Stjórnarfundur 27. mars 2025
Fundur hverfisráðs Önundarfjarðar haldinn á Bryggjukaffi 27. mars 2025 kl. 17:00.
Mætt: Sigríður Anna Emilsdóttir, Hrefna Valdemarsdóttir, Ívar Kristjánsson og Sunna Reynisdóttir.
Sigurður Jökull Grétarsson boðaði forföll en mætti í lok fundar. Varamenn létu vita af fjarveru sinni en Guðmundur Bjögvinsson sendi nokkra minnispunkta fyrir fundinn.
Aðalumræðuefni fundarins var framkvæmdaáætlun sem skila á til Ísafjarðarbæjar fyrir 1. apríl.
Önnur mál:
Sigríður Anna sagði frá fundi sem hún fór á fyrir hönd hverfisráðsins vegna starfslýsingar svokallaðs staðarauga sem til stendur að koma á.
Framkvæmdaáætlun:
Öryggi:
Það þarf að bæta við að minnsta kosti einni hraðahindrun og hafa hana sem næst innkomu í bæinn þar sem margir hverjir hægja of seint á sér.
Loka fyrir þann möguleika að umferð bíla frá veiðihúsunum við Melagötu fari beint út á Hafnarstræti en það skapar mikla hættu.
Öryggismál við grunnskólann, leiksvæði/körfuboltavöllur við Tjarnargötu. Hvernig tryggjum við öryggi. Getum við gert eitthvað til að fá fólk til að keyra hægar framhjá skólanum. Hraðahindranir eru ekki uppi yfir veturinn meðan skólastarf stendur yfir. Girðing framan við skólann væri möguleiki en hún gæti valdið vandræðum við snjómokstur. Best væri að taka þessa umræðu með starfsfólki skólans og finna lausnir í sameiningu.
Ljósastaurar við Brimnesveg eru enn ekki komnir varanlega í lag og þarf að bæta úr því.
Koma þyrlulendingarstað á skipulag bæjarins, á grundinni á móti Skúrinni. Vindpoki myndi nýtast vel.
Holtsbryggjan, öryggis og aðkomumál, fyrir B-leiðina okkar. Það væri gott að hækka veginn niður að bryggjunni til að minnka snjósöfnun og reglulegur mokstur er nauðsynlegur til að ekki skapist vandræði ef til kemur að þurfi að nota bryggjuna. Það þarf að tryggja að til staðar sé úrræði til að koma sjúkrabörum upp á bryggjuna. Lýsing þarf að vera til staðar.
Vatnsveitan og staðan í Klofningsdal, það þarf að vera vakandi fyrir aðstæðum og skrúfa fyrir annan tankinn ef veður er þannig að skriður gætu fallið svo ekki skapist vandræði með vatnið. (Ef það dugar ekki til gæti Plan B verið að skoða lindir undir Hvilftinni).
Gera þarf allsherjar úttekt og áætlun um sjóvarnir.
Við hvetjum til að fylgt verði eftir að viðgerðir á höfninni sem samkvæmt upplýsingum eru komnar á áætlun vegagerðarinnar 2027 fari í gang á tilsettum tíma.
Oddinn að austanverðu svo og Hafnarstrætið og landfylling þar þarf að hækka næst sjónum og verja fyrir rofi svo allt fari ekki á flot.
Það þarf að gera ástandsmat og mælingar á sjóvarnargarðinum við Brimnesveg/Kambinn þar sem hann er orðinn mjög hættulegur á köflum og versnar stöðugt. Frá Öldugötunni og víðar þyrfti að gera þvergarða til að stöðva rof og safna efni að garðinum.
Flateyrarvegur og Breiðadalsgöng. Við erum með í vinnslu samantekt vegna vegabóta og öryggis vegfarenda, umræðu vegna úrbóta þar að lútandi þarf að halda gangandi. Munum senda fljótlega.
Ásýnd og fegrun:
Laga þarf girðingar og gera sauðfjárhelt fyrir sumarið.
Áframhald tiltektar á Oddanum. Mikið hefur áunnist og eiga ýmsir þakkir skildar fyrir það sem komið er en betur má ef duga skal.
Senda þarf hvatningu til eigenda Hvilftar og Kaldár á Hvilftarströnd um að taka til á lóðum sínum þar sem hætta stafar af hlutum sem geta fokið.
Hvetja eigendur veiðihúsa til að mála húsin og snyrta umhverfið.
Sá í svæði sem koma illa undan vetri vegna snjómoksturs og fleira. Þarf samt að huga að því að gróður sé ekki of fljótsprottinn og auki þörf á slætti opinna svæða um of.
Víða þarf að hreinsa gróður úr gangstéttum.
Lóðir og skólabyggingar Leikskólans Grænagarðs og Grunnskóla Önundarfjarðar sem og íþróttahús. Vinna þarf að viðhaldi í samræmi við ársskýrslur skólanna og forgangslista stjórnenda.
Gangstéttir og malbik:
Engin áform virðast vera um að malbika í sumar en við viljum hvetja Ísafjarðarbæ til að sleppa ekki úr ári í malbikunarframkvæmdum þar sem það safnast þá bara upp viðhalds skuld.
Við viljum gera eftirfarandi athugasemdir við gangstéttaáætlun: Við teljum ekki nauðsyn að gera gangstéttir við Melagötu þar sem ekki eru íbúar við þá götu og almennt lítil umferð gangandi vegfarenda. Við leggjum til að fyrirhuguð hjólabraut/gangstígur við Brimnesveginn verði gerður um leið og vegurinn verður malbikaður. Okkar tillaga er að malbika götuna kantanna á milli, þ.e. alveg upp að sjóvarnargarði og síðan verði hjóla/göngustígur afmarkaður með hvítum línum öðrum megin vegar. Við teljum að færa megi í forgang eitt að laga það sem farið er að láta á sjá og orðið hættulegt og nefnum við þar sem dæmi gangstéttar við Grundarstíg, t.d. við Orkubúið.
Víða þarf að laga gangstéttarkanta.
Víða þarf einnig að bæta frárennsli. Við Hafnarstræti 14 myndast ævinlega stór pollur í leysingum. Við Ránargötu 5 þarf að færa niðurfall svo ekki myndist pollur. Allflest niðurföll neðst á eyrinni, þ.e. neðan Túngötu eru stífluð og þarf að sjúga úr þeim, það á mögulega við annars staðar í þorpinu einnig. Við íþróttahúsið myndast stórir pollar og dugar sennilega að keyra efni þar í.
Hugmyndir að gönguleiðum og útivist:
Halda áfram að vinna í að fá útsýnispall við Brimnesveginn. Senda aftur inn umsókn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og í Fiskeldissjóð.
Kálfeyri, merkja gönguleið og lagfæra. Gera söguskilti.
Hreinsa Litlalón og umhverfi þess. Laga veginn þar og verja fyrir ágangi sjávar.
Mosdalur. Fá að merkja gönguleið með skilti við upphaf leiðar í Valþjófsdal, í samráði við landeigendur.
Göngustígur að strompinum við Hól og setja söguskilti í samráði við landeigendur.
Merkja grunna Hvalstöðvarinnar neðan Sólbakka.
Fundi slitið kl 19:00 Fundarritari Sunna Reynisdóttir