Stjórnarfundur 20. október 2014

Hverfisráð Holta – og Tunguhverfis 1 fundur.

Árið 2014, mánudaginn 20. október kl. 20:30 var haldinn fundur í Hverfisráði Holta- og Tunguhverfis í Sunnuholti 1 á Ísafirði.

Mættir nefndarmenn voru:  Anna Ragnheiður Grétarsdóttir, Guðmundur Óli Tryggvason, Lína Björg Tryggvadóttir, Steinþór B. Kristjánsson og Tinna Hrund Hlynsdóttir Hafberg.

1. Skipting verka innan nefndar.

Tillaga að nefnd

Formaður – Tinna Hrund

Meðstjórnendur – Lína Björg Tryggvadóttir og Anna Ragnheiður Grétarsdóttir

Ritari – Harpa Guðmundsdóttir

Gjaldkeri – Guðmundur Óli Tryggvason og Steinþór Kristjánsson.

Tillagan samþykkt samhljóða.

2. Málefni sem þarf að huga að

Fyrst liggur fyrir að útbúa dreifirit til að dreifa í öll hús í hverfinu þar sem fram kemur að búið sé að stofna hverfisráð. Einnig skal benda á Facebook síðu sem allir íbúar geta fengið aðgang að og þannig tekið þátt í umræðum og komið með tillögur að breytingum.

Í samþykktum hverfisráðs Holta – og Tunguhverfis kemur fram í 8. grein að Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar veiti árlega styrki á fjárhagsáætlun sem er ætlað að greiða t.d pappír, póstburðargjöld og annan umsýslukostnað í tengslum við hlutverk hverfisráðsins.  Hafa þarf samband við Bæjarritara Ísafjarðarbæjar vegna þessa svo að hægt sé að koma upplýsingum til íbúa um stofnun hverfisráðsins sem fyrst.  

Fyrir rúmum mánuði síðan var Facebook síða stofnuð þar sem allir íbúar Holta- og Tunguhverfis eiga að hafa aðgang að. Eru þó nokkuð margir komnir þar inn, en ljóst er að til þess að ná til sem flestra þarf að auglýsa með því að bera auglýsingar í hús.

Ákveðið var að stofa aðra Facebook síðu sem er eingöngu fyrir stjórnendur ráðsins til að hafa vettvang til að geta boðið á fundi og rætt ýmis mál.

Athuga þarf hvort að þurfi að stofna kennitölu vegna hverfisráðsins og ef svo er þá þarf að ganga í það og þá láta gjaldkera hafa prókúru.

3. Önnur mál

Þar sem að þetta var fyrsti fundur sáu ekki allir nefndarmenn sér fært að mæta.

Ýmsum hugmyndum var vellt upp er varða verkefni sem hverfisráð gæti stýrt og haft aðkomu að.  Til dæmis  þrifadagur hverfanna – hugmyndin er að allir íbúar taki þátt og hjálpast að við að gera umhverfið hreint og fallegra.  Markmiðið með þessum degi er að efla íbúana í hverfinu til að hjálpast að og koma inn vitundarvakningu varðandi hreinna og fegurra umhverfi.

Einnig  kom upp hugmynd um að fegra svæðið á milli neðra og efra hverfis í Holtahverfinu og jafnvel nýta sem leiksvæði og/eða hugsanlega nýta sem sameiginlega grill og útiaðstöðu íbúa.

Rætt var um leiksvæði fyrir Tunguhverfi og Seljaland, þar er ekkert leiksvæði fyrir börnin, sú hugmynd kom upp að jafnvel gæti verið sniðugt að gera leiksvæði við Bónus sem nýtist þá þeim börnum sem búa á svæðinu og eins þeim sem vilja vera í leik á meðan foreldrar versla í Bónus, það svæði þyrfti hins vegar að vera afgirt. 

Að mati nefndar er aksturshraðinn á öllum svæðum Holta og Tunguhverfis of mikill og einnig vantar ljósastaura í Tunguhverfi og í Seljalandi og vill nefndin benda bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að grípa til aðgerðar þar ásamt því að gera gangbrautir í þessum hverfum.

Fleira ekki gert – fundi slitið kl. 21:30

Er hægt að bæta efnið á síðunni?