Íbúafundur með hverfisráði 25. maí 2018

Fundurinn er haldinn við Ártungu. Á fundinn mættu þrír fulltrúar hverfisráðs: Elísabet Samúelsdóttir, Alberta Gullveig Guðbjartsdóttir og Heiðrún Rafnsdóttir, ásamt 8 öðrum íbúum.

Fundargerð ritaði: Alberta Gullveig Guðbjartsdóttir

Tilefni fundar var að vekja athygli íbúa á þeirri stöðu sem upp er komin vegna fyrirhugaðra framkvæmda á leikvelli í Tunguhverfi. Hverfisráð hvatti íbúa og aðra áhugasama að mæta og velta upp möguleikum í stöðunni.

 

Dagskrá:

1.      Leikvöllurinn í Tunguhverfi

Hverfisráð kynnir forsögu erindis sem á rætur til ársins 2015, en framkvæmdarfé ársins 2017 er fyrirhugað í framkvæmdina. Kynnt er kostnaðarmat á leikvelli sem Ísafjarðarbær afhenti hverfisráði 23.05.2018. Í því fylgir tillaga Ísafjarðarbæjar sem gerir ekki ráð fyrir nýtingu á framkvæmdarfé ársins 2017, heldur fullnýtingu á framkvæmdarfé ársins 2018. Hverfisráð upplýsti íbúa einnig að 25.05.2018 hafi Ísafjarðarbær fyrst greint frá reikningum greiddum á árinu 2017, sem Ísafjarðarbær vill meina að hafi verið nýttur af framkvæmdarfé hverfisráðs 2017. Hverfisráð hefur annan skilning á því og vill benda á að engir reikningar voru samþykktir á aðalfundi ársins 2017.

Svæðið undir leikvöll er rætt. Íbúar vilja benda á að það þurfi að huga sérstaklega vel að framkvæmd vegna þess hve jarðvegur getur verið blautur langt niður í jörðu, það sé reynsla íbúa á svæðinu.

Það er ályktun íbúafundar að framkvæmd á leikvelli í Tunguhverfi megi ekki mæta frekari töfum. Áhersla er lögð á að hefja framkvæmdir sem fyrst sumarið 2018. Það er vilji íbúa að komast að samkomulagi við Ísafjarðarbæ um ráðstöfun framkvæmdarfés.

 

Önnur mál:

2.      Kríuvarp á Skeiði

Íbúar vilja koma á framfæri mikilli óánægju með kríuvarp á Skeiði í Skutulsfjarðarbotni. Íbúar finna fyrir ónæði af fuglunum, sér í lagi við göngustíg milli afleggjara frá Tunguhverfi að afleggjara við Seljaland. Hverfisráð hvetur Ísafjarðarbæ til að leita lausna í þeim efnum.

3.      Viðhald á grasvelli

Íbúar vilja koma á framfæri ábendingum um mikilvægi þess að hirða grasvöll sem liggur við Hrauntungu. Þar eru mörk löskuð eftir snjómokstur. Órækt á svæðinu verður til þess að engin nýting er á því fyrir börn og íbúa.

4.      Göngustígur

Íbúar vilja benda Ísafjarðarbæ á að göngustígur sem að liggur að hverfi endi á miðri leið. Mikilvægt er að huga að lagningu göngustíga í Tunguhverfi.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?