Fundur 2. maí 2018

Fundinn sátu Tumi Jóhannsson, Heiðrún Rafnsdóttir, Elísabet Samúelsdóttir, Alberta Gullveig Guðbjartsdóttir og Vala Dögg Petrudóttir.


Fundargerð ritaði: Alberta Gullveig Guðbjartsdóttir


Dagskrá:


1. Leikvöllur í Tunguhverfi
Hverfisráð gerir athugasemd við það að undirbúningur að framkvæmd á leikvelli í Tunguhverfi sé tímafrekur og vinnist illa. Ákvörðun um ráðstöfun á framkvæmdarfé fyrir árið 2017 lá fyrir á árinu 2016, þegar að fjárfest var í leiktækjum fyrir fyrirhugaðan leikvöll. Áætlað er að fullnýta framkvæmdarfé 2017 í uppbyggingu á leikvelli í Tunguhverfi. Hverfisráð hefur ítrekað óskað eftir kostnaðaráætlun frá Ísafjarðarbæ vegna verkefnisins, án árangurs. Hverfisráð óskar eftir skilvirkum aðgerðum svo unnt sé að koma verkefninu í framkvæmd.


2. Framkvæmdarfé 2018
Óskað verður eftir tillögum um nýtingu á framkvæmdarfé 2018 frá íbúum á opnum facebook hóp. Hverfisráð sér fram á að þurfa að nýta hluta af framkvæmdarfé 2018 til að klára lágmarks frágang á leikvelli í Tunguhverfi. Áður en ákvörðun liggur fyrir er brýnt að fá kostnaðaráætlun við leikvöll í Tunguhverfi.


3. Spennistöð við Hafraholt
Hverfisráð hefur fengið ábendingar frá íbúum um að jarðvegur hafi sigið sem umlykur spennistöð við Hafraholt, nær Holtabraut. Íbúar hafa nefnt að þetta sé lýti og geti verið slysahætta fyrir börn. Hverfisráð kemur til með að hafa samband við Orkubú Vestfjarða og koma ábendingum áleiðis.


4. Göngustígar
Hverfisráð vill benda á að þörf er á malbikuðum göngustígum á milli gatna sem að mætast við efra og neðra Holtahverfi. Jarðvegur á þessu svæði er lélegur, gjarnan myndast þar drullusvað. Það er ekki talið ásættanlegt þar sem um ræðir fjölfarnar gönguleiðir íbúa. Hverfisráð telur þörf á því að bæta aðgengi. Einnig er bent á að huga megi að endurbótum á slitlagi á göngustíg sem liggur frá Holtahverfi að verslun Bónus.


5. Vorhreingerningar íbúa
Hverfisráð vill hvetja íbúa til að snyrta sitt nánasta umhverfi sem er að koma undan vetri. Hverfisráð bíður upplýsinga um Græna viku, sem hefur verið haldin í Ísafjarðarbæ seinustu ár. Skipulag verður kynnt íbuúm þegar að því kemur.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?