Bæjarráð - 813. fundur - 14. október 2013

Þetta var gert:

1.      Fundargerð félagsmálanefndar.

Félagsmálanefnd 8/10. 381. fundur.

3. liður. Fjárhagsáætlun, tillaga um gjaldskrá. 2013-06-0033. Vísað til vinnu við fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2014.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

2.      Fundargerð Umhverfisnefndar.

Umhverfisnefnd 9/10. 402. fundur.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

3.      Álagning B-gatnagerðargjalda við Brimnesveg á Flateyri. 2011-06-0036.

Lagt fram afrit af bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 7. október sl., til Ísafjarðarbæjar, þar sem óskað er eftir afstöðu bæjarins til þess hvort erindi Guðmundar Hagalínssonar frá 2. ágúst 2011, gefi tilefni til formlegrar umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags, sbr. 112. gr. sveitarstjórnarlaga. Erindi Guðmundar Hagalínssonar varðar framkvæmdir við lagningu gangstéttar við Brimnesveg á Flateyri, sem er ólokið, þrátt fyrir að B-gatnagerðargjald hafi verið greitt vegna þeirra.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara erindi innanríkisráðuneytisins.

 

4.      Stofnmat refa á Vestfjörðum. 2013-09-0047.

Lögð voru fram bréf Félags refa- og minkaveiðimanna, óundirritað en dagsett 5. október sl., annars vegar og Kristjáns Einarssonar, refa- og minkaveiðimanns, óundirritað en dagsett 8. október sl., hins vegar. Í bréfunum er umsögn þeirra vegna fyrirspurnar Esterar Unnsteinsdóttur, ódagsett, vegna áhuga Náttúrufræðistofnunar á markvissri skráningu og rannsóknum á veiddum refum á Vestfjörðum í samstarfi við Melrakkasetur Íslands o.fl.

Bæjarráð skorar á umhverfisráðuneytið að leggja Melrakkasetri Íslands til það fjármagn sem til þarf til þessara rannsókna. Bæjarráð felur bæjarstjóra að upplýsa Melrakkasetur Íslands um afstöðu refa- og minkaveiðimanna.

 

5.      Skólalóð Austurvegi. 2012-03-0090.

Lögð var fram ályktun aðalfundar foreldrafélags Grunnskólans á Ísafirði, ódags. en barst í tölvupósti 9. október sl. þar sem lögð er áhersla á að við endanlega útfærslu á lóð skólans verði hagsmunir og þarfir nemenda hafðir í forgangi. Tekið er fram að ákvörðun um að loka Austurvegi og nýta sem skólalóð virðist gefa góða raun en óskað er eftir að skilgreina betur lóðamörk við Aðalstræti, jafnvel með lokun fyrir gegnumakstri á hluta götunnar á skólatíma.

Bæjarráð vísar ályktuninni til umhverfisnefndar.

 

6.      Jólaljós í Ísafjarðarbæ 2013. 2013-10-0037.

Lagt er fram minnisblað Hálfdáns Bjarka Hálfdánssonar, upplýsingafulltrúa Ísafjarðarbæjar, þar sem lagðar eru til dagsetningar á tendrun ljósa á jólatrjám í byggðarkjörnum Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð samþykkir tillögur upplýsingafulltrúa Ísafjarðarbæjar.

 

7.      Beiðni um tölvukaup hjá Grunnskóla Ísafjarðar. 2013-10-0038.

Lagt er fram minnisblað Eddu Maríu Hagalín, fjármálastjóra, og Margrétar Halldórsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs, þar sem óskað er eftir að keyptar verði fartölvur og spjaldtölvur fyrir kennara og fartölvuvagna.

Bæjarráð samþykkir beiðnina, gera þarf viðauka við fjárhagsáætlun vegna ársins 2013 og vísa þessum lið til vinnu við fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2014.

 

8.      Frumathugun á íþróttasvæðinu á Torfnesi, sundlaug o.fl. 2013-10-0044.

Lögð er fram til kynningar greinargerð og teikningar Glámu-Kím, vegna frumathugunar á Torfnesi.

Bæjarráð leggur til að haldið verði áfram með þessa vinnu og staða mála verði kynnt fyrir nefndum.

 

9.      Atvinnuþróunarverkefni í samstarfi við Atvest. 2010-08-0057.

Lögð eru fram drög að samningi milli Ísafjarðarbæjar og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða um atvinnuþróunarverkefni, samkvæmt bókun á 811. fundi bæjarráðs vegna viðbótar styrkveitingar.

Bæjarstjóra falið að gera breytingar á samningnum í samræmi við umræður.

 

10.  Frumdrög að fjárhagsáætlun. 2013-06-0033.

Frumdrög að fjárhagsáætlun ársins 2014 kynnt lauslega.

 

Fleira ekki gert. Fundargerð upp lesin og samþykkt, fundi slitið kl. 09:17.

 

Þórdís Sif Sigurðardóttir, sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs.

Gísli Halldór Halldórsson, formaður.

Albertína Elíasdóttir.                                                           

Arna Lára Jónsdóttir.

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?