Stjórnarfundur 27. október 2021

Íbúasamtökin Átak

Fundargerð

Fundur 27. október 2021 kl. 19:30

Þingeyri

Mætt: Guðrún, Guðmundur, Lára Ósk og Helgi fh. Íbúasamtakanna, og Agnes sem áheyrnarfulltrúi ÖVD.

Dagskrá:

1. Helstu mál á döfinni vegna fundar með bæjarstjóra og bæjarritara
Fyrirhuguð sala íbúða Ísafjarðarbæjar að Fjarðargötu 30

Verkefnisstjóri ÖVD sagði frá málinu en áhyggjufullir og jafnvel örvæntingarfullir íbúar höfðu samband við hana til að leita ráða og hjálpar. Kynnt var bréf Ísafjarðarbæjar um efnið en betur hefði farið að íbúunum hefðu verið kynnt áform bæjarins á nokkuð tillitssamari hátt en af bréfinu mátti ráða að íbúarnir hefðu tvær vikur til að ákveða hvort þeir hyggðust kaupa íbúðirnar sem ella yrðu settar í almenna sölu.

Fyrir liggur að mikill skortur er á húsnæði í bænum og í fátt annað leiguhúsnæði að venda. Stjórnarmenn lýstu miklum áhyggjum af því að bærinn stefni á að selja allar félagslegar íbúðir, ef það gengur eftir að þá er ekkert annað húsnæði í boði fyrir fólk sem þeirra þyrfti. Rætt var hvort gerð hefði verið úttekt á nauðsynlegu viðhaldi fyrir mögulega kaupendur, hvað það ætti að kosta, hvert verðið á íbúðunum yrði og hvort það viðráðanlegt/sanngjarnt fyrir leigjendurna. Einnig var rætt hvort hægt væri að óskað eftir að bærinn setti einhvers konar skilyrði fyrir sölunni ef eitthvað af íbúðunum færi í almenna sölu. Rætt að senda bænum bréf um efnið og óska eftir fresti o.fl., sjá drög að neðan.

Verkefnisstjóri ÖVD lagði til að skoða hvort hægt væri e.t.v. að fá óhagnaðardrifið leigufélag til að koma að kaupunum til að tryggja áframhaldandi framboð leiguíbúða.

Ákveðið að ræða málið á fundi með bæjarstjóra og bæjarritara til að leita viðeigandi lausna fyrir núverandi leigjendur og senda bréf ef þurfa þykir að fundi loknum.

Drög að bréfi:

Þingeyri, 27. október 2021

Efni: Bréf frá stjórn Fasteigna Ísafjarðarbæjar, dagsett 4. október 2021.

Til þess er málið varðar.

Stjórn Fasteigna Ísafjarðarbæjar sendi nýverið bréf til íbúa sem leigja fasteignir af Ísafjarðarbæ í fjölbýlishúsi á Fjarðargötu 30, Þingeyri.

Í kjölfar þess höfðu ofangreindir íbúar samband við Átak og verkefnisstjóra ÖVD þar sem þeir lýstu áhyggjum vegna fyrirhugaðrar sölu Ísafjarðarbæjar á umræddum fasteignum. Átak tekur undir áhyggjur íbúanna af tvennum sökum:

i) Í fyrsta lagi var þeim íbúum sem leigja húsnæði í umræddu fjölbýlishúsi veittur mjög stuttur frestur til þess að ákveða hvort þeir hafi áhuga á að festa kaup á þeirri fasteign sem viðkomandi er leigir af Ísafjarðarbæ.

Kaup á fasteign er stór ákvörðun og því eðlilegt að umræddir íbúar fái lengri umþóttunartíma en tvær vikur frá því að þeim berst tilkynning um að Ísafjarðarbær hyggist selja fasteignirnar.

Átak óskar eftir því að íbúum verði veittur 3 mánaða frestur til að gera upp við sig hvort þeir hyggist festa kaup á fasteigninni eða ekki.

ii) Í öðru lagi hefur Átak áhyggjur af almennri stöðu húsnæðismála á Þingeyri. Ljóst er að skortur á húsnæði stendur í vegi fyrir því að fólk geti flutt til Þingeyrar og að þeir sem nú þegar eru á leigumarkaði á Þingeyri geti fest kaup á fasteignum í bænum. Átak hefur áhyggjur af því að sala Ísafjarðarbæjar á umræddum fasteignum fækki enn húsnæðismöguleikum þeirra sem vilja búa og starfa á Þingeyri.

Reynsla undanfarinna ára sýnir að það er mikil sókn í sumarhús á Þingeyri. Því getur reynst erfitt fyrir þá sem hyggjast setjast að á Þingeyri, eða þá sem eru um þessar mundir búsettir á Þingeyri en eru á leigumarkaði, að keppa við þá sem hyggjast festa kaup á sumarhúsi.

Í því ljósi óskar Átak eftir því að Ísafjarðarbær taki mið af þessum vanda og að það sé vandlega ígrundað hvort og þá hvernig sé hægt að tryggja að kaupendur á umræddum fasteignum sé fólk sem hyggist búa og starfa á Þingeyri.

Fráveitumál
Nauðsynlegt er að bæta fráveitu frá Þingeyri, m.a. endar mikið skólp í smábátahöfninni þar sem lítill straumur er. Miður geðslegt myndband af svæðinu sýnir þörfina. Ákveðið að árétta á fundi með bæjarritara og bæjarstjóra að nauðsynlegt sé að laga þessi mál, einkum með tilliti til aukinnar iðkunar sjósunds og annars sjósports á svæðinu.

Áréttað enn og aftur að brýnt er að ljúka stígnum í kringum Sandafell til að tengja hann verkefni styrktu af framkvæmdasjóði ferðamannastaða og ÖVD. Annars er ekki unnt að ljúka við kortavinnu sem er hluti af þessum verkefnum.

Áréttað að nauðsynlegt sé að greina þarfirnar og endurskipuleggja snjómokstur, t.d. að byrja þar sem fólk mætir fyrst, t.d. í leikskóla eða elliheimili og tryggja að ekki sé verið að moka seint á kvöldin vegna hljóðmengunar.

Gramsverslun óskað er eftir niðurstöðu úttektar á húsinu til að greina hvernig best er að bjarga því og e.t.v. nota sem gestastofu fyrir Þjóðgarð.

Bæjarstjóri er hvattur til að beita sér fyrir þjóðgarði og nýta tækifærin sem í honum felast. Gestastofan ætti að vera á Þingeyri.

Deiliskipulagning lóða – enn og aftur er áréttað að brýnt sé að ljúka deiliskipulagi til að auka framboð lóða, sbr. fyrirmæli bæjarráðs.

Heimastjórn – samtökin lýsa ánægju með samráð og starf Ísafjarðarbæjar í þessu samhengi og hlakka til frekari þátttöku í þessu ferli.

Meltutankur – rætt að fá frekari upplýsingar um verkefnið, teikningar, störf, mengun o.s.frv. en verkefnið virðist hafa dagað uppi.

Hugmyndir um geymslusvæði við hlið frístundabyggðar fyrir eldisbúnað
Hvað felst í þessum hugmyndum, hvernig yrði frágangur, hvaða áhrif hefði þetta á mögulega frístundabyggð, ásýnd svæðisins o.s.frv. Málið verður rætt á fundi með bæjarritara og bæjarstjóra og e.t.v. leitað fundar með Arctic til að finna svæði sem allir geta sameinast um.

Fundi slitið kl. 21:30

Fundarritari: Guðrún D. Guðmundsdóttir

Er hægt að bæta efnið á síðunni?