Félagafundur 29. júní 2015

Íbúafundur á vegum Íbúasamtaka Hnífsdals – hverfisráðs var haldinn 29.06.2015.  Mættir voru um 40 íbúar og urðu umræður fjörugar og góðar.

Vegna þess hve óljósar forsendur framkvæmdaframlags eru treystu íbúar sér ekki til að tilnefna einstaka framkvæmd en ljóst er eftir fundinn að umhverfismál þorpsins eru íbúum hugleikin.  Er það skoðun meginþorra fundamanna að Hnífsdalur hafi ekki fengið þá athygli og umhyggju frá bæjaryfirvöldum sem gera mætti kröfu um. Það eru því eindregin tilmæli íbúa Hnífsdals að stórátak verði gert í umhverfismálum þorpsins og bærinn gangi þannig á undan með góðu fordæmi.  Íbúar eru þá boðnir og búnir að styðja við og leggja sitt af mörkum. 

Meðfylgjandi eru þrjár meginhugmyndir íbúa um framkvæmdir og þar fyrir neðan ábendingar um staði sem mikil þörf er á úrbótum í umhverfismálum auk annarra mála.

Framkvæmdaframlag – hugmyndir

-        Stórátak í umhverfismálum.  Eftir íbúafund 29. júní 2015 er ljóst að það sem íbúum liggur hvað mest á hjarta eru umhverfismál í Hnífsdal. Íbúum þykir umhverfi staðarins hafa látið mikið á sjá á undanförnum árum og finnst mikilvægt að gert verði stórátak í umhverfismálum staðarins. (Sjá meðfylgjandi ábendingar um lagfæringar og viðhald).

-        Félagsheimili – úttekt og framtíðarsýn.  Annað verkefni sem íbúar telja mikilvægt er að heildstæð áætlun verði gerð um endurbætur á Félagsheimilinu í Hnífsdal. Fyrsta skref á þeirri vegferð væri að gera heildstæða úttekt á ástandi hússins og velta fyrir sér mögulegri nýtingu hússins.

-        Gönguleiðir – hanna og gera áætlun.  Velja nokkra fallega áningarstaði til að búa til á næstu árum auk göngustígs Hraunsmegin fram dalinn og göngubrú/brýr. Enda í fallegu göngukorti. (5 ára plan)?

 • Dæmi:  Bekkur og borð við Mjósund – gera göngustíg alveg að Mjósundum og upp meðfram hleðslunni á veginn. Fegra umhverfi. Gæti orðið fyrirtaks áningarstaður. 

Ábendingar um lagfæringar og viðhald í Hnífsdal

Hér má sjá myndir af stöðum þar sem úrbóta er þörf:  https://www.dropbox.com/sh/1we226e0aoszh9y/AACBIO_3klznBPkJ8n5lPblUa?dl=0

Gamli barnaskóli

 • Finna þarf húsinu tilgang.
  • Gler víða ónýtt
  • Þakrennur ofan við hús fuku af í óveðri í vetur og áríðandi að gert verði við þær og gömlu rennurnar fjarlægðar.
  • WC í barnaskólanum ónýtt
  • Steypujárn stendur út úr girðingu við Bakkaveg 5 og skapar hættu

Leikvöllur við gamla barnaskólann - Þegar hellur voru lagðar virðist hafa verið sóttur sandur í fjöruna sem undirlag. Því vex fjörugróður þar upp af miklum móð með öðru illgresi. Einnig virðist ekki hafa tekist nægilega vel til með þann gróður sem settur var niður þegar lóðin var endurbætt á sínum tíma.  Mætti skoða.

Göngustígur
Ganga þarf frá svæði milli vegar og göngubrautar og möl berst stöðugt upp á göngustíg.  Bæta mætti við bekkjum á leiðinni.

Blómabeð við Hreggnasa

Þarf að hreinsa betur til í beðunum.

Sláttur
Sláttur hefur verið slæmur undanfarin ár. Kerfill fer hamförum neðan við Bakkaveg og Skólaveg og lúpína vex til óþurftar. Mikilvægt er að gerð verði áætlun um eyðingu beggja plantna til að gróður svæðisins megi njóta sín.

Vegrið vantar neðan við Bakkaveg og Heiðarbraut – í hálku er mikil hætta á að bílar steypist fram af bakkanum. Viðvarandi hálka hefur verið síðustu vetur með hvassviðri – oft í vestan átt sem stendur niður dalinn og skapar tíðum mikla hættu.

Umhverfi Félagsheimilisins
Umhverfi Félagsheimilisins er illa hirt, malbik á plani er illa farið, kantsteinar brotnir og mikið illgresi allt í kring. Að auki hefur trésmiðjan tekið sér nokkuð mikið athafnarými sem ekki er alltaf snyrtilegt.

Vegur upp í Hraun
Vegurinn upp í Hraun er illa farinn og þyrfti að skoða.

Teigahverfi
Huga þarf að lagfæringum á götum og umhverfi Teigahverfis.

Vegur upp að rétt
Lagfæra þarf veg upp að réttinni.

Stekkjargata
Sjá meðfylgjandi greinargerð frá íbúum þar.

Vegur í Fremri Hnífsdal
Brekkan upp að Bakkaskriðunni fór illa í vatnsveðrum vetrarins og er illa fær bæði gangandi og akandi umferð.

Skilti
Huga þarf að umferðarskiltum í dalnum og miða við núverandi umferð. Umferð hefur breyst mikið í dalnum eftir að nýi vegurinn kom en þó er enn stöðvunarskylda á Bakkavegi og einnig við Stekkjargötu.  Einnig hefur skólahald verið lagt af í gamla barnaskólanum fyrir þó nokkru síðan og undarlegt að enn sé stöðvunarskylda á miðjum Bakkavegi og að Garðavegur eigi rétt á Bakkaveg.

Rétt er þó að geta þess að ekki eru allir sammála um hvort stöðvunarskylda eigi að vera á Bakkavegi við Garðaveg áfram eða ekki. Margir telja að verði stöðvunarskyldan afnumin muni hraði bíla sem aka um Bakkaveg aukast og er hann þegar töluvert umfram 30 km. hámarkshraðann sem þar er lögbundin eins og annars staðar innanbæjar í Ísafjarðarbæ.

Einnig vantar nafnaskilti á göturnar.

Brúin yfir Hnífsdalsána
Skoða þarf göngustíg og aðkomu umhverfis brúna. Mjög mikil hætta hefur skapast við brúna og ekki þarf mikið til að fólk falli í ána.

Bílakirkjugarðar á Stekkjargötu og víðar
Um nokkurt skeið hefur ástand umhverfis atvinnuhúsnæði á Stekkjargötu verið alls óviðunandi og engum til sóma. Nokkrir aðilar virðast þar fá að leika lausum hala og sanka að sér bílum og alls kyns óþrifnaði. Finna þarf ásættanlega lausn þess máls.

Kantur við Bakkaveg
Gangstéttarkantur er víða brotinn á Bakkavegi, sérstaklega fremst þar sem ekki er gangstétt.  Í óveðri í vetur þurfti að grafa niður neðan götu við leikskólann og enn er slæmt sár þar sem þyrfti að laga.  Þar fyrir neðan er enn opið frárennslisræsi frá þessum framkvæmdum sem þyrfti að loka.

Lóð við leikskólann
Fara þarf yfir leiktæki og gera við þau sem eru farin að láta á sjá. Sum eru beinlínis hættuleg.

Skurðir ofan við Bakkaveg framan leikskóla
Skurðir hafa ekki verið tæmdir svo vitað sé sl. 8-9 ár. Þetta skapar verulega hættu á að vatn safnist við hús og leki inn eins og raunin varð í vatnsveðrum vetrarins. Húseigendur eru ekki tryggðir fyrir slíku tjóni og erfitt að eiga við það. Því mikilvægt að hugað sé að því að leiða vatn frá húsum með mögulegum leiðum.

Skurð vantar alfarið ofan við Dalbraut og hið sama gildir þar og á Bakkaveginum að hætta er á vatnsflóðum í leysingum. 

Ruslahaugur við Langhól
Járnarusl sem verið hefur í áratugi – sjá mynd:

Önnur mál: 

Snjómokstur

Snjómokstur síðasta vetur afar slæmur.  Moka þarf um helgar þannig að fært sé út á þjóðveg.

Strætó – Endurskoða mætti áætlun strætisvagna – engin ferð frá 7:40 til kl. 14:10.

Tóm hús í eigu íbúðalánasjóðs: Skáletrað eru hús sem eru illa farin eða jafnvel ónýt og gætu skapað hættu á foki

 • Dalbraut 10
 • Garðavegur 1
 • Heiðarbraut 12 (Holt)
 • Bakkavegur 23
 • Skólavegur 5
 • Strandgata (bláa húsið/ gamli skólinn)
Er hægt að bæta efnið á síðunni?