvarðanir eru teknar um endanlegt deiliskipulag í tengslum við þessi áform …“.

Erindi frá Átaki varðandi umfjöllun hafnarstjórnar og skipulags- og mannvirkjanefndar í tengslum við áform um rekstur meltutanks á Þingeyri

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar þann 27. maí 2021 (liður 7) kemur eftirfarandi fram:

„Hafnarstjórn telur að starfsemi af þessu tagi sé best fyrirk omið á landfyllingu sem væri útbúin vestan við löndunarbryggju.“ „Skipulags- og mannvirkjanefnd tekur undir tillögu hafnarstjórnar og felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram.“

Í ljósi tillögu hafnarstjórnar hér að ofan og viðbrögðum skipulags- og mannvirkjanefndar við henni vill Átak koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri:

  1. i) Svæðið sem lagt er til í tillögu hafnarstjórnar er ekki að finna í aðal- eða deiliskipulagi, enda er hér vísað til þess að útbúin væri ný landfylling undir umræddan meltutank. Það er hins vegar vert að benda á að í bæði aðal- og deiliskipulagi eru svæðin sem myndu liggja að umræddri landfyllingu skilgreind annars vegar sem hafnarsvæði og hins vegar sem hverfisverndarsvæði.

Ljóst er að meltutankur og starfsemi tengd honum rúmast hvorki á hafnarsvæði né innan miðsvæðis/hverfisverndarsvæðis.

Í deiliskipulagi fyrir umrætt svæði segir í kafla 3.9:

Í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 er sett hverfisvernd á miðbæ Þingeyrar. Nær hún til Fjarðargötu, Hafnarstrætis og að kirkjunni. Einnig svæðið við Aðalstræti að Vallargötu og við Brekkugötu. Innan svæðisins er mest miðsvæði og íbúðarsvæði en einnig opin svæði til sérstakrar nota og svæði fyrir þjónustustofnanir.

Í deiliskipulagi fyrir umrætt svæði segir enn fremur (kafli 4.1) að á miðbæjarhluta deiliskipulags er gert ráð fyrir íbúðabyggð í bland við ýmsa starfsemi og þjónustu sem er einkennandi fyrir staðinn, ferðaþjónustu og nálægð við haf. Þá er lagt til að Gramsverslun (Vallargata 1) verði flutt á nýja lóð austan við Hafnarstræti á hornið fyrir ofan Hafnarvogina.

Í þessu tilliti er vert að minna á að um þessar mundir er til skoðunar hvort upplýsingamiðstöð fyrir væntanlegan þjóðgarð verði hugsanlega valin staður á Þingeyri og þá mögulega í uppgerðri Gramsverslun. Í því samhengi er einnig vert að nota tækifærið og minna á erindi Átaks til Ísafjarðarbæjar sem varðar m.a. framtíð Gramsverslunar (sent 23. febrúar 2021) en engin svör hafa enn sem komið er borist við því erindi.

Í fyrrgreindum kafla 4.1 í deiliskipulagi fyrir umrætt svæði er einnig tekið fram að atvinnuhúsnæði á umræddu svæði beri svipmót af lágreistri byggð og að landnotkun sé miðuð við léttan iðnað og atvinnustarfsemi, verslun og þjónustu sem ekki mengar.

Því er erfitt að sjá hvernig meltutankur og sú starfsemi og lyktarmengun sem henni fylgir líklega (miðað við reynslu annars staðar af starfsemi sem þessari) samræmist aðal- og deiliskipulagi fyrir umrætt svæði.

  1. ii) Hér að ofan var minnst á Gramsverslun og tækifæri tengd henni, t.d. í tengslum við áform um upplýsingamiðstöð fyrir væntanlegan þjóðgarð. Þessu til viðbótar er vert að benda á að á umræddu svæði er í dag að finna ýmsa starfsemi, t.d. Smiðjuna, Hótel Sandafell, Koltru og Víkingasetrið. Það er ljóst að meltutankur mun hafa áhrif á þessa starfsemi, auk þess sem meltutankur og starfsemi tengd honum rúmast engan veginn innan þess framtíðarskipulags sem sett er fram í aðal -og deiliskipulagi fyrir svæðið.

Þá er ljóst að sjón- og lyktarmengun hefur ekki jákvæð áhrif á þá starfsemi sem fyrir er. Mun tankurinn líklega standa beint fyrir framan móttöku og veitingasal Hótel Sandafells. Ljóst er að útsýnið er meginaðdráttarafl hótelsins og veitingastaðarins (auk matseðilsins auðvitað). Þá var nýverið útbúinn úti-áningarstaður við austuvegg Smiðjunnar. Óhætt er að fullyrða að vinsældir hans verð ekki miklar ef útsýnið er meltutankur og mögulega lyktin eftir því.

iii) Þá telur Átak að allar ákvarðanir sem varða framtíðarskipulag, uppbyggingu og ásýnd Þingeyrar skuli taka mið af efnahags- og samfélagslegum áhrifum sem þeim kann að fylgja. Því er mikilvægt er að eftirfarandi spurningar séu settar fram:

  1. A) Hver er kostnaður samfélagsins (hver greiðir t.d. fyrir umrædda landfyllingu)?
  2. B) Hver er samfélagslegur kostnaður (t.d. sjón- og/eða lyktarmengun)?
  3. C) Hver eru áhrifin á þá starfsemi sem fyrir er?
  4. D) Hver er samfélagslegur ávinningur (skapast t.d. störf á svæðinu og þá hversu mörg?

Því óskar Átak eftir því við Ísafjarðarbæ að við vinnu skipulagsfulltrúa verði tekið tillit til ofangreindrar athugasemda frá Átaki og að fjallað sé um málið í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag og í anda þess framtíðarskipulags sem þar er mótað varðandi umrætt svæði. Jafnframt að samráð verði haft við Átak um næstu skref.

Virðingarfyllst,

f.h. Átaks, Guðrún D. Guðmundsdóttir formaður.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?